Bygging og rekstur álvers
Fimmtudaginn 18. október 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Hæstv. forseti. Í þeim mörgu ræðum sem fluttar hafa verið í þessum umræðum utan dagskrár hafa einkum verið ræddar þrjár hliðar álmálsins. Í fyrsta lagi umhverfismálin, í öðru lagi staðarval og byggðamál og loks orkumál og aðild Landsvirkjunar að þessu máli. Ég ætla að fara nokkrum orðum um hvern þessara þriggja þátta og tengja við hvern þeirra, eftir því sem ástæða gefst til, svör við þeim spurningum eða athugasemdum sem fram hafa verið bornar af hálfu einstakra þingmanna þótt það geri ég að sjálfsögðu ekki um allt það sem fram hefur komið því að það mundi taka of langan tíma.
    Ég sný mér fyrst að umhverfismálunum. Í iðnrn. hefur frá upphafi verið lögð á það ákaflega rík áhersla að tryggja fullnægjandi mengunarvarnir og umhverfisvernd í hinu væntanlega Atlantsálsveri. Um leið og fyrirtækin sóttu um starfsleyfi fyrir álverið samkvæmt íslenskum lögum, en það gerðu þau í lok júní á þessu ári, hefur forræði umhverfismálanna að sjálfsögðu flust til umhvrn. og þeirra stofnana sem undir það heyra, en auðvitað er það skylda fagráðuneytis, iðnrn., að fylgjast með umhverfisþætti málsins og það gildir um allar atvinnugreinar að það er skylda sérgreinaráðuneytanna að láta sig umhverfismál varða. Og ég vil leyfa mér að halda því fram að það sé tekið af mikilli alvöru og festu á umhverfismálum í þessu viðfangsefni, bæði af viðsemjendum okkar, sem reyndar eru þekktir fyrir að standa vel að þessu í þeim verksmiðjum sem þeir reka, en ekki síður af hinum íslensku aðilum, hinum íslensku umhverfisyfirvöldum, umhvrn. og mengunarvörnum Hollustuverndar sem vinna að undirbúningi starfsleyfis fyrir verksmiðjuna eins og umhvrh. hefur rakið rækilega í þessum umræðum. Í því starfi er unnið bæði vel og faglega og þess gætt í hvívetna að röskun á umhverfi verði í lágmarki. Það er gert ráð fyrir að nota nýjustu tækni við álbræðsluna. Með þeim búnaði sem henni fylgir er séð til þess að losun mengandi efna út í andrúmsloftið án hreinsunar sé í algjöru lágmarki. Það þarf einungis að opna hinar þéttu þekjur á bræðslukerunum þegar skipt er um rafskaut og gafla keranna eingöngu til að dæla áli úr þeim. Með þessum búnaði, þessum sogbúnaði, næst að ná 98 -- 99% af mengandi efnum í gegnum svokallaðan þurrhreinsibúnað, þar sem yfir 99 1 / 2 % af flúoríði er hreinsað og um 99% af ryki. Það munu því einungis um 2% af flúoríðinu berast út í andrúmsloftið en 98% verða nýtt áfram, aftur, í bræðslunni. Það hefur því orðið geysileg framþróun, ég vil segja stökkbreyting, í búnaði til að draga úr mengun frá álverum frá því að álbræðsla Ísals við Straumsvík var reist undir lok 7. áratugarins.
    Ég ætla að nefna sem dæmi í þessu sambandi að við mælingar á árinu 1986, vel að merkja eftir að hreinsibúnaður var settur upp hjá Ísal, fóru um 2 1 / 2 kg af flúoríði út í andrúmsloftið á hvert framleitt áltonn þegar flúroíð í útblæstri var minnst. En það má gera ráð fyrir að sambærileg tala fyrir Atlantsálsverið verði að jafnaði um eða undir 1 / 2 kg. Með öðrum orðum,

það má ætla að útblástur flúoríðs frá 200 þúsund tonna ársframleiðslu af áli í nútímaálveri sé minni en helmingur þess sem kom frá 80 þúsund tonna framleiðslu Ísals 1986. Ég bið þingmenn að hafa þetta í huga þegar þeir fjalla um umhverfismál og álframleiðslu.
    Það er líka rétt að geta þess að sá samanburður sem ég hef hér gert er miðaður við losun úrgangsefna frá Ísal eftir að verulegur árangur hafði náðst til þess að hreinsa útblásturinn. Ég vil líka geta þess að þar verður ekki látið staðar numið hvað varðar hið eldra iðjuver. Það er verið að setja vélknúinn lokubúnað á kerin hjá Ísal auk annarra aðgerða til þess að draga úr mengun. Ég vænti þess þess vegna fastlega að þrátt fyrir 200 þúsund tonna viðbót við álframleiðsluna sem Atlantsál hefur í för með sér muni heildarmagn í flúoríði í útblæstri frá álframleiðslu á Íslandi verða minna eftir að það álver hefur starfsemi sína en verið hefur alla tíð frá því að Ísal hóf rekstur, eftir að okkur hefur tekist að ná tökum á því vandamáli sem þar hefur lengi ríkt, en að hluta er það að sjálfsögðu eðli máls að tæknibreytingar eru að koma í framkvæmd.
    Það er líka ástæða til að minna á, vegna þeirrar umræðu og þeirrar eðlilegu áhyggju sem menn hafa af losun brennisteinstvísýrings og koltvísýrings út í andrúmsloftið af þessari framleiðslu, að þar er að sjálfsögðu einfaldast að freista þess að takmarka brennisteininn í kolskautunum sem notuð eru í framleiðslunni. Það er hin augljósa aðferð. Spurningin um það hvort við höfum vothreinsun eða eingöngu þurrhreinsun er í raun og veru spurning um það, hversu nærri Íslandi fellur brennisteinssúrinn í sjóinn. Þetta er einfaldur hlutur en samt alveg nauðsynlegt að menn átti sig á honum.
