Framkvæmd flugmálaáætlunar
Fimmtudaginn 18. október 1990


     Pálmi Jónsson :
    Virðulegi forseti. Ég vek fyrst athygli á því sem er einkennilegt í meðferð þessara mála að hér er mál tekið til umræðu utan dagskrár sem þegar er meðal þingskjala og liggur fyrir þinginu til meðferðar í þingmáli frá hv. 4. þm. Austurl. Í annan stað er þetta mál harla alvarlegt eins og hér hefur komið fram.
    Í fyrsta lagi eru gerðar tillögur um að leggja í nýjan fjárfestingarkostnað umfram það sem samþykkt hefur verið á Alþingi er nemur 75,7 millj. kr. Ég hlýt að spyrja: Hvað af þessum verkum hefur þegar verið unnið? Og ef svo er að eitthvað af þessum verkum hafi þegar verið unnið, hver hefur þá tekið um það ákvörðun? Er það hæstv. samgrh.? Er það flugráð? Er það flugmálastjóri eða Flugmálastjórn?
    Í annan stað er gerð tillaga um að fresta á móti verkum sem kosta 77,2 millj. kr. af því sem Alþingi hefur ákveðið að skuli unnið á þessu ári. Hæstv. ráðherra segir, og það er þakkarvert, að enn hafi ekki verið teknar ákvarðanir um þetta og það muni áður lagt fyrir fjvn. og Alþingi. En hæstv. ráðherra, starfsmenn ríkiskerfisins geta ekki breytt ákvörðunum Alþingis heldur þarf nýja ákvörðun Alþingis ef þetta á að fara með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir.
    Það er rétt að rekstrarvandi Flugmálastjórnar er mikill og það lá fyrir þegar við afgreiðslu fjárlaga í fyrra og við afgreiðslu flugmálaáætlunar og var bara sumpart reynt að sleikja úr honum með því að taka hluta af framkvæmdafénu, eða um 14 millj. kr., frá fjárfestingu yfir í rekstur og það skýrir hluta af þeim vanda sem þarna er við að etja, en vandinn er ekki betri fyrir það þó að þannig sé haldið á málum af hálfu stjórnvalda sem með þessi mál fara.
    Í þessum stutta tíma skal ég ekki fara lengra út í þetta mál sem kemur hér á dagskrá með eðlilegum hætti, en ég vænti þess að fá svör við því hvað er búið að vinna af því sem hér er á blaði samkvæmt þessum nýju áætlunum og hver hefur tekið um það ákvörðun að það skuli gert.