Bráðabirgðalög um launamál
Fimmtudaginn 18. október 1990


     Danfríður Skarphéðinsdóttir (um þingsköp) :
    Virðulegur forseti. Ég get ekki stillt mig um að lýsa óánægju minni með þá ákvörðun forseta að leyfa aðeins stutta umræðu um þetta mikilvæga mál sem nú verður rætt utan dagskrár hér á eftir. Það voru alvarleg tíðindi fyrir alla Íslendinga þegar ríkisstjórnin ákvað einhliða að standa ekki við gerðan kjarasamning sl. sumar og fylgja þeirri ákvörðun sinni eftir með því að ógilda skömmu síðar úrskurð æðsta dómsvalds um kjarasamninginn. Ég hafði sannast sagna átt von á því að sjá bráðabirgðalögin á borðum okkar þingmanna við hlið fjárlagafrv. í upphafi þings eða strax á fyrsta degi, en svo reyndist ekki vera. Bað ég um umræðu utan dagskrár um setningu bráðabirgðalaganna strax eftir að forseti sameinaðs þings hafði verið kosinn. Málið var auðsótt og sömuleiðis í fyrradag þegar ég hafði samband við virðulegan forseta til að ganga úr skugga um að umræðan væri á dagskrá.
    Eftir að kvennalistakonur í Nd. höfðu mælt fyrir frv. um afnám heimildar til setningar bráðabirgðalaga og ég ítrekað beiðni mína brá svo við að bráðabirgðalögunum var dreift í gær og sú umræða sem nú á að hefjast skorin niður í hálftíma með þeim skýringum að nú hefðu bráðabirgðalögin verið lögð fram í þinginu. Ætlun mín var að sjálfsögðu ekki að ræða efnislega um bráðabirgðalögin heldur ýmis grundvallaratriði varðandi setningu þeirra. Það er allt of lítil umræða um grundvallaratriði bæði hér í þinginu og stjórnmálum yfirleitt. Ég lít á setningu bráðabirgðalaga og afnám samningsréttar launafólks sem grundvallaratriði, að ekki sé minnst á þá gjörð að setja lög á æðsta dómsvald, þ.e. félagsdóm um kjarasamninginn. Það er í mínum huga undarlegt að það skuli þykja sjálfsagt og eðlilegt að álmálið, þó vissulega vilji ég ekki draga úr mikilvægi þess, fái meira vægi í utandagskrárumræðu en það mikilvæga grundvallarmál sem snertir lýðræðið í landinu og óvefengjanlegan og dýrmætan rétt fólks til að semja um kaup sitt og kjör. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar gagnvart tilteknum hópi launamanna í sumar eru svo alvarlegt mál að ég hefði talið fulla ástæðu til að það yrði rætt hér í sameinuðu þingi og ég harma þá ákvörðun forseta að leyfa ekki ótakmarkaða umræðu um setningu bráðabirgðalaganna.