    Menn skyldu líka hafa annað hugfast, sérstaklega þeir sem bera umhverfi jarðarkringlunnar allrar fyrir brjósti, að það að auka álframleiðslu á Íslandi felur í sjálfu sér það í sér að dregið verður úr bruna kola og olíu í heiminum. Það lætur nærri að útlosun á brennisteinssúr minnki um 9 / 10 vegna þess að þetta er flutt til Íslands. Brennisteinssúrinn er ekki meðal þeirra lofttegunda sem taldar eru valda gróðurhúsaáhrifum fyrir jörðina alla. Það er hins vegar koltvísýringurinn og það að færa álframleiðslu til Íslands frá álverum sem nota rafmagn sem upprunnið er í kola - eða olíuverum minnkar líka koltvísýringinn um 9 / 10 . Svona er þetta og þess vegna vil ég að menn hugsi um þetta skýrt, rökrétt, geri sér grein fyrir eðli málsins og að sjálfsögðu því að við berum í senn ábyrgð á okkar eigin umhverfi, okkar eigin fólki og þar má hvergi til slaka. Ég vísa því algerlega á bug að það sé í nokkurri grein slakað til um ýtrustu mengunarkröfur miðað við efni málsins.
    Ég ætla ekki að fjalla nánar um umhverfismál Atlantsáls, enda mun umhvrh. gera það hér á eftir, en ég vil þó mótmæla því sem kom fram í máli hv. 6. þm. Norðurl. e. að það sé villa í fskj. 8 með skýrslunni um nýtt álver sem dreift var hér fyrir viku. Hann segist hafa rekið þar augun í stóra villu. Þar sé sagt

að ef þetta álver hefði verið sett niður í Hvammslandi í Eyjafirði væru það tíu bæir sem hefðu orðið að hætta sinni framleiðslu og mjólkurframleiðslan á svæðinu væri 109 þús. lítrar. Þetta væri ekki einu sinni sú mjólk sem kýrnar í Hvammi skiluðu frá sér á ári. Hv. þm. er væntanlega þarna að vitna til bls. 71 -- 72 í þskj. 8, en hann virðist hafa lesið það ónákvæmlega því að í töflunni á bls. 72 kemur skýrt fram að þarna er verið að tala um álver við Dysnes en ekki í landi Hvamms. Í skýrslunni segir orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Tekið var saman yfirlit um búfjárfjölda samkvæmt forðagæsluskýrslum Búnaðarfélags Íslands, ásamt upplýsingum um fullvirðisrétt, innan ystu marka fyrir flúor í lofti í dreifingarspá Norsk Institut for Luftforskning (NILU) 1990.``
    Samkvæmt forðagæsluskýrslunum er fullvirðisréttur þeirra tíu bæja sem lenda innan þessara ystu marka fyrir flúor í lofti samkvæmt dreifingarspánni 108.598 lítrar af mjólk, því að forðagæslumenn eru þar mjög nákvæmir. Það er einfaldlega þannig að Hvammur er ekki meðal þessara tíu bæja enda er hann utan markalínunnar. Þetta er staðreyndin í málinu. Þetta hefði þingmaðurinn að sjálfsögðu getað séð og þess vegna fellur það fullkomlega um sig sjálft að þetta sé vitnisburður um slæleg vinnubrögð í þessari umhverfisskýrslu. Þvert á móti held ég að það sé allra manna mál að hún sé vel samin og vandlega, gefi góða mynd af umhverfisáhrifum áliðju og aðgengileg mjög, bæði fyrir samanburðinn milli staðanna og um efnisþætti málsins.
    Ég ætla svo að víkja nokkuð að staðarvali og byggðamálum. Margir ræðumenn hafa gert þetta nokkuð að umtalsefni. Staðarvalið er mikilvægt og reyndar sameiginlegt hagsmunamál eigenda álversins, hinna erlendu fyrirtækja, og Íslendinga, þar sem kostnaðar - og áhættuþættir í framkvæmdunum munu hafa áhrif á afstöðu beggja samningsaðila. Það var því að sjálfsögðu sameiginlegt markmið að finna þann stað sem í senn gæti stuðlað að jafnvægi í atvinnu - og byggðaþróun í landinu og stað þar sem áhætta, svo sem varðandi stofnkostnað, rekstrarkostnað og umhverfisáhrif væri sem minnst. Þetta er viðfangsefnið og það tók nokkurn tíma að finna niðurstöðu í málinu. Í máli nokkurra ræðumanna hér í þessari umræðu hafa verið notuð ýmiss konar ófrægingarorð um þessa vönduðu vinnu, eins og látbragðsleikur, sjónarspil, átakanlegur leikur og þaðan af verri orð. Þetta hlýt ég að harma. Af beggja hálfu, Íslendinga og fyrirtækjanna þriggja, var mjög vandað til allra athugana á staðsetningu sem fram fóru í sumar. Þar var m.a. byggt á vinnu fyrri manna í málinu, allt frá staðarvalsnefndarathugunum á 9. áratugnum og nýrri vinnu á síðustu tveimur árum. Ítarlegar viðræður fóru svo fram um staðarvalið á þessum grundvelli. Í lok ágúst og í byrjun september var þeim haldið áfram. Þá kom í ljós að Atlantsálsfyrirtækin tóku af skarið með það að þau teldu Keilisnes fýsilegasta kostinn. Af Íslands hálfu voru áfram ræddar ýmsar leiðir til þess að hafa áhrif á þessa niðurstöðu, svo sem að bæta þann kostnaðarauka sem leiða kynni af staðsetningu utan Reykjaness. En þegar allt var saman dregið, öll kurl voru til grafar komin, var lokaniðurstaðan hins vegar skýr. Áhættuþættir sem ekki væri unnt að verðleggja væru minnstir á Keilisnesi og þess vegna væri ekki rétt að mæla með öðrum stað. Þetta tel ég að sé alveg nauðsynlegt að hér komi fram þótt það hafi reyndar áður gert það. En ég vísa því algerlega á bug að það hafi nokkurn tíma í þessu verki verið um sjónarspil eða látbragðsleik að ræða. Það var þess vegna mjög ánægjulegt að hv. 1. þm. Reykn. skyldi koma hér í ræðustól áðan og skýra frá því hvernig skiptum þeirra manna sem að þessu verki unnu og þeirra Suðurnesjamanna var háttað.
