Bygging og rekstur álvers
Fimmtudaginn 18. október 1990


     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Það er fjölmargt sem komið hefur fram í þessari umræðu sem auðvitað væri ástæða til að ræða, en ég ætla ekki að gera það núna heldur einungis minnast á atriði sem kom fram hjá hæstv. umhvrh. í síðustu ræðu hans.
    Ég undrast að heyra það að umhvrh. sé að velta því fyrir sér að það þurfi ef til vill að koma upp vothreinsibúnaði seinna og við þurfum að gera það. Ég veit ekki betur en þetta verði verksmiðja sem aðrir eiga en íslenska ríkið. Spurningin er því eingöngu um það hvaða kröfur við setjum um þá mengun sem má fara út frá verksmiðjunni. Hversu mikið brennisteinsdíoxíð munum við samþykkja að þessi verksmiðja láti frá sér og síðan verður verksmiðjan að leysa það vandamál hvort sem það er með vothreinsibúnaði eða öðrum búnaði. Og ég vil benda á það að þegar talað er um að Svíar og Norðmenn krefjist ekki vothreinsibúnaðar --- að sjálfsögðu gera þeir það ekki --- hins vegar hafa þeir það strangar reglur að það getur engin verksmiðja risið þar nema hafa þennan búnað hjá sér. Það er einmitt það sem við eigum að gera líka. Við eigum að gera það strangar kröfur að við teljum viðunandi. Það getur vel verið að það sé hægt að uppfylla þær með einhverjum öðrum hætti en vothreinsibúnaði. Mér þykir þetta því allfurðulegur málflutningur sem hér er hafður frammi af hálfu hæstv. umhvrh.
    Mér þykir einkennilegt ef hann hefur túlkað það svo að við hefðum ekki áhyggjur af flúoríðmengun. Auðvitað höfum við það líka.
    En það sem kannski rak mig hingað í stólinn var það síðasta sem hæstv. ráðherra minntist á. Það var að svo mikill brennisteinn kæmi frá Nesjavallavirkjun að ástæða væri til að hafa verulegar áhyggjur af því. Ég vil benda hæstv. ráðherranum á að það er brennisteinsvetni sem þaðan kemur, það er ekki brennisteinsdíoxíð. En brennisteinsdíoxíð er það sem er langhættulegast. Það er það sem veldur súru regni en ekki brennisteinsvetnið. (Gripið fram í.) Það er búið að mæla brennisteinsdíoxíð í nálægð Nesjavallavirkjunar og hefur ekki mælst hækkun á brennisteinsdíoxíði þar. Það hefur einnig verið mælt við virkjanirnar við Írafoss og þar er ekki heldur hækkun á brennisteinsdíoxíði. Ef menn hafa svona miklar áhyggjur af því að þaðan komi svona mikið brennisteinsdíoxíð hvers vegna í ósköpunum vilja þeir þá bæta við öllu því sem kemur frá álveri. Það eru alveg stórfurðuleg ósköp að hlusta á þetta. ( Gripið fram í: Mælingarnar sýna líklega að hitt er líka allt í lagi.) Ég undrast það að heyra þetta. Það er ekki von að þessum málum sé vel fyrir komið þegar heyrist hér að það sé allt í lagi að bæta við svo og svo miklu brennisteinsdíoxíði. Ég er hreint alveg undrandi og ég hef enn meiri áhyggjur en nokkru sinni fyrr af því hvernig þessum málum er komið.