Bráðabirgðalög um launamál
Fimmtudaginn 18. október 1990


     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ástæða þessarar utandagskrárumræðu hér í dag er með endemum og hverri einustu hugsandi manneskju hlýtur að blöskra. Ríkið semur við BHMR, vill síðan ekki una við þá samninga, dómur fellur sem ráðherrum og ríkisstjórn hentar ekki, og þá eru sett bráðabirgðalög til að hrinda niðurstöðum dómsins. Búum við í réttarríki? Umræða þessi utan dagskrár er nauðsynleg nú þegar. Ekki þegar efnisinnihald bráðabirgðalaganna verður rætt á þriðjudaginn. Hins vegar verður ekki hjá því komist að ræða um lagasetninguna sem slíka á þriðjudag fyrst hér gefst ekki betra tækifæri til þess.
    Ég vil ítreka að íslensk stjórnvöld fengu árið 1989 alvarlegar ákúrur frá tveimur nefndum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar vegna þess að stjórnvöld höfðu þá á sl. tíu árum níu sinnum gripið inn í frjálsa kjarasamninga með lagasetningu, þar af sex sinnum með bráðabirgðalögum.
    Eins og við kvennalistakonur höfum bent á fara stjórnvöld gáleysislega með rétt til setningar bráðabirgðalaga. Og það að taka umsamdar launahækkanir af fólki með bráðabirgðalögum er nöturlegt dæmi um það. Nú hefur BHMR þurft að kæra íslensk stjórnvöld fyrir slíkt brot. Afleiðingar þessar eru okkur öllum kunnar. Atgervisflótti frá stofnunum ríkisins er þegar hafinn og þeir sem enn þrauka við lögbundnar kjaraskerðingar eru farnir að hugsa sér til hreyfings. Mikill óróleiki er meðal háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna vegna þessa harðræðis. Bráðabirgðalög á samninga BHMR eru ólög og það þolir ekki nokkra bið að hnekkja þeim. Það hlýtur að vera hlutverk þingsins að gera það.