Íslenska óperan
Fimmtudaginn 18. október 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi skýrði ég frá því í ræðu minni hér áðan að það hefði verið tekin ákvörðun í málinu að hálfu ríkisstjórnarinnar sem hv. 12. þm. Reykv. hefur greinilega ekki heyrt. Ákvörðun um það að standa að þeim hluta málsins sem snýr að ríkinu, sem er meginhluti málsins. Það liggur fyrir. Bæði varðandi framtíð og auk þess varðandi árið 1990 með greiðslu á 7 millj. kr. til Óperunnar á þessu ári umfram fjárlög en fjárlagatalan í ár sýnist mér að sé 13,9 millj. kr. Þannig að það liggur fyrir og það sagði ég hér áðan.
    Í öðru lagi, við skulum ekki rugla saman þessum málum, óperumálinu og málefnum Leikfélags Reykjavíkur, það er algjörlega óþarfi að gera það og í raun og veru engin efni til þess. Þó að mönnum hafi kannski dottið í hug að búa til einhverja vegi þar á milli þá er það óviðkomandi efni málsins eins og það liggur núna.
    Varðandi aðhald að málinu þá var ég akkúrat ekki að segja það að ég væri að vanþakka framlög listamanna og segja að þeir hefðu okrað á sinni vinnu. Það sem ég var að segja er þetta: Í fjárlögum er tiltekin tala. Menntamálaráðherra, hver sem hann er, er gert að vinna eftir þeirri tölu --- eða er það ekki? Eru ekki haldnar nokkuð langar ræður um það hér í þinginu stundum að ráðherrarnir eigi að passa að fjárlagatölurnar haldi? Það er auðvitað reynt að gera.
    Það sem ég er að segja er það að það er mjög óþægilegur veruleiki að búa við þegar þessar tilteknu tölur eru í fjárlögum, að fá síðan tilkynningar um það með tveggja sólarhringa fyrirvara að það eigi að loka húsum Íslensku óperunnar. Ég tel að þarna þurfi að halda betur utan um skipulag mála en gert hefur verið og þar ekki við það fólk að sakast, að mínu mati, sem lagt hefur á sig ómælda listræna vinnu á undanförnum árum, m.a. söngvara og kór og hljóðfæraleikara. Hér er einfaldlega um það að ræða að skipulag þessara mála hefur ekki verið í nógu góðu lagi. Jafnframt því sem tekin verður ákvörðun um það að taka á málum Óperunnar til frambúðar, þá verður að treysta þessi skipulagsmál þannig að hlutirnir gerist ekki með þeim hætti sem verið hefur að undanförnu, sem er satt að segja á köflum með ólíkindum, en ég ætla ekki að fara nánar út í hér.
    Varðandi stefnu málsins, hver er hún? Hún er auðvitað sú að við eigum að halda hér uppi óperustarfsemi enda er okkur lögskylt að gera það samkvæmt þjóðleikhúslögunum, þó ekki komi annað til. Þannig að stefna löggjafans hefur verið mörkuð. Ákvörðun um fjárframlög í þessu skyni er hins vegar ekki í höndum menntmrh., hann gerir tillögur, ríkisstjórn gerir tillögur, endanleg ákvörðun er í höndum Alþingis. Og endanleg niðurstaða þessara mála fæst að sjálfsögðu ekki fyrr en Alþingi hefur afgreitt fjárlög fyrir árið 1991, þó að unnt sé að ná samkomulagi um stefnuna vonandi mikið mikið fyrr, vonandi í síðasta lagi fljótlega eftir næstu mánaðamót.