Bráðabirgðalög um launamál
Fimmtudaginn 18. október 1990


     Ólafur G. Einarsson :
    Hæstv. forseti. Ósköp var þetta nú magurt hjá hæstv. forsrh. það sem hann hafði að segja um setningu bráðabirgðalaganna. Í sem fæstum orðum sagt þá var þessi aðför hæstv. ríkisstjórnar að samningsréttinum á sl. sumri hreint hneyksli. Ef menn hins vegar vilja reyna að finna eitthvað jákvætt við þessa gerð þá má kannski nefna eitt atriði og aðeins eitt, og það er það að enginn getur treyst þessari ríkisstjórn, hvorki orðum hennar né undirrituðum samningum. Til þess tíma að bráðabirgðalögin voru sett á þennan samning ríkisstjórnarinnar við BHMR þá voru þeir satt að segja ótrúlega margir sem trúðu því sem þessir herrar sögðu eða gerðu, en eftir það geta þeir varla verið margir.
    Hér var ekki spurningin sú hvort standa ætti við þjóðarsáttina eða sundra henni. Spurningin var og er hvort staðið skuli við gerða samninga. Og ekki bara það, heldur hitt, hversu lengi á að þola menn í ráðherrastólum sem svo blygðunarlaust setja nafn sitt undir samning sem þeir aldrei hafa ætlað sér að standa við. Og enn eitt: Hvar er komið siðferði æðstu manna framkvæmdarvaldsins sem taka í sínar hendur löggjafarvaldið til þess að afnema samningsákvæði sem þeir sjálfir hafa skrifað undir og dómstólar lagt skilning í sem þessum sömu herrum er hins vegar ekki þóknanlegur?
    Ég þarf svo sem ekki að svara þessari spurningu. Svarið er öllum ljóst. Þeir sem svona vinna eru á hinu lægsta siðferðisstigi. Þeir beita valdi sínu af meiri óskammfeilni en áður hefur sést og hefur þó ýmislegt miður gott sést til þeirra áður.
    Við gerð þjóðarsáttarinnar var rækilega bent á ákvæði samnings ríkisstjórnarinnar við BHMR. Aðilar vinnumarkaðarins bentu á að þjóðarsáttin ætti að gilda um alla en ekki bara suma. Ríkisstjórnin taldi enga þörf á að taka þá á málinu. Það út af fyrir sig gerir auðvitað bráðabirgðalagasetninguna meira en hæpna. Auðvitað átti að taka á málinu meðan Alþingi sat. En það er í samræmi við fyrirlitningu þessarar ríkisstjórnar á þinginu sem þeir þó allir utan einn eiga sæti á.
    Hæstv. forseti. Við þessa utandagskrárumræðu er ekki tími til að ræða þetta frekar. Sá tími gefst hins vegar þegar við ræðum sjálft frv. til staðfestingar bráðabirgðalögunum.