Bráðabirgðalög um launamál
Fimmtudaginn 18. október 1990


     Kristinn Pétursson :
    Hæstv. forseti. Ég vil nota tækifærið til að ítreka þá skoðun mína að það sem þurfi til þess að kveða upp úrskurð í máli sem þessu sé að fá stjórnlagadómstól í landið. Sú aðför að samningsrétti sem hér hefur verið gerð --- það var ljóst að ráðherrarnir hefðu samið af sér og síðan þegar dómsúrskurður kom um það að þeir hefðu samið af sér, eins og var búið að margvara þá við, þá einfaldlega settu þeir bráðabirgðalög til þess að kveða niður dóminn um að þeir hefðu samið af sér. Ég hef hugsað mér að flytja þáltill. um að dómsmrh. verði falið að undirbúa lagafrv. um stjórnlagadómstól. Það er af mörgum fleiri ástæðum. Ég hef orðið vitni að því hér í tvö ár að þessi hæstv. ríkisstjórn hefur beitt alls konar bolabrögðum og sniðgengið stjórnarskrána og gerði það í upphafi með setningu bráðabirgðalaga.
    Það þurfa allir að vinna undir aga og hæstv. ráðherrar vinna ekki undir nægilegum aga frá Alþingi. Það þurfa allir að vinna undir aga og það gera allir í þjóðfélaginu. Bankamenn vinna undir aga á hverjum degi. Hús sem eru byggð eru tekin út og svo framvegis. Í fiskverkun verður fólkið sem starfar þar að vinna undir alþjóðlegum standard og stendur sig vel. En hæstv. ráðherrar í þessari ríkisstjórn, þeir standa sig hræðilega. Og ég ítreka það að það er engin vitræn lausn á þessu máli önnur en sú að fá hér í þetta land stjórnlagadómstól þannig að það sé hægt að dæma í málum sem þessum.