Íslenska óperan
Fimmtudaginn 18. október 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) :
    Ráðherranum er það ljóst, hæstv. forseti, að það er vandi að aga þessa hjörð sem hér er.
    Í ár eru á fjárlögum 13.880 þús. eftir að sú niðurfærsla hefur átt sér stað á fjárlagatölum sem byggðist á margfrægri þjóðarsátt snemma á þessu ári. Til viðbótar koma 3 millj. af ráðstöfunarfé menntmrn. sem ákveðið var að veita í lok maí 1990. Til viðbótar við það munu koma 4 millj. kr. á væntanlegum fjáraukalögum, en frv. um þau verður lagt hér fram næstu daga. Auk þessa eru skuldir Óperunnar á miðju þessu ári 24 millj. kr. og á þeim er verið að taka í samvinnu við Landsbankann. Þetta er árið 1990.
    Síðan kemur árið 1991 og áfram. Þar er talað um heildarfjárþörf upp á 75 millj., Óperan ætlar að borga sjálf 40 millj., síðan er gert ráð fyrir því að opinberir aðilar komi til skjalanna. Ríkið hefur fyrir sitt leyti samþykkt 20 -- 25 millj. af þessum 35 millj. kr. sem þá eru eftir. Það er verið að ræða um hitt málið við borgina. Ég er ekki að varpa neinni ábyrgð á borgina í þessu efni. Ég skal axla þann hluta af ábyrgðinni sem mér ber, en ég vona að tölurnar séu skýrar og vona að hv. þm. átti sig líka á því að ég get því miður ekki svarað fyrir borgina, jafnvel þó ég feginn vildi.