    Í framhaldi af þessu er eðlilegt að ræða byggðamálin almennt. Margir ræðumenn, t.d. hv. 1. og hv. 5. þm. Norðurl. e., hafa nefnt að það sé eðlilegt að gripið verði til aðgerða í byggðamálum samhliða uppbyggingu álvers á Keilisnesi til þess að tryggja það svo ekki verði um villst að þessi framkvæmd hafi jákvæð áhrif á hag allra landsmanna.
    Áður en ég vík að því að hugleiða um sérstakar aðgerðir til mótvægis vil ég benda á það að nýtt álver á Keilisnesi verður lyftistöng fyrir atvinnulíf í byggðarlögum fjarri þeim stað. Það er fyrst til að taka að samhliða og reyndar áður en byggingin sjálf hefst þar þarf að hefja virkjunarframkvæmdir. Þar vegur langþyngst virkjun í Fljótsdal en einnig framkvæmdir við virkjanir á Suðurlandi og lagningu háspennulínu milli Fljótsdals og Hrauneyjafoss um Akureyri. Þessum framkvæmdum fylgir ekki bara vinna á virkjunarstað heldur líka mikil vinna við línulögnina, mikil vinna fyrir fyrirtæki í málmiðnaði. Í því sambandi má heldur ekki gleyma að ýmis málmsmíðaverkefni fylgja bæði byggingu og rekstri álversins. Ég get rifjað það upp að um tíma var það svo að Vélsmiðjan Stál á Seyðisfirði smíðaði bræðsluker fyrir álverið í Straumsvík. Þessi verkefni, bæði við framkvæmdir og þjónustu eftir að álverið er komið í starfrækslu, ættu að geta orðið og munu vonandi verða málmiðnaðinum í landinu mikilvæg viðfangsefni, ekki síst við þær aðstæður sem nú eru fyrirsjáanlegar, sem er samdráttur í fiskiskipastólnum, og er þetta mjög mikilvægt mál. Þessi samdráttur hefur þegar komið þungt niður á nýsmíðum og reyndar einnig í viðhaldi fiskiskipa. Það er þess vegna mjög ánægjulegt að smærri fyrirtækin í málmiðnaðinum eru farin að huga að samvinnu sín á milli til þess að þau geti náð slíkum verkefnum. Og í samningunum sem nú er unnið að er gert ráð fyrir því að íslenskir verktakar og þjónustufyrirtæki hafi eðlilegan aðgang að þessum verkefnum. Ætlum við að láta þetta mál dragast svo að þær vonir sem við það eru bundnar til þess að glæða atvinnulíf í þessum greinum bresti? Ég vil minna þingmenn á að þar er mikil ábyrgð á okkar herðum.
    Ég bendi líka á það að sú mikla styrking raforkukerfisins sem verður samfara álveri á Keilisnesi með virkjun í Fljótsdal mun auka til muna öryggi í raforkumálum á Norður - og Austurlandi og bæta möguleikana til þess að byggja fyrirtæki upp sem nota mikla raforku í þessum landshlutum. Þetta á eftir að

reynast mikils virði í framtíðinni og sú staðreynd að virkjunin sem mest kveður að er ráðgerð í Fljótsdal jafnar álagið á landið á framkvæmdatímanum. Hún mun líka jafna álagið á raforkukerfið, hún mun styrkja það í lengd og bráð og ég held að það sé hvergi ofsagt þegar ég segi að ef okkur tekst að gera þetta að veruleika höfum við um leið gert eitt mesta átak í byggðamálum með því að byggja upp landskerfi orkunnar, þjóðveg orkunnar um landið og styrkt þannig landið allt. Þetta er kjarni málsins hvað varðar byggðahlið í þessu efni.
    Ég minni líka á að gert er ráð fyrir því að Íslendingar geti ráðstafað 5% af framleiðslu Atlantsáls, eða í upphafi um 10 þúsund tonnum af áli á ári. Svo mikið magn getur orðið okkur drjúg undirstaða til þess að laða til samstarfs menn og fyrirtæki sem vilja stofna úrvinnslufyrirtæki, t.d. með álsteypu fyrir augum. Allt þetta eru byggðamál þótt um þau sé venjulega ekki rætt með því formerki eða undir þeirri yfirskrift.
    Ég kem þá að því sem líka er rétt að menn hugleiði. Það er hvað sé hægt að gera til þess að draga úr hugsanlegum óæskilegum byggðaáhrifum vegna álvers á Keilisnesi, þótt það sé auðvitað rétt sem kom hér fram hjá hv. 1. þm. Reykn. að þar eru líka atvinnumál að hugsa um, þar er líka atvinnuvandi sem leysa þarf. En ég ætla að nefna hér nokkra hluti sem ég tel að þar hljóti að koma við sögu.
