Átak gegn einelti
Fimmtudaginn 18. október 1990


     Flm. (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir þáltill. um átak gegn einelti sem er að finna á þskj. 9. Flytjendur auk mín eru þær Danfríður Skarphéðinsdóttir, Guðrún Halldórsdóttir, Kristín Einarsdóttir, Málmfríður Sigurðardóttir og Þórhildur Þorleifsdóttir. Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela félmrh. og menntmrh. að beita sér fyrir því að gert verði átak gegn einelti meðal barna og unglinga. Skipaður verði samstarfshópur fólks sem hefur reynslu af starfi með börnum og unglingum og honum falið að skila áætlunum um úrbætur gegn einelti eigi síðar en 1. sept. 1991.``
    Þáltill. er samhljóða tillögu sem við kvennalistakonur fluttum sl. vor. Hún var þá send til umsagnar ýmissa aðila, en tími vannst ekki til að afgreiða hana úr nefnd. Hins vegar hafa margar umsagnir borist og eru þær allar mjög jákvæðar. Í þeim kemur glöggt fram hve knýjandi það er að takast á við þann vanda sem einelti er af ábyrgð og röggsemi. Ekki er eftir neinu að bíða. Mig langar að vitna sérstaklega í umsögn frá fræðslustjórn Reykjanesumdæmis en þaðan barst mjög vönduð umsögn rituð af starfsfólki ráðgjafar - og sálfræðiþjónustu fræðsluskrifstofunnar. Þar segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Samkvæmt niðurstöðum frá Noregi og Svíþjóð eru um það bil 5% barna þátttakendur í alvarlegu einelti, annaðhvort sem þolendur eineltis eða gerendur. Niðurstöður kannana sem gerðar hafa verið hérlendis benda til að einelti sé síst minna hér á landi en erlendis.
    Börn sem eiga undir högg að sækja í félagslegum samskiptum við jafnaldra eru líklegri en hin að þurfa á þjónustu geðdeilda að halda á fullorðinsárum. Þá eru meiri líkur á að börn sem ráðast á önnur börn í æsku lendi í afbrotum eða eigi í fíkniefnavanda síðar á ævinni. Einelti er tvímælalaust sárt fyrir þann sem verður fyrir því á meðan á því stendur, en jafnframt er veruleg ástæða til að óttast langtíma afleiðingar af einelti.``
    Frá því að við kvennalistakonur fluttum tillögu um átak gegn einelti sl. vor hefur mikið verið fjallað um ýmislegt er varðar hag og líðan barna og unglinga. M.a. hefur verið fjallað um einelti. Þar vil ég nefna tímaritið Ný menntamál sem í sumar var með mjög ítarlega frásögn og greinar um einelti og sama má segja um ráðstefnur fagfólks, kennara, sálfræðinga, heilbrigðisstétta og víðar. Menn eru að vakna upp við vondan draum og gera sér grein fyrir hvert ástand þessara mála er hér á landi.
    Töluverð þekking er fyrir hendi um einelti á Íslandi þótt hennar hafi ekki verið aflað skipulega nema um einstaka og afmarkaða hópa. Ýmsir sálfræðingar og fleiri sem starfa í þágu barna og unglinga búa yfir dýrmætri reynslu úr starfi sínu og vita hvað hægt er að gera til að fyrirbyggja einelti og hjálpa þeim sem beitt hafa aðra einelti eða orðið fyrir því. Faglegan grunn vantar því ekki og á honum er hægt að byggja.
    Meðal þeirra sem bent hefur verið á að hafi sérstaklega fjallað um einelti eru allmargir sálfræðingar og annað fólk sem starfað hefur mikið með börnum og unglingum. Ég vil nefna Svövu Guðmundsdóttur, forstöðumann sálfræðideildar skóla í Austurstræti, Brynjólf G. Brynjólfsson sem starfar einnig fyrir sálfræðideild skóla í Reykjavík, Bergþóru Gísladóttur, sérkennslufulltrúa á Vesturlandi, og Margréti Arnljótsdóttur, sálfræðing hjá Fræðsluskrifstofunni á Reykjanesi. Auk þess er vert að benda á að sálfræðingarnir Ingþór Bjarnason og Trausti Valsson hafa gert sérstaka rannsókn á líðan og félagslegri aðstöðu barna og unglinga í Reykjavík og á Siglufirði. Þetta er tiltölulega nýleg könnun.
