Bygging og rekstur álvers
Fimmtudaginn 18. október 1990


     Friðrik Sophusson :
    Virðulegi forseti. Við þingmenn höfum nú hér fylgst með sýnikennslu í því hvernig hæstv. ráðherrar tala saman. Ég efast ekki um að það sé fjör á ríkisstjórnarfundum ef umræður fara fram með þessum hætti, þar sem hver kennir öðrum, sérstaklega í vísindagreinum sem þeir hafa ekkert eða lítið lært í. Það er afar traustvekjandi fyrir íslenska þjóð og hv. Alþingi að fylgjast með þessum umræðum.
    Það hefur annars, virðulegur forseti, verið nokkuð fróðlegt að hlusta á þær umræður sem hér hafa farið fram, bæði í dag en þó ekki síður á mánudagskvöldið var. Mér finnst það áberandi hvernig hv. utanbæjarþingmenn Framsfl. hafa í raun sætt sig við stöðu þessa máls eins og hún er í dag, sætt sig við staðsetninguna. Enn er þó athyglisverðara að hlýða á forustumenn Alþb., ekki síst hæstv. samg. -- og landbrh. hvernig hann dró í land í sinni ræðu, færðist undan því að segja frá hver væri stefna Alþb. Hann minntist ekkert á fyrri yfirlýsingar Alþb. um það að ekki kæmi til greina að setja upp álver á höfuðborgarsvæðinu. Hann ítrekaði ekki þau sjónarmið sem hann hefur ítrekað a.m.k. tvívegis í blaðaviðtölum og ég hef hér undir höndum um það að hann telji að þessi staðsetning tilheyri atvinnusvæði höfuðborgarinnar. Reyndar viðurkenndi hann það í sinni ræðu en opnaði jafnharðan dyrnar þannig að ekki kom fram í hans máli að hann og hans flokkur hefði tekið afstöðu gegn þeirri staðsetningu sem þegar er ákveðin að sögn hæstv. iðnrh., þótt aðrir lýsi því yfir að enn hafi ekkert verið ákveðið í málinu endanlega í sjálfri hæstv. ríkisstjórn eins og rétt er.
    Það var einnig athygli vert að hlusta á hv. 2. þm. Austurl. flytja eina af sínum ræðum gegn álverinu. Þessar tvær ræður sem fluttar voru af hv. þm. Alþb. lýsa því vel að á þeim bæ hafa menn ekki sætt sig við stöðu málsins en hafa þó ekki kjarkinn til þess að lýsa því yfir að þeir séu á móti því sem gerst hefur í málinu. Þetta segir sína sögu og ég leyfi mér að spá því að Alþb. muni standa að málinu þegar það kemur til kasta hæstv. ríkisstjórnar. A.m.k. bendir ekkert til þess eftir þessar umræður að svo verði ekki gert. Það er einnig athygli vert og kannski staðfestir þessa spá mína að þegar Alþb. samþykkti það á sínum tíma að Landsvirkjun fengi að nýta sér 100 millj. kr. lánsheimild af þeirri 300 millj. kr. heimild sem Alþingi hafði samþykkt á sl. ári, þá var framhald málsins bundið við það að staðsetningin lægi fyrir. Og reyndar sagði formaður þingflokksins, hv. 4. þm. Suðurl., að Alþb. hefði sett það skilyrði að ríkisstjórnin tæki ákvörðun um staðsetningu utan höfuðborgarsvæðisins.
    Nú er mér kunnugt um að Landsvirkjun hefur þegar framkvæmt fyrir miklu meira en 100 millj. og enn koma þeir hér, hv. þm. Alþb., og jafnvel hæstv. ráðherrar, og segjast ekkert hafa samþykkt. Ég held að það hljóti allir að geta áttað sig á því að með því að leyfa Landsvirkjun að halda áfram þessum framkvæmdum, í þeirri þögn sem umlykur þetta mál felst samþykki. (Gripið fram í.) Það hlýtur að vera hæstv.

ríkisstjórn og hæstv. iðnrh., sem er hæstv. iðnrh. á ábyrgð stjórnarmeirihlutans, þar á meðal á ábyrgð hv. 2. þm. Austurl. Hann getur ekkert flúið frá því.