    1. Lagt er til, eins og fram kemur í skýrslunni sem liggur fyrir þinginu, að 3 / 4 af veltuskatti af nýju álveri renni til atvinnuuppbyggingar á landsbyggðinni. Þessi upphæð gæti numið um 75 millj. kr. á ári. Það er mikill höfuðstóll sem hægt er að mynda með slíkri fjárhæð. Hugsanlega mætti verja þessu fé til hlutafjárframlaga í atvinnufyrirtækjum utan Suðvesturlands, t.d. í tengslum við ný iðnaðarverkefni. Það mætti stofna öflugan iðnþróunarsjóð landsbyggðarinnar.
    2. Við þurfum að leggja fé í athugun á nýjum iðnaðarkostum sem betur hentuðu utan Suðvesturlands en álver af þeirri stærð sem nú er verið að semja um. Í því sambandi má binda nokkrar vonir við þá sameiginlegu athugun á orkunýtingu sem samstarf virðist geta tekist um við Evrópubandalagið í kjölfar viðræðna við fulltrúa þeirra hér á liðnu sumri. Sú athugun mun taka til þátta eins og flutnings orkufrekra iðjuvera frá meginlandi Evrópu til Íslands, hugsanlega vetnisframleiðslu og sölu raforku um sæstreng. Ég tel augljóst að Norður - og Austurland verði þar í fremstu röð sem heppilegir staðir fyrir slík fyrirtæki.
    3. Ríkið þarf að leggja fjármagn í skipulega leit að hentugum samstarfsfyrirtækjum á sviði almenns iðnaðar. Er ein slík hugmynd nú til umræðu með iðnráðgjöfunum um landsins hring með aðild erlends fyrirtækis sem heitir Plant Location International og ég held að geti reynst okkur mjög hentugt.
    4. Veita þyrfti sérstaklega fé til rannsókna og nýtingar á háhitasvæði og orkulindum á Norðurlandi og stofna undirbúningsfélag um það mál með þátttöku iðnrn., Byggðastofnunar og Landsvirkjunar eða Rafmagnsveitna ríkisins.
    5. Gerð verði skipuleg áætlun um jöfnun raforkuverðs, einkum til húsahitunar, og ég minni á að nefnd er að störfum í því máli með þátttöku allra þingflokka.
    6. Að veita stuðning við fyrirtækjanet, t.d. í málmiðnaði. Ég minni aftur á að í samningaviðræðunum við Atlantsál hefur verið lögð rík áhersla á að tryggja rétt íslenskra aðila til að taka þátt í framkvæmdum og að fyrirtækið stuðli að uppbyggingu tækniþekkingar og iðnþróunar á Íslandi.
    7. Þau sveitarfélög við Eyjafjörð og Reyðarfjörð sem hafa lagt í nokkurn kostnað til að meta og kynna staðarkosti fái það að einhverju leyti uppi borið frá ríkinu. En að sjálfsögðu munu þessar athuganir nýtast m.a. við áframhaldandi uppbyggingu orkufreks iðnaðar á Íslandi. Það er rétt að halda þeim áfram en hætta þeim ekki og þróa betur það sem við höfum að bjóða í iðnaðarsamstarfi við erlenda aðila.
    8. Við þurfum að athuga vandlega kosti þess að ráðast í samgöngubætur í stórum stíl á Austurlandi og Norðurlandi í framhaldi af stórvirkjunarframkvæmdum til þess að bæta aðstöðu fyrir nýjan iðnað.
    9. Að efla opinbera þjónustu og skólastarf á landsbyggðinni og stuðla að uppbyggingu fjarskiptakerfa, fjarvinnslukerfa þannig að staðsetning opinberrar þjónustu sé ekki jafnbundin við Reykjavík og hún hefur verið.
    Þetta eru málin. Þetta eru hin raunhæfu byggðaúrræði sem við eigum að taka á um leið og við stækkum landið með því að byggja þessa miklu verksmiðju. Ég tel að sjálfsögðu eðlilegt að Byggðastofnun taki þátt í þessu starfi. Það er mjög mikilvægt sem forsrh. lýsti hér yfir við upphaf þessarar umræðu að byggðanefndin sem starfar nú að því að gefa yfirsýn yfir viðleitni okkar til að jafna byggðina í landinu til þess að nýta kosti þess sem best hafi þetta meðal sinna verkefna. En vegna þeirra spurninga sem hér voru upp bornar taldi ég rétt að gera grein fyrir mínum hugmyndum um það hvernig við ættum að taka á þessu máli, hvernig við ættum að hugsa það.
    Virðulegi forseti. Ég kem þá að orkumálunum og aðild Landsvirkjunar að þessu mikla máli. Auðvitað er raforkuverðið einn þýðingarmesti þáttur þessa máls þegar afstaða er til þess tekin hvort hagkvæmt sé að reisa hér álver. Þau samningsdrög sem fyrir liggja og öllum þingflokkum hafa verið kynnt sýna að við getum vænst góðrar arðsemi af orkuframkvæmdunum. Það gilda að sjálfsögðu sömu lögmál um orkuframkvæmdirnar og aðra fjárfestingu að þeim fylgir áhætta, áhætta sem við verðum að sjálfsögðu að meta en auðvitað bera saman við hagnaðarvonina. Ef við göngum út frá hrapi á álverði sem einhverju óhjákvæmilegu, þá leggur auðvitað enginn í þessa fjárfestingu. Það mundi enginn sækja sjó á Íslandi ef við gengjum út frá aflabresti fyrir fram. Umræðuna um orkuverðið má heldur ekki slíta úr samhengi við aðra þætti málsins eins og hér hafa verið ræddir, skattamálin, þau umsvif í þjóðfélaginu sem fylgja þessari miklu framkvæmd á öllum sviðum og umhverfismálin, eins og við höfum margoft komið hér að. Eins og fram kemur á minnisblaði um samning milli ríkisstjórnarinnar

og Atlantsálsaðilanna liggur nú fyrir meginniðurstaða um ýmsa helstu þætti orkusölusamningsins. Ég tel ekki rétt að greina hér frá í heyranda hljóði beinum tölum um raforkuverðið, enda er eðlilegt að gæta varúðar í þeim efnum vegna viðskiptahagsmuna. Ég vek hins vegar athygli á því að þingmenn hafa aðgang að gögnum um þetta sem afhent hafa verið þingflokkunum sem trúnaðarmál. Að mati bæði Landsvirkjunar og Þjóðhagsstofnunar og Orkustofnunar sem hafa farið yfir þessi gögn, og reyndar hafa komið þar að hagfræðingar við Háskóla Íslands, má vænta góðrar arðsemi eigin fjár af raforkusölunni. Þjóðhagsstofnun telur að hún geti orðið um 7,5% á ári og Landsvirkjun telur að meðalarðgjöf af eigin fé Landsvirkjunar gæti yfir 35 ára tímabil samningsins numið um 7,1%. Ástæðan fyrir þessum mun er einföld. Hún er sú að Landsvirkjun metur arðgjöfina af allri raforkusölu fyrirtækisins, lítur á allan efnahagsreikninginn, en Þjóðhagsstofnun einungis af raforkusölu til Atlantsáls hf. í einangrun. Að mati Landsvirkjunar yrði arðsemin af eigin fé 6,7% ef ekki yrði af samningum við Atlantsál, þ.e. sú leið sem kölluð er í þessum gögnum núllleiðin, sem hv. 2. þm. Austurl. vék hér nokkuð að.
