Jöfnun orkukostnaðar
Fimmtudaginn 18. október 1990


     Egill Jónsson :
    Virðulegi forseti. Það er tvennt sem ég hef sérstaklega við að athuga í svari hæstv. iðnrh. hér áðan. Í fyrsta lagi er það taxtasamanburðurinn sem varir allt frá 1980 í hans máli. Við vitum það hér öll, væntanlega iðnrh. líka, að á þessu tímabili var framkvæmd niðurgreiðsla á raforkuverði. Taxtarnir voru ákveðnir og síðan kom ákveðin niðurgreiðsla til frádráttar þannig að neytandinn greiddi allt aðra tölu en þá sem taxtinn ákvað. Samanburðurinn er því að þessu leyti rangur.
    Að öðru leyti vildi ég líka vekja athygli á því sem kom hér reyndar fram hjá síðasta ræðumanni að það er út af fyrir sig ekki kannski aðalatriðið hvernig mismunurinn er í landinu heldur hitt að verð á þessari mikilvægu neysluvöru, raforkunni, er of hátt. Það fer of mikill hluti af launum fólks til þess að greiða þennan kostnað og það er aðalatriðið. Og það hlýtur satt að segja að vekja eftirtekt og sýnir áhugaleysi hæstv. iðnrh. í þessum efnum hvaða vörn hann tekur upp í þessu máli. Það staðfestir hann raunar með því að taka nú til við að skipa nefnd til að koma fram tillögum um þau efni sem stjórnarsáttmálinn ákvað. Hann ætlar að koma þeim breytingum á eftir að hann er orðinn óbreyttur þingmaður, hættur að vera ráðherra. Það er náttúrlega alveg augljóst að málið gengur eftir þeim nótum sem iðnrh. vill og þær nótur eru að hann vill ekki að það verði árangur í þessum málum.