Rannsókn álmálsins
Miðvikudaginn 17. október 1990


     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég tók eftir því að þetta mál var hér lagt fram á þinginu fyrir fáum dögum en hafði ekki gert mér ljóst að það væri lagt fram í deild þó vissulega megi lesa það af þskj. og er því ekki sérstaklega undir það búinn að ræða þetta mál eins og vert væri nú þegar það er komið hér á dagskrá. Ég vildi hins vegar ekki láta hjá líða að segja álit mitt á þessari till. sem hér er flutt og felur það í sér að þessi hv. þingdeild hlutist til um að skipuð verði sjö manna rannsóknarnefnd samkvæmt ákvæðum stjórnarskrár til að rannsaka og gefa Alþingi og almenningi skýrslu um alla þætti álmálsins, eins og segir þar í upphafi. Ég er því fyllilega sammála að þörf sé á því í sambandi við þetta stóra mál að Alþingi láti ekki dragast að fara ofan í einstaka þætti málsins með ákveðnari hætti en kostur er á með því að lesa yfir skýrslur frá framkvæmdarvaldinu, hæstv. iðnrh., sem hefur nú nýlega gefið Alþingi yfirlit um stöðu málsins eins og hann vill leggja það hér fyrir til upplýsingar. Það er vissulega góðra gjalda vert að ráðherrann hefur gefið Alþingi slíka skýrslu. Mér er ekki ljóst hvort hún verður rædd í sameinuðu þingi, en full ástæða væri til þess að hún væri þar tekin á dagskrá og rædd. En það eitt út af fyrir sig er ekki nægjanlegt í sambandi við þetta mál vegna þess að eins og fram kemur hér í till. hv. flm. Stefáns Valgeirssonar er mikil ástæða til að Alþingi athugi við fyrstu hentugleika mjög marga þætti sem varða undirbúning málsins og stöðu þess vegna þess að það er gert ráð fyrir því að inn í þingið komi síðar á þessu haustþingi, samkvæmt því sem ráðherrar hafa greint frá hér, frv. til heimildarlaga um byggingu álbræðslu, a.m.k. mun það áform hæstv. iðnrh. að svo verði. Það hefur jafnframt verið greint frá því að þörf sé á að mati hæstv. ráðherra, iðnrh. og gott ef hæstv. forsrh. nefndi það ekki einnig, að afgreiða einhverja slíka heimild hér frá þinginu fyrir áramót og það gefur auðvitað auga leið að það er ekki mikið ráðrúm fyrir þingið að átta sig á meginþáttum þessa máls ef þetta yrði nú gangurinn. Því er full ástæða til þess að sérstök rannsóknarnefnd fari yfir undirbúning málsins, hvernig að honum hefur verið staðið, til þess að auðveldara sé fyrir þingið að bregðast við ef tillögur koma frá stjórnvöldum, frá ríkisstjórninni sem varða málið.
    Ég get ekki ímyndað mér að neinn hafi við það að athuga að slík rannsókn fari fram, skipun slíkrar nefndar og athugun á hennar vegum. Það verður a.m.k. að ætla það að þeir sem hafa borið þetta mál fram og staðið að samningagerð þar að lútandi hafi áhuga á því að vandað verði til allra þátta. Vinna á vegum rannsóknarnefndar sem þingið kysi ætti aðeins að stuðla að því að upplýsa einstaka þætti og flýta fyrir því að unnt væri að taka efnislega á málinu þegar og ef það kemur hingað inn í þingsali.
    En jafnvel þó svo verði nú ekki að stjórnvöld hverfi frá því að bera slíkt mál hér fram þá er að mínu mati engu að síður gagnlegt og þörf á því og fyllsta ástæða til þess að nefnd kjörin af þinginu fari

