Framkvæmd flugmálaáætlunar
Fimmtudaginn 18. október 1990


     Alexander Stefánsson :
    Virðulegi forseti. Það væri sjálfsagt hægt að ræða margt um þetta mál en ég vil aðeins undirstrika það í þessu atriði að við höfum a.m.k. vænst þess og treyst því að flugmálaáætlunin sem var tekin upp á sínum tíma stæðist samanburð við þær aðrar áætlanir sem gerðar hafa verið, þ.e. vegáætlun og hafnaáætlun, að því leyti til að ef um er að ræða breytingar á samþykktri áætlun þá yrði það gert í samráði við í fyrsta lagi þingmenn viðkomandi kjördæma ef um tilfærslu væri að ræða og í öðru lagi að fjármálayfirvöld og þá sú nefnd sem um þessi mál á að fjalla í þinginu yrði kölluð til ef eitthvert svona stórkostlegt atriði kæmi upp. Því það er ekkert smámál, hæstv. ráðherra, þegar búið er að flytja til á milli 70 og 80 millj. í framkvæmdum á stuttu sumri í svona þýðingarmiklum framkvæmdum eins og flugmálin eru.
    Ég efast ekkert um það að meiri hlutanum af þessu fjármagni er búið að ráðstafa. Þannig stöndum við frammi fyrir meira og minna orðnum hlut. Þetta er mjög alvarlegt mál í mínum huga og ég álít að Flugmálastjórn og samgrn. verði að taka öðruvísi á þessu máli. Og síðast en ekki síst: Hvers vegna er þetta mál ekki sett fram fyrr á árinu? Núna í október um leið og þing er að koma saman kemur þetta vandamál.
    Við vitum um rekstrarvanda Flugmálastjórnar og vissum það eins og hér hefur komið fram. Og það hefur sannarlega ekki verið tekið á því máli á eðlilegan hátt miðað við það bréf sem núna liggur fyrir, þar sem Flugmálastjórn fer fram á aukafjárveitingu sem er margir tugir milljóna. Þetta er atriði sem kemur vissulega inn í þessi mál líka og sýnir vandann frá öðrum sjónarhóli. Ég stóð í þeirri meiningu að þeir hefðu notað þetta fjármagn í reksturinn en svo er ekki, reksturinn er óleystur.