    Það var einnig athygli vert að hlýða á það hér að einn hv. þm. upplýsti að í sumar hefðu komið fram þær upplýsingar fram hjá þeim útlendingum sem í raun hafa ráðið staðarvalinu að Reyðarfjörður væri úr sögunni. Það segir auðvitað sína sögu. Það segir þá sögu að sú ákvörðun hafi legið fyrir mun lengur en hæstv. ráðherra vill vera láta. Ég vek athygli á því að þetta skuli hafa komið fram í þessari umræðu.     Ég ætla ekki að hafa langt mál um afstöðu stjórnar Landsvirkjunar. Hv. 2. þm. Reykv. gerði það mjög glöggt, skýrði frá ýmsum nauðsynlegum þáttum málsins sem hafa komið fram í fundargerðum hennar og skýra á margan hátt stöðu málsins í stjórn Landsvirkjunar. Það liggur fyrir að stjórnin hefur lýst yfir nokkurs konar vantrausti á málsmeðferð iðnrh. Það er athygli vert að formaður þingflokks Framsfl., hv. þm. Páll Pétursson, hefur lýst því yfir að yfirlýsing stjórnarinnar beinist gegn meðferð hæstv. ráðherra á málinu en ekki gegn formanni stjórnar Landsvirkjunar eins og skýrt kom fram í viðtali við hv. þm. í Tímanum hinn 12. okt. sl.
    Menn hafa lýst eftir stefnu Sjálfstfl. í þessu máli. Ég vil í nokkrum orðum gera grein fyrir því hver er afstaða Sjálfstfl. til málsins eins og það stendur nú.
    Þegar núv. ríkisstjórn var mynduð var ekkert samkomulag um framgang álmálsins milli stjórnarflokkanna. Til að friða stóriðjuandstæðinga í stjórnarliðinu sagði hæstv. forsrh. að stjfrv. um byggingu álvers yrði ekki flutt nema stjórnarflokkarnir allir samþykktu það. Ef frv. yrði samþykkt án þess hefði myndast nýr meiri hluti á Alþingi. Þannig hefur álmálið verið eins og tímasprengja sem enginn veit hvort sprengir stjórnarsamstarfið eða verður aftengd með einhvers konar samkomulagi.
    Hæstv. iðnrh. hefur ásett sér, og lýst því í þessari umræðu, að leggja fram stjfrv. til heimildarlaga fyrir næstu mánaðamót og fá frv. afgreitt fyrir jól. Hæstv. forsrh. hefur tekið undir það en hann og hæstv. ráðherrar Alþb. hafa lagt áherslu á að enginn þáttur málsins sé enn afgreiddur í ríkisstjórn og þar á meðal staðarvalið. Þrátt fyrir sífelldar yfirlýsingar hæstv. iðnrh. og undirskriftir hans undir ýmis viðræðuskjöl er enn ósamið um marga stóra þætti málsins, einkum þá sem varða orkukaupin en þau hafa langmesta þýðingu, enda verða þau að standa undir virkjunarkostnaðinum.
    Stjórn Landsvirkjunar hefur samhljóða gagnrýnt hæstv. iðnrh. fyrir tök hans á málinu og telur að hann hafi þrengt samningsstöðu fyrirtækisins. Á næstunni mun stjórnin freista þess að knýja fram lausn á mikilvægum óleystum ágreiningsmálum sem varða orkukaupin. Áður en Landsvirkjun gengur endanlega frá samningi um orkukaupin verður hæstv. ríkisstjórn og stjórnarflokkarnir að lýsa stuðningi við alla þætti málsins, enda er um 50 milljarða fjárfestingu að ræða og eðlilegt að stjórn Landsvirkjunar fái fyrir fram að vita hvort hæstv. ríkisstjórn standi einhuga að baki

slíkrar ákvörðunar. Það er rétt sem kom fram hjá hæstv. iðnrh. að allir þættir málsins hanga þannig saman.
