Jöfnun orkukostnaðar
Fimmtudaginn 18. október 1990


     Þorv. Garðar Kristjánsson :
    Hæstv. forseti. Hæstv. iðnrh. gat um það að munurinn á orkukostnaði í landinu hefði minnkað. Ég vil vekja athygli á því að það er ekki vegna þess að kostnaðurinn hjá þeim fyrirtækjum sem hafa hæstu taxtana hafi lækkað heldur vegna þess að verðið hjá þeim fyrirtækjum sem hafa lægsta taxtana hefur hækkað.
    Hér er hreyft hinu mikilvægasta máli. En það er ömurlegt til þess að vita að í svo mikilvægu máli sem jöfnun hitunarkostnaðar er má segja að vegurinn til glötunar hafi verið varðaður góðum fyrirheitum. Enn reikna menn með að eitthvað rofi til og hæstv. ráðherra sagði að nú nýverið, í lok þessa kjörtímabils, þá fyrst hefur verið skipuð nefnd til þess að fjalla um þetta mál. Þetta segir sína sögu.
    Ég minni aðeins á það hver alvara ríkisstjórnarinnar hefur verið í þessu máli með því á síðasta þingi að leggja fram frv. um orkuskatt. Það frv. var ekki til þess að jafna orkuverðið. Það var til þess að hækka orkuverðið. Það var siðferðislega óhæfa. Þá gerðist það sem ég ætla að sé eindæmi að almannasamtök á einu þýðingarmiklu sviði í þjóðmálum okkar, öll raforkufyrirtæki landsins, öll hitaveitufyrirtæki landsins skrifuðu hæstv. iðnrh. bréf og fóru fram á það að hann gengist fyrir því að hæstv. fjmrh. tæki þetta mál til baka. Fyrir harða andstöðu stjórnarandstöðunnar í þessu máli lognaðist það út af á síðasta þingi. En ég leyfi mér að spyrja hv. fyrirspyrjanda hvort hann hafi trú á því að það hafi orðið síðan á síðasta þingi nokkur hugarfarsbreyting eða stefnubreyting hjá félaga hans, hæstv. fjmrh., í þessu máli.