Jöfnun orkukostnaðar
Fimmtudaginn 18. október 1990


     Hjörleifur Guttormsson (um þingsköp) :
    Virðulegur forseti. Ég lýsi sérstakri ánægju yfir því að hæstv. forseti fer að lesa upp úr þingsköpum nú í byrjun þings og minna sig og hv. þm. á hver þingsköpin séu. Það tel ég einkar vel til fundið. Ég hef reynt að hjálpa til við það að þingsköp væru haldin, það er rétt munað hjá hæstv. forseta, ég gerði það á síðasta þingi oftar en einu sinni. Það eina sem ég fer fram á er að þingmenn séu jafnir fyrir þingsköpunum, að það sé jafnræði í sambandi við stjórnun þingsins, það er það sem ég er að biðja um.
    Ég bið hæstv. forseta að fara yfir hvernig haldið var á máli varðandi síðustu fyrirspurn. Ég held að mig misminni ekki að fyrirspyrjandi hafi tekið þrisvar til máls, gert að lokum örstutta athugasemd. Fyrir því er hefð í þinginu að fyrirspyrjandi og ráðherra geti gert hið þriðja sinn örstutta athugasemd en rétt er að það er ekki kveðið á um það í þingsköpum. Þetta er mín athugasemd og ábending góðfúsleg til hæstv. forseta og ég bið um að menn séu jafnir hér fyrir þingsköpunum og að haldið sé samræmt á málum og vænti þess að fá orðið til að gera örstutta athugasemd.