Bráðabirgðalög um launamál
Fimmtudaginn 18. október 1990


     Danfríður Skarphéðinsdóttir :
    Virðulegur forseti. Tilefni þess að ég kveð mér hljóðs utan dagskrár er setning bráðabirgðalaga 3. ágúst sl. Þar eð þing var ekki kallað saman til að fjalla um málið er þetta fyrsta tilefnið sem gefst á þessum vettvangi til að koma á framfæri gagnrýni á ólýðræðisleg vinnubrögð stjórnvalda. Ég átel harðlega að enn einu sinni hefur íslensk ríkisstjórn ákveðið einhliða að standa ekki við gerðan kjarasamning og sett bráðabirgðalög á launafólk. Með því að grípa æ ofan í æ til þess ráðs að setja lög á kjarasamninga er jafnt og þétt grafið undan lýðræði og mannréttindum í þjóðfélaginu.
    Það sem er enn alvarlegra er að nú hefur það gerst í fyrsta skipti að ríkisstjórnin beitir valdi sínu til að hnekkja dómi. Ríkisstjórnin ákvað einhliða að standa ekki við eigin samning en félagsdómur felldi þann úrskurð að ríkisstjórninni bæri að standa við samninginn. Í raun felst í bráðabirgðalögunum afnám réttar alls launafólks til að semja um laun sín því ríkisstjórnin hefur sýnt að hún er tilbúin til lögþvingunar á hvað sem er, jafnvel þvert á uppkveðna dóma.
    Hæstv. ráðherrar eru menn víðförlir og hafa jafnvel talið sig þess umkomna að gerast eftirlitsmenn með lýðræðinu í öðrum löndum. Nú þegar hafa íslensk stjórnvöld fengið áminningu frá Alþjóðavinnumálastofnuninni fyrir afskipti af kjarasamningum. Heimssamtök kennara hafa þegar lýst vanþóknun sinni á þessum gjörningi ríkisstjórnarinnar í sumar og Alþjóðavinnumálastofnunin mun fá málið til umfjöllunar í formi kæru. Hverju ætla hæstv. ráðherrar að svara þegar þeir eru spurðir um gjörðir sínar þar sem þeir koma um heiminn? Halda þeir að þeir geti leikið hugsjónamenn lýðræðisins á erlendum vettvangi og talað fagurlega um nauðsyn þess að vera fullgildur þátttakandi í samfélagi þjóðanna? Það er því knýjandi að fá svarað nokkrum spurningum sem snerta grundvallaratriði þessa máls og vil ég því leyfa mér að beina eftirfarandi spurningum til hæstv. forsrh.:
    Með bráðabirgðalögunum er numinn úr gildi úrskurður æðsta dómsvalds. Telur forsrh. verjandi að setja bráðabirgðalög sem að öllum líkindum brjóta bæði í bága við 73. gr. stjórnarskrárinnar um félagafrelsi og 2. gr. stjórnarskrárinnar um þrískiptingu valdsins?
    Hvernig samræmist setning bráðabirgðalaga nýjum lögum um aðskilnað dóms- og umboðsvalds?
    Telur forsrh. verjandi að framkvæmdarvaldið setji lög sem brjóta í bága við 67. gr. stjórnarskrárinnar um eignarrétt með því að lækka laun tiltekins hóps?
    Nú hefur ríkisstjórnin sett bráðabirgðalög sem að öllum líkindum eru brot á þremur greinum stjórnarskrárinnar. Telur forsrh. þörf á að setja sérstakan stjórnarskrárdómstól þar sem fólk getur leitað réttar síns vegna brota á stjórnarskránni?
    Allir sjá að forsendur bráðabirgðalaganna eru hæpnar og því hlýt ég að spyrja: Hvers vegna var Alþingi ekki kallað saman í ágúst til þess að fjalla um þetta mál?

    Nú hefur ríkisstjórnin ógilt eigin samning með lögum. Telur forsrh. það ekki hafa fordæmisgildi fyrir alla samningagerð í landinu og þá sérstaklega milli ríkisvalds og launafólks?