    Þetta er ekki áhættulaust mál. Hverjir eru helstu áhættuþættirnir í því? Þeir eru þrír,
    1. að raunvextir verði hærri en gert er ráð fyrir í reikningum Landsvirkjunar.
    2. að spár um álverð standist ekki. En eins og kunnugt er er gert ráð fyrir að raforkuverðið verði tengt álverði.
    3. raungengi Bandaríkjadollars gagnvart íslenskri krónu.
    Við skulum líta sérstaklega á hvern þessara þriggja þátta, fyrst á raunvextina. Ég tel reyndar að gagnstætt því sem gert er í þessum umsögnum og greinargerðum sem þingmenn þekkja hefði líka átt að taka dæmi um það hver arðsemi eigin fjár væri ef vextirnir reyndust 1% lægri en viðmiðunartalan, 5,5%. Það er ekki gert í þessum gögnum heldur eingöngu tekin dæmi af því hvað gerast mundi ef þeir væru 1% hærri. Öll rök og réttur reikningur mæla frekar með því að taka það dæmi sem ég fyrr nefndi, þ.e. að vextirnir reyndust 4,5 en ekki 6,5 frekar en 5,5. En þetta ætla ég ekki að rekja hér. Ég tel að með því að miða við þessa vexti sé eins og fram kemur í þessum skjölum borð fyrir báru eftir því sem menn best geta séð. Hvort það er þá nógu vel séð er önnur saga. Ég held að það sé afar ólíklegt að svo háir vextir haldist að meðaltali allan þennan langa tíma. Í því sambandi bendi ég á að það er leitun á fjárfestingarkostum næstu 30 -- 40 árin sem bera svo háa raunvexti af lánsfé til svo langs tíma og þess vegna geta þessir aðrir kostir ekki beðið betri tíma eins og hv. 2. þm. Austurl. orðaði það. Hann sagðist ætla að gera grein fyrir þeim við betri tíma. Sú betri tíð hefur nú látið bíða nokkuð eftir sér. Ég bendi líka á að í sögulegu samhengi eru 5,5% raunvextir mjög háir vextir en það er einungis á tímabilinu 1981 -- 1986 sem vextir á heimsmarkaði og á langtímalánum í Bandaríkjunum voru hærri en 5,5% þegar ég lít yfir tímabilið frá

1960 til dagsins í dag. Ástæðan fyrir því að vextirnir voru svona háir þetta fimm ára bil var fyrst og fremst mikill halli á fjárlögum í Bandaríkjunum. Þetta kallaði á miklar lántökur og þar af leiðandi háa vexti. Við vitum öll af fréttum að það er viðurkennt stærsta viðfangsefni bandarískra efnahagsmála, þvert yfir flokkamörk í því stóra landi, að berja niður þennan halla. Það þýðir að mínu áliti að þótt hægt gangi að ljúka málum á þingi þar líkt og stundum vill vera hér muni þeir þó á endanum hafa sigur í því og ég tel að þess vegna sé þetta varká spá með 5,5% í vexti.
    Lítum á álverðið. Þar hafa gefið sig fram margir sem spámenn, en í útreikningum Landsvirkjunar er annars vegar miðað við spá frá bandaríska fyrirtækinu Resource Strategies Incorporated sem er vel þekkt ráðgjafarfyrirtæki og hefur fengist við spár og yfirlit yfir málmiðnaðinn, sérstaklega léttmálma, um margt langt bil ára. Hins vegar er spá frá breska ráðgjafanum James King. Það er gert ráð fyrir því í reynd, ef maður horfir bara á kjarna málsins, að álverð á samningstímanum verði svipað eða lítið eitt lægra en það hefur verið að raungildi að meðaltali síðustu 20 árin. Ég tel að hér sé einnig borð fyrir báru. Vegna hvers er það? Vegna þess að allar athuganir á eftirspurn og framboði á áli benda fremur til þess að skortur verði á þessum varningi og þar með hækkandi verð. Ég ætla ekki að rekja þessi rök en þetta er samdóma álit flestra þeirra sem þetta hafa skoðað. Þess vegna er líka þarna varkárni og raunsæi í fyrirrúmi þótt sumir vilji kalla þetta óraunhæft.
