Framkvæmd flugmálaáætlunar
Fimmtudaginn 18. október 1990


     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Hér er hreyft þörfu máli og ég þakka fyrirspyrjanda. Spurningin er ósköp einföld í mínum huga. Á að framkvæma á þessu ári eftir þeirri flugmálaáætlun sem Alþingi samþykkti 4. maí sl.? Það er kjarni málsins. Og ef svo er ekki þá hljótum við að þurfa að fá svör við því hver það sé sem breytir þeirri samþykkt. Hver er það sem hefur leyfi til þess að breyta þeirri samþykkt sem hér var gerð 4. maí sl. um gerð flugmálaáætlunar?
    Þá var hér minnst á framkvæmdir í Austfjarðakjördæmi á sviði flugmála. Það er auðvitað hægt að telja margt upp. Framkvæmdir við Alexandersflugvöll á Sauðárkróki, þar stendur ekki stór tala en þó aðeins. Þar hefur ekki verið hreyft fingri til framkvæmda og ef ég þekki rétt til þá get ég ekki ímyndað mér að nokkrum manni með fullu viti detti í hug að fara af stað með þá framkvæmd það sem eftir lifir þessa árs. Ég sé því ekki að þar verði staðið við neitt af því sem í flugmálaáætlun stóð.
    Mér finnst nefnilega að hér sé um mikið prinsipmál að ræða. Og ég endurtek það að ég tel, og ég hef rekið mig á þetta í fleiri ráðuneytum, að fjármagn sem hefur verið ákveðið og samþykkt í fjárlögum af alþingismönnum öllum, að ekki króna af því fé hefur komið til framkvæmda á því ári sem áætlað var, ekki króna. Jafnvel tugir milljóna hafa verið fluttir þannig frá ákveðnum verkum, sem Alþingi hefur samþykkt, til annarra þátta. Svona er óheimilt að standa að. Það er engin spurning um það. Og ég endurtek að ég tel að hvorki ráðherra né embættismenn hafi leyfi til þess að breyta út af slíkum samþykktum.