    Verði ekki samkomulag milli stjórnarflokkanna um málið leiðir það af yfirlýsingu hæstv. forsrh. að hæstv. ríkisstjórn verður að segja af sér eða falla frá samningum um nýtt álver. Sjálfstfl. hvorki vill né getur því bjargað ríkisstjórninni úr þeirri stöðu sem hún sjálf hefur komið sér í. Hrökklist hæstv. ríkisstjórn hins vegar frá kemur til kasta Sjálfstfl. Ráðherrar flokksins lögðu grunn að Atlantsálssamstarfinu, þingmenn hans hafa greitt götu málsins á þingi enda er flokkurinn eindregið fylgjandi því að Íslendingar eigi samstarf við erlenda aðila um orkufrekan iðnað til að bæta lífskjör þjóðarinnar. Þrátt fyrir að hæstv. ríkisstjórn beri ein ábyrgð á viðræðunum við Atlantsálshópinn og núverandi stöðu málsins hljóta fulltrúar Sjálfstfl. að leggja sitt af mörkum til að ná viðunandi samningi þótt staðan sé þröng. Hlaupi hæstv. ríkisstjórn frá hálfköruðu verki vegna innbyrðis ágreinings um þetta mikilvæga mál hlýtur það að vera skylda Sjálfstfl. að mynda meiri hluta á Alþingi til að tryggja framgang þess. Þar sem staða Sjálfstfl. á Alþingi er mun veikari en meðal þjóðarinnar verður hins vegar ekki séð að það geti gerst án undangenginna kosninga. Ég vona að það sem hér hefur verið sagt skýri sjónarmið Sjálfstfl. til núverandi stöðu málsins.
    Virðulegi forseti. Hv. 3. þm. Austurl. sagðist í ræðu sinni á mánudagskvöldið lýsa yfir furðu sinni vegna þess að hann hafi heyrt það í ræðu minni að ég hefði áhyggjur af landsbyggðinni og benti á að sá sem hér stendur hafi lagt grunn að því þegar í upphafi þessa máls að byggja verksmiðju hér á suðvesturhorni landsins. Ég vona satt að segja að þessi málflutningur sýni ekki það sem hv. þm. beitir í sínu kjördæmi. Ég vil rifja það upp að þegar þetta mál var í undirbúningi urðum við Íslendingar að bjóða upp á besta kostinn til þess að endurvekja traust á landinu. En því miður hafði það gerst mörg ár á undan að útlendingar höfðu ekki það traust á íslenskum stjórnvöldum að þeir vildu semja við þau um orkufrekan iðnað. Það hefur ætíð verið ljóst og einnig í tíð síðustu ríkisstjórnar, ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar, hv. 1. þm. Suðurl., að staðið hefur til að beina erlendum samstarfsaðilum að öðrum byggðum heldur en suðvesturhorninu. Og ég vek athygli á því að á þeim tíma sem ég var í iðnrn. var rætt við Alumax, Hydro Aluminium og Aluminia Spa og þeim bent á að íslensk stjórnvöld hefðu áhuga á því að beina verkefnum til annarra landshluta. En við urðum að taka fyrsta skrefið fyrst, síðan koma hin á eftir. Og það er kannski eitt það mikilvægasta í þessu máli að átta sig á að ef þetta tækifæri sem við höfum nú rennur út í sandinn af einhverjum ástæðum, þá getur orðið harla erfitt að endurvekja enn á ný traust á íslenskum stjórnvöldum.
    Ég vek athygli á því, virðulegi forseti, að hæstv. samgrh. kaus að ræða ekki það sem kom fram hjá hæstv. iðnrh. Það var einn þátturinn í upptalningu hæstv. ráðherra er varðaði byggðamálin og áhrif á

byggðina að í framhaldi af stórvirkjunum yrði að sjálfsögðu að gera átak í samgöngumálum. Ég tel að þessi yfirlýsing þýði það að hæstv. iðnrh. er að halda því fram, og það með talsverðum rétti, að það þurfi að draga úr opinberum framkvæmdum, þar á meðal á sviði samgöngumála, um skeið á meðan við erum að virkja stórt. En eftir það eigum við að einhenda okkur í samgöngumannvirki. Ég leyfi mér að skilja orð hæstv. ráðherra á þennan veg og bendi á að hæstv. samgrh. hefur í blaðaviðtali hafnað þessum sjónarmiðum. Hér á hinu háa Alþingi kaus hann að nefna þetta ekki í sinni ræðu sem ég tel að sé vegna þess að hæstv. samgrh. vill eiga bakdyrnar opnar í þessu máli.