    Varðandi raungengi Bandaríkjadollars, þriðja áhættuþáttinn, bendi ég á að í útreikningum Landsvirkjunar var miðað við gengi í desember 1989, en Þjóðhagsstofnun miðar hins vegar við meðalgengi á því ári. Á árinu 1989 var raungengi Bandaríkjadals töluvert lægra en sögulegt meðaltal síðustu 30 ára en lítið eitt hærra en árin 1987 og 1988, en það eru ár sem dollarinn hefur verið einna veikastur á undanförnum áratugum. Í þessum reikningi er því ekki miðað við það að dollarinn endurheimti sína fyrri stöðu í alþjóðaviðskiptum. Sumir mundu telja að rétt væri að gera það og þá batnar staðan að sjálfsögðu að miklum mun. En það er að mínu áliti þess vegna líka í þessu nokkurt borð fyrir báru.
    Það hefur örlað á gagnrýni á því að í upphafi samningstímabils sé gert ráð fyrir afslætti frá raforkuverðinu. Hvers vegna er það? Forsendurnar fyrir því að unnt sé að veita slíkan afslátt eru hverjum manni auðskildar. Þær eru fyrst og fremst að orkuvinnsla hefst í Blönduvirkjun á næsta ári en framkvæmdir við virkjunina hófust árið 1984. Það er hins vegar alrangt að í samningsdrögunum felist að gefa eigi orkuna frá Blöndu eins og margir hafa verið að halda hér fram, m.a. hv. 2. þm. Austurl. Þvert á móti er með þessum samningum að því stefnt að koma virkjuninni í gagnið, að koma orkunni frá henni í verð. Það er líka ljóst að á næstu árum verður mikil umframorka í raforkukerfinu ef samningar nást ekki um Atlantsál. Það verður ekki séð að aðrar leiðir séu til þess að koma þeirri orku í verð en að gera slíkan stóran samning. Allt frá

árinu 1983 hefur reyndar verið umframorka í raforkukerfinu. Það er af því að við byggðum stórt, við hugsuðum hátt og sá sem hugsaði allra hæst var kannski hv. 2. þm. Austurl. sem setti upp mikið virkjanaplan sem reis mun hærra en það sem við ræðum nú en það þýðir ekki að vilja tilganginn ef menn vilja ekki meðulin. Við verðum að koma þessu í verð.
    Í gjaldskrá Landsvirkjunar er boðið upp á sérstakt verð fyrir svokallað ótryggt rafmagn, ótrygga orku. Þetta verð er núna rúmlega 37 aurar á kwst. Þetta er innan við 7 Bandaríkjamill fyrir hverja kwst. sem er mun lægra en lágmarksverðið á fyrstu árum samningsins sem nú er ræddur. Tæplega láta menn sér detta í hug að bjóða forgangsorkuna frá Landsvirkjun til almenningsrafveitna á mismunandi verði eftir því hvort um er að ræða nýja notendur eða gamla. Allt tal um það að það sé bara nægilegt að lækka verðið á umframorkunni til að koma henni í verð er því algjörlega úr lausu lofti gripið, órökstutt. Það er ekki úrræði í þessu máli, því miður. Ef það væri þarna væru menn löngu, löngu horfnir að því.
    Hv. 6. þm. Norðurl. e. beindi til mín nokkrum spurningum um orkuverðið og mér finnst nú reyndar að ég hljóti að hafa svarað þeim flestum í því sem ég hef þegar sagt, en svona til þess að taka af öll tvímæli um það að ég svari þeim spurningum sem til mín er beint ætla ég að fara nokkrum orðum um þær spurningar sem kynnu að standa eftir.
    Í fyrsta lagi, varðandi rekstrarkostnað og afskriftartíma, get ég upplýst að Landsvirkjun reiknar með 0,7% rekstrarkostnaði af vatnsaflsvirkjunum og 40 ára afskriftartíma. Fyrir Kröflu er reiknað með 5% rekstrarkostnaði. Þar er innifalin endurnýjun á borholum og 30 ára afskriftartími en af flutningskerfinu er reiknað með 1% rekstrarkostnaði og 30 ára afskriftartíma. Ég tel að þau afskriftarhlutföll sem notuð eru séu síst of há. Afskriftartíminn er í styttri kantinum miðað við það sem tíðkast í löndunum í kringum okkur. Ég get bent á það að í ársreikningum erlendra orkufyrirtækja er miðað við að afskrifa vatnsorkuvirkjanir á 40 árum í Noregi, í Svíþjóð 40 -- 60 árum, í Englandi 50 árum. Skotland er að vísu undantekning, þar er notuð 25 ára afskriftarregla, í Frakklandi 50 ára. Í Ontario í Kanada má finna dæmi á bilinu 65 -- 100 ár. Við höfum líka fyrir augunum þegar við ferðumst um landið vatnsaflsvirkjanir sem hafa lifað miklu lengri tíma en þann sem við erum hér að tala um sem afskriftartíma. Ég ætla ekki að rekja þau dæmi hér. Þau þekkja þingmenn glöggt.
    Varðandi aðrar spurningar hv. 6. þm. Norðurl. e. bendi ég honum á umsögn sem Orkustofnun gaf um skjal sem þingmaðurinn sendi mér og Orkustofnun um virkjanakostnað. Þetta skjal sem svarar öllum spurningunum sem hann færði fram hér öðru sinni eða e.t.v. þriðja eða fjórða eða fimmta sinni hefur iðnn. Alþingis fengið 7. maí sl.
