Framkvæmd flugmálaáætlunar
Fimmtudaginn 18. október 1990


          Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) :
     Hæstv. forseti. Ég skal reyna á þeirri einni og hálfu mínútu sem eftir er að svara þessum spurningum. Hið rétta í þessu máli er að það hafa að sjálfsögðu engar ákvarðanir verið teknar um eitt eða neitt í þessum efnum. Flugmálastjórn hefur upplýst samgrn. um það að nokkrar breytingar hafi orðið á forsendum frá því að flugmálaáætlun var fyrst undirbúin hér á Alþingi sl. haust og síðan afgreidd og nauðsynlegt sé að gera þá tilteknar ráðstafanir í því framhaldi. Það erindi var framsent til fjvn. þegar í stað og Flugmálastjórn hefur óskað eftir að fá að kynna þingmannahópum kjördæmanna þessar breyttu aðstæður eins og sjálfsagt er og það verður svo auðvitað Alþingis að taka á þeim málum í ljósi þeirra breytinga sem hafa orðið.
    Ég held ég geti róað hv. málshefjanda og aðra þingmenn með því að hér eru ekki veigamiklar breytingar á ferðinni. Í nokkrum tilvikum eru verk einhverjum mánuðum síðar á ferðinni en áætlað var samkvæmt flugmálaáætlun. Það á til að mynda við um Egilsstaðaflugvöll. Þar er réttara að segja að verkið hafi tafist eða því hafi seinkað um tvo til þrjá mánuði en að tala um frestun og alls ekki neina niðurfellingu á því verki og ætlunin er að reyna að semja á næstu vikum um næsta verkáfanga. Það hefur verið unnið fyrir um 150 millj. kr. á þessu ári og ein af ástæðum þess að verkið á þessu ári stendur eins og það stendur er ósköp einfaldlega sú að verkáfangi á árinu 1989 var dýrari en fjárveiting þessa árs hljóðaði upp á og þess vegna var óhjákvæmilegt að byrja á því að greiða upp nokkra skuld með fjárveitingu þessa árs.
    Ég hygg því að þetta eigi sér í hverju einstöku tilviki ákveðnar skýringar. Það hafa líka orðið nokkrar breytingar á fjárhagsaðstæðum Flugmálastjórnar, tekjur hafa skilað sér nokkru hægar og stofnunin hefur ekki annað fjármagn handa á milli til að greiða framkvæmdirnar en þær beinu sértekjur sem hún innheimtir. Ýmislegt hefur valdið þessu. Flugmálastjórn er nú gert að taka fyrir rekstri framkvæmdaþáttarins, flugvalladeildarinnar, út úr hinum markaða tekjustofni. Þar fara 14 -- 15 milljónir á þessu ári. Í öðru lagi er því miður líklegt að flugvallargjöld Arnarflugs hf. tapist upp á um 12 -- 15 millj. kr. og skili sér þar af leiðandi ekki sem tekjustofn á þessu ári.
    Fleira kemur til sem breytt hefur nokkuð tekjuforsendum stofnunarinnar og gert það að verkum að framkvæmdafé er nokkru minna en flugmálaáætlun hljóðaði upp á. Allt þetta hefur gert það að verkum að óhjákvæmilegt er að fara að nýju yfir þessi mál og það verður gert í fullu samráði við fjvn. og hv. Alþingi og að sjálfsögðu engar ákvarðanir teknar fyrr en slíkt samráð hefur átt sér stað. Það verður þá fjvn. og Alþingis að ákveða hvort hér séu á ferðinni það veigamiklar breytingar að ástæða sé til að taka flugmálaáætlunina upp eða hvort, sem mér er nær að halda, hér sé í raun og veru á ferðinni minni háttar

breytingar innan flugmálaáætlunar eins og oft vill verða og vel þekkt er úr vegamálum, til dæmis sem tekið er þá á í samráði þeirra aðila sem hér halda utan um framkvæmdina.
    Virðulegur forseti. Mér þykir miður að hafa ekki lengri tíma til að svara þessum spurningum. Ég get þar af leiðandi ekki farið hér út í þær aðgerðir sem uppi hafa verið á árinu til að mæta rekstrarvanda Flugmálastjórnar og fleira sem hv. málshefjandi nefndi og ég leyfi mér nú eiginlega að spyrja að lokum til hvers það sé að ætla mönnum að svara viðamiklum spurningum af þessu tagi á tveimur mínútum. Ég held að þetta þingskapaform, með fullri virðingu fyrir höfundum þess, sem eru auðvitað við alþingismenn sjálfir, þurfi að takast til endurskoðunar ef á annað borð það á að þjóna einhverjum tilgangi að undirbúa utandagskrárumræðu af þessu tagi.