yfir málatilbúnaðinn, hvernig að þessu máli hefur verið staðið, því að það gæti verið lærdómsríkt fyrir jafnt Alþingi sem stjórnvöld að fá niðurstöðu úr slíkri athugun á vegum sérstaklega þar til kjörinnar nefndar vegna frekari málatilbúnaðar, vegna frekari athugunar á slíkum málum sem lúta að nýtingu íslenskra orkulinda og byggingu á verksmiðjum í því samhengi. Ég vil nefna það hér, það kemur ekki sérstaklega fram í tillögutextanum, að ég fékk séð við fljótan og skjótan yfirlestur, að sá þáttur sem lýtur að staðsetningu umræddrar álbræðslu og málsatvik sem tengjast tillögum þar að lútandi er sá þáttur sem væri nú ekki síst ástæða til fyrir þingið að kanna.
    Það er væntanlega öllum í fersku minni hvað gengið hefur á á síðustu mánuðum varðandi þennan þátt, hvernig umræða um þetta mál hefur öðru fremur snúist um það hvar ætti að setja þetta fyrirtæki niður og að þeim þætti málsins hefur verið staðið með algerlega ósæmilegum hætti af hálfu íslenskra stjórnvalda, algerlega ósæmilegum hætti. Það er ekki of sterkt til orða tekið. Og niðurstöðuna þekkja menn svo. Eftir að búið er að hafa heilu byggðarlögin og heilu landshlutana að fíflum af hálfu íslenskra stjórnvalda, af hálfu hæstv. iðnrh., þá er það tilkynnt sem niðurstaða þvert ofan í stefnu ríkisstjórnarinnar um atvinnuþróun í landinu, þvert ofan í það sem sagt hefur verið og látið að liggja að ætti að verða niðurstaða varðandi þennan þátt málsins, að þetta risafyrirtæki að fjármagni til og tilkostnaði eigi að reisa við bæjardyr Reykjavíkur ef samningar að öðru leyti ganga upp.
    Eitt af því sem tengdist þessum þætti máls var það að iðnrn. framsendi bréf frá hinum erlendu fyrirtækjum til sveitarfélaga á nokkrum stöðum á landinu sl. vetur, síðla vetrar. Gerðist eins konar póstberi fyrir þessi erlendu fyrirtæki þar sem lagðar voru spurningar, heilu listarnir, fyrir sveitarfélögin og þau beðin að svara hvaða kosti þau byðu þessum landnemum ef þeim þóknaðist að sigla með þetta fyrirtæki í þessa eða hina höfnina, í þennan eða hinn fjörðinn, eða þennan eða hinn skagann. ( Forseti: Forseti vill benda hv. þm. á að samkvæmt þingsköpum er ræðutíma hans lokið í fyrri umferð og óskar eftir því að hann stytti mál sitt.)
    Virðulegur forseti. Þessi þáttur málsins, þótt það væri ekki nema sá sem lyti að staðsetningunni einni saman væri nægt tilefni til þess að kjósa þá nefnd sem lagt er til í þessari till. að kosin verði. En að öðru leyti vil ég segja það, virðulegur forseti, að auðvitað átti Alþingi að bregðast við fyrir lifandis löngu þegar upp komu hugmyndir um að fara að undirbúa slíka álbræðslu og það var gert af þeim sem hér stendur og þingmönnum Alþb. á þinginu 1987 -- 1988 með þáltill. um úttekt vegna nýrrar álbræðslu. Þar var lagt til að farið yrði ofan í saumana af þinginu á þeim hugmyndum sem þá lágu fyrir og voru svipaðar þeim sem nú eru í undirbúningi og verið er að reyna að semja um og gert ráð fyrir að þingið legði mat á alla meginþætti í sambandi við áform um byggingu stórrar álbræðslu, alla meginþætti málsins, þar á meðal staðsetningu, en einnig orkuverð, eignaraðild og hvað

eina sem snerti þetta mál. Því miður var þessi till. ekki samþykkt, hún fékk ekki nauðsynlegan stuðning hér í þinginu. Menn sjá það kannski núna á þessum dögum að það hefði verið ástæða til þess þá að samþykkja slíka till. og menn hefðu kannski betri stöðu til að meta það mál sem nú er mest umrætt í landinu og látið er að liggja að kunni að berast með einum eða öðrum hætti hingað inn í þingsal.