Jöfnun orkukostnaðar
Fimmtudaginn 18. október 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegur forseti. Hv. 2. þm. Austurl. spyr hvað gert verði á næstunni til þess að jafna orkukostnað í landinu og nefnir húshitunarkostnað, kostnað á orku til heimilisnota og til fyrirtækja. Ég vil skýra frá því að ég hef nýlega skipað nefnd til að gera tillögur um verðjöfnun á raforku og undirbúa frv. til laga um það efni. Í þessari nefnd sitja fulltrúar allra þingflokka. Auk þess munu aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, forstöðumaður tæknideildar Rafmagnsveita ríkisins og forstöðumaður orkubúskapardeildar Orkustofnunar starfa með þessari nefnd.
    Í erindisbréfi þessarar nefndar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta: ,,Með vísun til álits iðnn. Ed. um frv. til laga um breytingu á lögum um Landsvirkjun á þskj. 1210 og umræðuna um málið á þingi, hefur verið ákveðið að skipa nefnd til að gera tillögur um verðjöfnun á raforku og undirbúa frv. til laga um það efni.``
    Ég tel rétt að bíða með yfirlýsingar um aðgerðir til jöfnunar orkuverðs meðan þessi nefnd situr að störfum en ég geri ráð fyrir, eins og kom fram í því sem ég las, að frv. til laga um þetta efni komi til kasta þingsins í vetur.
    Vegna þess sem kom fram í máli hv. fyrirspyrjanda langar mig til að benda á að á liðnu ári voru gerðar mikilvægar ráðstafanir sem hafa gert það að verkum að munurinn á töxtum Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða annars vegar og t.d. taxta Rafmagnsveitu Reykjavíkur hins vegar hefur ekki verið minni en hann er í dag í annan tíma frá árinu 1980.
    Hv. fyrirspyrjandi nefndi heimilisnotkunartaxtann og taldi hann 22,5% hærri hjá RARIK en hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Til glöggvunar á þessu máli má nefna að árið 1980 var þetta sama hlutfall 40% þannig að okkur hefur nokkuð miðað í rétta átt. Árið 1988 var þetta hlutfall 32%, 1987 36%. Hér hefur því bilið mjókkað.
    Líku máli gegnir um iðnaðartaxtana. Þar er nú kannski ekki alveg rétt að nota þá tölu sem hv. þm. nefndi, 13,5%. Samkvæmt samandregnu mati Orkustofnunar er e.t.v. nær lagi að segja að þetta hlutfall sé 20% hærra, þ.e. að taxtinn sé 20% hærri hjá RARIK en hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur en var við upphaf níunda áratugarins helmingi hærri, 50% hærri, og hefur lengst af verið á því bili. Þannig að hér hefur verulegur árangur náðst.
    Hv. þm. bar líka saman taxta Hitaveitu Reykjavíkur og rafhitunartaxta Rafmagnsveitnanna og taldi hann vera 2,5 hærri fyrir rafhitun. Í því sambandi er fróðlegt að skoða að árið 1980 var þetta 4,5 en ekki 2,5. Árið 1983 var þetta 3,7 en ekki 2,5. Þannig að menn skyldu hafa það hugfast að til jöfnunar hefur verulegur árangur náðst.