    Hv. 5. þm. Austurl. vakti hér máls á áhugaverðum hlut. Það gerði reyndar hv. 10. þm. Reykv. líka í sinni seinni ræðu. Hún er um eignarhald á orkuvinnslufyrirtækjum. Hann spurði hvort til þess hefði

verið hugsað að Austlendingar eignuðust hlut í því orkufyrirtæki sem reka mun Fljótsdalsvirkjun meðal annarra virkjana. Það er eðlilegt að spurt sé. Ég bendi núna á að Austlendingar eiga auðvitað hlut í Landsvirkjun. Þeir eru aðilar að helmingseign ríkisins í því fyrirtæki. En það er líka rétt, eins og kom fram hjá hv. 10. þm. Reykv., það þarf að hugsa mjög vandlega um það, þegar stóriðjuorkuvinnslan verður svo stór og ríkjandi hlutur í heildarorkuvinnslunni, hvort það skipulag sem við höfum valið til þess að bera ábyrgð á þessum mikla rekstri sé raunhæft til frambúðar. Til þessa hefur þetta ekki verið rætt þannig að menn hugsi sér að stofna um þetta ný félög. Ástæðan er kannski fyrst og fremst sú að Landsvirkjun var stofnuð til þess að hefja orkubúskap landsins inn á stóriðjustigið. Það má segja það að með stofnun Landsvirkjunar var lokið því stigi í þróun okkar orkubúskapar sem kalla mætti rafvæðingu landsins og við hurfum að því að fara að framleiða orku í stórum skömmtum til útflutnings. Ég vil vona það enn að þetta skipulag geti dugað. Ef menn hafa efasemdir um það eiga þeir auðvitað að ræða þær á þeim vettvangi. En hingað til hefur ekkert komið fram sem segir mér að ekki sé hægt að leysa með viðunandi hætti áhættuatriðin í málinu innan núverandi skipulags. Það getur verið að ástæða sé til þess að líta á þetta og þess vegna er eðlilegt að því sé hreyft.
    Hv. 5. þm. Austurl. hreyfði hér líka spurningum um hálendisveg, hvort hann yrði gerður samhliða þessum línulögnum. Mig minnir að hv. 1. þm. Norðurl. e. hafi líka nefnt þetta. Ég held því nú ekki fram að gerður verði sá vegur sem sumir vilja kalla hálendisveginn í sambandi við þessar línulagnir, en það verður komist býsna nálægt því vegna þess að vegna þessara miklu línulagna verða auðvitað lagðir línuvegir sem að sjálfsögðu er eðlilegt að haga þannig að þeir geti nýst í framtíðinni til þess að verða samgöngubót. Um þetta ætla ég ekki að segja fleira en tel eðlilegt að menn hreyfi þessari spurningu.
    Ég kem hér þá að því sem kalla mætti þætti Landsvirkjunar eða kannski betur orðað þætti stjórnar Landsvirkjunar í þessu máli. Það var ekki síst hv. 2. þm. Reykv. og reyndar hv. 5. þm. Reykn., hæstv. fjmrh., sem ræddi nokkuð hlut stjórnar Landsvirkjunar í málinu, hafa enda báðir fortíð sem stjórnarmenn í henni og annar þeirra reyndar nútíð, situr í stjórninni. Þær ræður fjölluðu býsna mikið um það sem ég vil leyfa mér að kalla innri málefni stjórnar Landsvirkjunar.
    Ég hyggst ekki, þótt hv. 2. þm. Reykv. hafi valið þá leið, fara að lesa hér upp úr fundargerðum stjórnarinnar sem gæti þó reynst býsna fróðlegur lestur. Ég vil hins vegar virða þann trúnað sem á að vera og hlýtur að vera á slíkum gögnum. Ég ítreka það hins vegar, eins og kom fram í fyrri ræðu minni í þessari umræðu, að auðvitað hefur hlutverk Landsvirkjunar og stjórnar hennar allan tímann legið ljóst fyrir í þessu máli, allt frá því að byrjað var á frumhagkvæmniathugunum á Atlantal-verkefninu í september 1987. Atlantal-verkefnið og Atlantsálsverkefnið hafa margsinnis verið formlega á dagskrá stjórnarfunda í fyrirtækinu og ég er sannfærður um að það hefur líka verið mjög oft rætt óformlega. Það hefur verið rætt á a.m.k. 25 stjórnarfundum á þessum tíma auk þess sem stofnun markaðsskrifstofu iðnrn. og Landsvirkjunar sem tengist þessu máli hefur verið rædd á a.m.k. 3 -- 4 stjórnarfundum. Frá því að ég kom í iðnrn. hefur málið komið a.m.k. 19 sinnum formlega fyrir í stjórn Landsvirkjunar, en á þeim tíma má til glöggvunar segja frá því að stjórnin hefur haldið 35 fundi. Á þessum fundum hafa skýrslur og greinargerðir um orkuverðið og orkusamningana verið ræddar, jafnframt því sem gerð hefur verið grein fyrir afkomu fyrirtækisins, þ.e. Landsvirkjunar, miðað við þær hugmyndir um orkuverð sem ætla mætti að samningar gætu tekist um. Ef þetta er ekki að ræða málið, þá veit ég ekki hvað það orð þýðir. Stjórnarmenn Landsvirkjunar hafa því margsinnis komið að þessu máli og það þarf væntanlega ekki að benda hv. 2. þm. Reykv. á það að stjórnin hefði hvenær sem er getað valið menn til að fylgja stjórnarformanninum, forstjóranum, aðstoðarforstjóranum og lögfræðingum fyrirtækisins og öðrum þeim sem til hafa verið kvaddir til þessara samninga. Ég vil líka í þessu sambandi rifja það upp að stjórnin hefur tvívegis samþykkt að senda mér sem iðnrh. erindi, hið fyrra sinn í október 1988, nánar tiltekið 6. október á því ári, og svo 18. janúar 1990, þar sem þess hefur verið farið á leit við mig að aflað verði hjá Alþingi virkjanaheimilda vegna fyrirhugaðrar áliðju. Þessi erindi verða auðvitað ekki með nokkru móti skilin frá þessu máli og sýna að stjórnin hefur að þessu leyti a.m.k. tekið eðlilegt frumkvæði í því.