    Gerðar hafa verið ýmsar aðrar kannanir, m.a. á högum 14 ára unglinga í Reykjavík 1976 og á vegum sálfræðideildar skóla könnun á ýmsum þáttum skólalífsins hjá 7 og 11 ára nemendum átta skóla í Reykjavík. Starfsfólk unglingaráðgjafar, útideildar og unglingaathvarfa í Reykjavík og Unglingaheimilis ríkisins býr yfir mikilli reynslu sem að gagni getur komið verði gert átak gegn einelti. Af nógu er að taka en þessa þekkingu og reynslu verður að nýta. Það ætti ekki að vera vandi að manna samstarfshóp sem mótaði átak gegn einelti, enda rétt að geta þess að ýmsir þeir sem sent hafa umsögn um þessa tillögu hafa jafnframt boðið fram krafta sína í slíkan samstarfshóp. En fáir eru reiðubúnir til þess að bíða of lengi eftir aðgerðum.
    Fóstrur, kennarar, sálfræðingar og ýmsir fleiri hafa reynt að mæta þeim vanda sem einelti er, reynt að fyrirbyggja ofbeldi meðal barna og unglinga með öllum tiltækum ráðum og liðsinna þeim sem eiga undir högg að sækja, svo og þeim sem beita ofbeldi því að þeir eiga einnig við vandamál að stríða, og jafnframt að fjalla um einelti og annað ofbeldi í skólum því að stór hópur situr hjá og lætur slíkt líðast.
     Í a.m.k. einum skóla hefur verið gert sérstakt tímabundið átak: Unglingar gegn ofbeldi. Árangur þess starfs gefur tilefni til bjartsýni. Í þeim tilvikum hefur verið um að ræða frumkvæði og framtak starfsfólks skólanna og sálfræðinga fræðsluumdæmanna. Þessari mikilvægu fræðslu er ekki ætlað rúm í venjulegu skólastarfi og hefur því þurft að vinna mikið starf í sjálfboðavinnu. Tæplega er hægt að ætlast til að svo verði til langframa. Auk þess er víða lítið sem ekkert fjallað um þessi mál og árangurinn í heild hlýtur að verða takmarkaður þegar ekki er um markvissara starf að ræða en þarna er. Full þörf er á að sem flestir vinni saman gegn einelti, fagfólk með foreldrum, kennurum og nemendum, og að sálfræðingar komi til ráðgjafar um samskipti, innan skóla og utan. Það þarf allt að gera sem unnt er til að hindra að aðstæður skapist fyrir einelti.
    Hið sérstaka átak, sem mælt er í þessari tillögu með að gert verði gegn einelti, er sú leið sem talin er vænlegust til árangurs. Það er nefnilega ekki tilviljun að menn líta til þessarar leiðar. Í Noregi og í Japan hefur verið gert sérstakt átak gegn einelti og árangur þar hefur verið mjög góður. Í Svíþjóð hefur ýmislegt verið gert til að bæta aðstöðu nemenda í frímínútum, skapa þeim virka tómstundaiðju og gera nemendur meðvitaða um mannleg samskipti, ekki einungis innan skóla heldur einnig utan.
    Í Svíþjóð var raunar í sumar mikil umræða um einelti og alvarlegar afleiðingar þess. Sú umræða fór fram á síðum dagblaða og mjög er þrýst á stjórnvöld í Svíþjóð að gera hliðstætt átak því sem gert var í Noregi og í Japan og það þrátt fyrir að þar hafi þó meira verið að gert en hér á Íslandi. Því miður höfum við dæmi um blaðafregnir um ofbeldi í hópi barna hér á landi, dæmi sem sennilega eru aðeins toppurinn af ísjakanum.
    Kveikjan að átaki Norðmanna og Japana var umfjöllun fjölmiðla um vaxandi einelti í þessum löndum og afleiðingar þess sem voru orðnar mjög ógnvekjandi. Ofbeldi í hópi barna og unglinga, ekki síst einelti, var talið ein helsta orsök þess að sjálfsvígum skólabarna hafði fjölgað mjög. Þegar loksins var gripið til aðgerða og gert átak gegn einelti varð árangurinn þó betri en menn höfðu þorað að vona en það var hart að þetta þurfti til að hrinda slíku átaki af stað.
