Rannsókn álmálsins
Miðvikudaginn 17. október 1990


     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég hafði raunar heldur ekki ætlað mér að taka þátt í þessari umræðu þar sem ég kynnti mínar skoðanir og okkar kvennalistakvenna einkum í atvinnumálum varðandi álver eða aðra atvinnukosti mjög ítarlega hér á mánudagskvöldið. En ég get ekki setið hér hjá vegna þeirra orða sem féllu um atvinnuleysið í Reykjaneskjördæmi.
    Atvinnuleysi er afskaplega alvarlegt mál hvar sem það er til staðar og ég vil benda á hverjir það eru sem eru atvinnulausir. Það eru nefnilega fyrst og fremst konur en ekki karlar, bæði ef litið er á landið sem heild og ekki síst sést þetta í Reykjaneskjördæmi þar sem frá janúar og fram í september var 1% atvinnuleysi meðal karla en 3% atvinnuleysi meðal kvenna. Við höfum verið óþreytandi, kvennalistakonur, að benda á önnur atvinnutækifæri en stóriðju, önnur og betri atvinnutækifæri sem byggja á bæði þeirri hefð og þeirri reynslu og þeirri verkþekkingu sem við höfum hér í landinu og einnig á þeirri nýsköpun sem verður að verða hér og hlýtur að verða. Við höfum bent á að ekki má spara til rannsókna og við höfum bent á að ekki má eyða öllu fé í stóriðjudrauma þegar atvinnuvegir sem eru vænlegir, svo sem ferðaþjónusta, sem skila miklum arði og sýna mikla framtíðarmöguleika þurfa að leita í mun magrari sjóði og ég held að við verðum að endurtaka þetta enn og aftur.
    Ég vil Reyknesingum sem öðrum landsmönnum það að hér byggist upp heilbrigð atvinnustefna, að fullvinnsla sjávarfangs verði eitthvað annað en orð í munni, verði framkvæmd, því að það eru dæmi til þess að þetta er mjög raunveruleg atvinnugrein ef vel er á málum haldið og vel hugað að rannsóknum, vöruþróun og markaðskynningu. Við eigum annarra kosta völ en stóriðjunnar til þess að mæta því atvinnuleysi sem kemur upp á hverjum stað og á Reykjanesi með blessunarlegum samdrætti, ef af verður, á hernaðarumsvifum þar og við verðum að líta þangað sem einhverja skynsamlega atvinnuuppbyggingu er að hafa.