     Hv. 2. þm. Reykv. hélt því hér fram að ég væri að reyna að koma ábyrgð af mér yfir á mætan mann, formann ráðgjafarnefndarinnar, sem líka er formaður stjórnar Landsvirkjunar. Það hef ég aldrei gert og mun ekki gera. Ég hef ekki vikið mér undan ábyrgð í Atlantsálsverkefninu og mun ekki gera. Það er aftur á móti ekki stórmannlegt af stjórnarmönnum í Landsvirkjun að víkja sér nú undan ábyrgð, ábyrgð sem þeim ber í þessu máli. Þeir hafa, eins og ég hef rakið, haft öll tök á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri, skipa nefndir í málið ef þeir kjósa og raunar ber þeim að sjálfsögðu sem stjórnarmönnum að gera það hafi þeir haft eða hafi eitthvað við málsmeðferðina að athuga. Þeir hafa þetta tækifæri enn og ég vona sannarlega að svona formsþráskák verði ekki til þess að tefja þetta þjóðþrifamál. Og eins og ég sagði áðan er beðið eftir því að botn komist í þetta mál. Það er beðið eftir því af vinnufúsum höndum að fá þarna verk að vinna. Það er beðið eftir því af okkar verkfróðu mönnum, af okkar vel menntuðu tæknimönnum, að þarna verði loksins sköpuð þessi tækifæri til þess að þeir geti nýtt sína starfskrafta hér í þágu lands og þjóðar.
    Mig langar, með leyfi forseta, til að gefa hugmynd um hvers eðlis þau skjöl eru sem samningamenn Landsvirkjunar hafa lagt fyrir stjórn sína um orkuverð til Atlantsáls, að lesa hér kynningarorð gagna sem þeir, samningamenn fyrirtækisins, hafa lagt fyrir í

stjórninni. Ég mun ekki fjalla um efni þeirra heldur eingöngu kynninguna til að gefa hugmynd um hvað það er sem hefur verið lagt fyrir þessa stjórn. Fyrra skjalið, sem er frá því í septemberbyrjun 1989, er kynnt með þessum orðum af þessum trúnaðarmönnum fyrirtækisins, með leyfi forseta:
    ,,Hér á eftir verður gerð grein fyrir þeim áætlunum og útreikningum sem unnið hefur verið að á vegum Landsvirkjunar á síðustu mánuðum hvað varðar orkuöflun og kostnaðarverð orku til nýrrar álbræðslu í Straumsvík.`` Og síðar í sama inngangi, önnur tilvitnun: ,,Í niðurlagi þessarar greinargerðar eru síðan reifaðar hugmyndir að tilboði um orkuverð til hins nýja álvers.``
    Seinna skjalið sem ég ætla að vitna til var lagt fram á stjórnarfundi í ágúst 1990, þ.e. á þessu ári. Með leyfi forseta:
    ,,Á síðasta stjórnarfundi, hinn 5. júlí sl., var lögð fram greinargerð um þáverandi stöðu viðræðna við Atlantal-hópinn um orkusamning. Síðan þessi stjórnarfundur var haldinn hafa frekari viðræður átt sér stað milli fulltrúa Landsvirkjunar og Atlantal-hópsins um orkusamninginn, bæði í Amsterdam dagana 9. og 10. ágúst sl. og einnig í Reykjavík dagana 14. -- 16. ágúst sl. Á þessum fundum hefur miðað verulega áleiðis í samningaviðræðunum og má nú heita að fyrir liggi samkomulagsgrundvöllur að flestum meginatriðum í væntanlegum orkusamningi milli aðila. Verða nú raktar helstu niðurstöður um orkuafhendingu og orkuverð sem nú er talið að myndað geti grundvöllinn að samkomulagi milli aðila og stöðu mála að öðru leyti varðandi endanlegt uppkast að orkusamningi.``
    Ég ætla ekki að gera grein fyrir efni þessara skjala eða lesa upp úr fundargerðum stjórnar Landsvirkjunar, enda tel ég það ekki viðeigandi. En ég hlýt að láta það koma skýrt fram hvaða augum þeir menn litu sitt viðfangsefni sem fóru með trúnað fyrirtækisins í þessum viðræðum. Getur nokkur maður skilið þessa kynningu greinargerðanna öðruvísi en að þeir hafi verið að gera sínum umbjóðanda eðlilega grein fyrir gangi mála, fyrir stöðu máls? Svarið getur ekki verið nema eitt.
    Virðulegi forseti. Að endingu örfá orð um þjóðhagslegt mikilvægi þessa máls. Hv. 2. þm. Austurl. fór hér hörðum orðum um aðferðirnar sem notaðar væru til að meta þjóðhagslegt mikilvægi þessara framkvæmda. Hann hefur haft um það mörg orð og stór og kveðið skýrt að hverju orði. Hann hefur talað hér hátt en án þess að rökstyðja mál sitt. Þeir eru miklir raddmenn, Hallormsstaðarmenn, en raddstyrkurinn yfirgnæfir ekki rökin. Þjóðhagsstofnun, Orkustofnun, hagfræðingar Háskólans hafa fjallað um þetta mál og niðurstaðan er skýr. Þessar framkvæmdir geta komið landinu að nýju inn á framfarabraut þannig að við drögumst ekki lengur aftur úr öðrum þjóðum í efnahagslegu tilliti eins og við höfum gert á síðasta áratug. Auðvitað er þetta ekki öruggt mat en þetta er raunsætt mat. Og við ætlum okkur ekki að byrja nýju öldina sem lágtekjuþjóð í Evrópu. Við þurfum að taka raunsætt á þessu máli og af fullri ábyrgð og ljúka því

fyrir jólahlé þingsins, og ég heyri af þessari umræðu að þingheimur mun fallast á þá skoðun.