    Vonandi skilst Íslendingum að gera þarf átak gegn einelti án þess að til slíkrar fjölmiðlaumfjöllunar komi og slíkra atburða sem hér um ræðir. Þó getum við greint ákveðin hættumerki í íslensku samfélagi nú þegar. Bent hefur verið á að eitt þessara hættumerkja sé sú staðreynd að tíðni sjálfsvíga íslenskra drengja er sú þriðja hæsta í Evrópu. Reynsla annarra þjóða sýnir að ofbeldi og einelti geta verið ástæða fyrir sjálfsvígum barna og unglinga. Við megum ekki sitja hér hjá.
    Skólafólk hefur ýmsar sögur að segja af alvarlegu ofbeldi gagnvart börnum og unglingum. Eftir erindi um einelti á ráðstefnu Samtaka heilbrigðisstétta nú nýverið urðu ákafar umræður og mér er sérstaklega minnisstæð frásögn eins manns, íþróttakennara ef mig misminnir ekki. Hann kom að einum nemenda sinna sem hafði verið hengdur upp í staur og límdur fastur með sterku límbandi. Kennarinn losaði drenginn að sjálfsögðu úr prísundinni. En svo mikil var skelfing þessa drengs að hann fékkst ekki til að segja hverjir hefðu leikið hann svo grátt heldur reyndi hann að halda því fram að hann hefði gert þetta sjálfur.
    Er ekki ástæða til að taka mál alvarlega þegar svona gerist? Er ekki rétt að nýta þau úrræði sem til eru og reyna að stöðva slíkt ofbeldi? Þetta dæmi er því miður hvorki hið eina né hið versta sem til er um ofbeldi innan hóps barna og unglinga. Og það er fullkomið ábyrgðarleysi að láta sem ekkert sé. Átak gegn einelti er auðvitað aðeins eitt af því sem þarf að gera. Annað er t.d. að kanna og grípa til aðgerða gegn ofbeldi í myndmiðlum og það höfum við kvennalistakonur bent á og fengið sem betur fer undirtektir við. Sérstaklega þarf einnig að hyggja að unglingum sem búa við vímuefnavanda og fyrir því höfum við kvennalistakonur einnig beitt okkur.
    Þannig má ekki láta nokkra leið ófarna sem hugsanlega er fær til þess að koma í veg fyrir að börn og unglingar þurfi að þola ofbeldi eða verða undir vegna afleiðinga þess. Þótt starfshópi gegn einelti sé ætlaður tími til haustsins 1991, samkvæmt tillögu þessari, verður jafnframt að huga að því sem hægt er að gera nú þegar. Nota verður þá þekkingu og reynslu sem tiltæk er og hefja fræðslu um einelti og afleiðingar þess og gera þær úrbætur sem augljóslega geta dregið úr ofbeldi meðal barna og unglinga og það nú þegar. Einkum er nauðsynlegt að fræðsla nái til þeirra stétta sem mest hafa samskipti við börn og unglinga svo fólk í þessum stéttum geti miðlað þekkingunni áfram, í leikskólum, í skólum, svo að dæmi séu tekin. Þess má geta að einelti er sérstaklega tekið fyrir í fósturnámi en því miður er það ekki hluti kennaranáms þótt margir kennarar hafi reynt að afla sér upp á eigin spýtur þekkingar á einelti. Vandasamara telja ýmsir að ná til foreldra en þó ekki útilokað. Þeim stendur þó þetta mál svo nærri að aðeins sú vitneskja að eitthvað sé hægt að gera í málunum yrði áreiðanlega til þess að foreldrar frekar grípa í taumana en nú er. Minna má á að í tengslum við kennsluefni gegn vímuvörnum Lions Quest er handbók fyrir foreldra og beinlínis ætlast til þess að þeir taki þátt því átaki. Raunar er það námsefni talið heppilegt sem hluti af átaki gegn einelti því að það byggist ekki síst á að styrkja sjálfsmynd unglinganna sem augljóslega skiptir miklu máli í átaki gegn einelti.
    Það er ekki hlutverk okkar flm. þessarar tillögu að lýsa því nákvæmlega hvernig best verði gert átak gegn einelti, heldur einungis að gefa hugmyndir um það hvað hægt er að gera því það er margt og mikið eins og ég vona að fram hafi komið í máli mínu. Okkar er það að vekja umræðu um málið. Nóg er til af fólki með góða þekkingu á því hvernig best er að vinna það áfram.
    Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til síðari umr. og hv. félmn.