Bráðabirgðalög um launamál
Fimmtudaginn 18. október 1990


     Forseti (Guðrún Helgadóttir) :
    Vegna orða hv. 6. þm. Vesturl. skal þetta upplýst: Umræður utan dagskrár fjalla venjulega um mál sem koma upp, eru brýn, og ekki talin geta beðið þinglegrar meðferðar. Þegar hv. 6. þm. Vesturl. kom að máli við mig í byrjun þings og óskaði eftir umræðu um bráðabirgðalögin sem sett voru 3. ágúst, því það voru þau sem um átti að ræða, þá óskaði þingmaðurinn eftir ómældri umræðu og var orðið við því þar sem frv. hafði ekki verið lagt fram. Þegar það síðan var orðið að þingmáli held ég að flestir hv. þm. geti verið sammála um að fráleitt sé að upp hefjist ótímamæld umræða um þingmál sem verður tekið á dagskrá á næstu dögum til þinglegrar meðferðar. Það væru fullkomlega fráleit vinnubrögð ef þingið ynni á þann hátt.
    Ég undrast enn meira orð hv. 6. þm. Vesturl. þegar hún tilkynnir mér nú að hún ætli að ræða almennt um bráðabirgðalög. Ég vil minna hv. þm. á að hér hefur þegar farið fram umræða fyrir tilstilli Kvennalistans um frv. til laga um afnám bráðabirgðalaga og hér fór fram löng umræða sem forseti tók þátt í, en ég frábið mér að það hafi haft minnstu áhrif á ákvörðun um tímalengd þessarar umræðu. Hún var einfaldlega stytt vegna þess að málið kemur á dagskrá innan tíðar. Og ég vil ítreka það sem hv. 2. þm. Norðurl. v. sagði hér rétt áðan, að auðvitað er ástæðulaust að ræða utan dagskrár mál sem eru á dagskrá þingsins. Þetta held ég að allir hv. þm. hljóti að vera mér sammála um.
    Það var því mjög svo eðlilegt að þessi umræða væri stytt og í raun og veru, hefði forseti verið í strangara lagi, hefði verið eðlilegt að hún færi alls ekki fram þar sem bráðabirgðalögin sem sett voru 3. ágúst verða hér á dagskrá á allra næstu dögum.