    Ég get því miður ekki fjallað hér um áhættuna og orkuverðið eða skipulagsbreytingar á Landsvirkjun. Það gefst betra tækifæri til þess síðar. Mér finnst hins vegar koma til greina að kannað verði hvort ríkið eigi að bera aukna ábyrgð á áhættunni í þessum samningum á móti því að njóta ágóðans ef hann verður umfram ákveðin mörk. Þetta er slíkur stórsamningur sem verið er að gera, þetta eru slíkar stórframkvæmdir að það kann að vera eðlilegt að ríkið komi í meira mæli inn með einhvers konar ábyrgð á samningunum og taki þá ágóðann, ef hann verður umfram ákveðin mörk, m.a. í því skyni að bæta við fjármunum sem ganga til landsbyggðarinnar til að byggja upp atvinnufyrirtæki þar sem bætt geta lífskjörin.
    Ég ætla ekki heldur að ræða hér um umhverfismálin. Það hefur verið mín skoðun frá upphafi að það þurfi að gæta mjög vel að umhverfisþættinum og mengunarþættinum. Það hefur ávallt fylgt þessu máli frá upphafi og er þá sama hvort rætt verður um flúorinn, sem verður í lokuðu kerfi sem mest, brennisteinsdíoxíðið eða koldíoxíðið. Öll þessi atriði og fleiri mengunarþætti þarf auðvitað að hafa í huga og ég treysti því að það mál verði leyst eins og best verður á kosið. Ég tek undir það með hæstv. ráðherra að auðvitað skiptir það miklu máli fyrir heimsbyggðina alla að hægt sé að beisla árnar á Íslandi og framleiða þannig raforku sem er mengunarlaus og taka fremur úr sambandi þær raforkustöðvar sem nota kol og aðra mengandi orkugjafa til þess að breyta í rafmagn.
    Ég tel að þessar umræður, virðulegi forseti, hafi verið ágætar út af fyrir sig. Það var skemmtilegt að hlusta á suma hv. þm. tala, ekki síst hv. þm. Níels Árna Lund sem hér kom upp og sagðist hafa orðið þess áskynja að flestir ef ekki allir stjórnarþingmenn hefðu talað einum rómi í þessu máli, verið innilega sammála. Mér fannst nokkuð skemmtilegt að hlusta á hv. þm. og tel að þar sé komið forsætisráðherraefni fyrir Framsfl. í næstu ríkisstjórnir því að eins og allir vita eru hv. framsóknarmenn allra manna liprastir að sjá margar hliðar á teningnum á sama tíma.
    Ég verð hins vegar að segja það í lok þessara umræðna að í raun er maður ekki miklu nær um stjórnarstefnuna. Því hefur verið lýst yfir að leggja eigi fram frv. til heimildarlaga um næstu mánaðamót. Í dag er 18. október. Það eru tvær vikur til stefnu. Það er vitað mál að það tekur lengri tíma að ná botni í

málum sem nú eru til umræðu og afgreiðslu hjá Landsvirkjun. Því er lýst yfir og það viðurkennt að enginn þáttur þessara samninga sé enn afgreiddur af ríkisstjórn. Þetta eru helstu niðurstöðurnar úr þessari umræðu sem þýðir það að Alþingi Íslendinga hlýtur á næstunni að fá þetta mál aftur upp á borð til sín. Vonandi hafa þá málin skýrst betur en kom fram í þessari umræðu sem hér er um það bil að ljúka. Enn þá tifar þess vegna tímasprengjan sem þessi hæstv. ríkisstjórn smíðaði við upphaf stjórnarferilsins og enn veit íslenska þjóðin ekkert um það hvort sú sprengja kemur til með að springa á næstunni eða ekki.