Bygging og rekstur álvers
Fimmtudaginn 18. október 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Hæstv. forseti. Hv. 2. þm. Norðurl. e. hefur gert hér nokkrar athugasemdir og komið með nokkrar fyrirspurnir.
    Ég hlýt að sjálfsögðu að andmæla því harðlega að ég hafi gefið rangar upplýsingar um staðarvalið eða þær athuganir sem lágu á bak við það. Það er rangt að það hafi legið fyrir mjög lengi, eins og hv. þm. komst að orði, að staðurinn yrði Keilisnes eða að Reyðarfjörður væri útilokaður. Það er rangt, einfaldlega af því að staðarvalinu ráða fleiri þættir en umhverfisþátturinn einn og eftir að álit umhverfismanna lá fyrir, sem reyndar var í september, þetta álit sem hér er rætt eins og kemur fram af forsíðu þess, lá ekki fyrir fyrr en þá, sem svarar að hluta spurningu þingmannsins. Þá kom til álita, eins og kemur fram af hinni fáorðu lýsingu á staðarvalsþætti málsins í skýrslunni sem dreift var til þingsins fyrir viku, að meta það á móti öðru hvort eitthvað annað væri hægt að taka þar til greina sem réði annarri niðurstöðu því að auðvitað er hér ekki um einfalt eða einþætt mál að ræða eins og þingmaðurinn lætur að liggja. Þess vegna hlýt ég að andmæla því harðlega að hann haldi slíkum þvættingi fram.
    Í öðru lagi hélt hv. þm. því fram að ég hefði haldið upplýsingum frá stjórn Landsvirkjunar. Það væri ljóst, eins og hann sagði, að ég hefði haldið upplýsingum frá þessari stjórn um orkusamninginn. Þetta er að sjálfsögðu fjarstæða. Ekkert --- ég endurtek, ekkert hefur verið á blað fest um orkumálin í þessum samningaviðræðum án þess að það hafi verið með þátttöku fulltrúa frá Landsvirkjun og með þeirra aðild. ( HBl : Ég sagði varðandi álmálið.) Ég sagði það sem ég sagði, hv. þm. (Gripið fram í.) Engu hefur verið haldið leyndu fyrir þeim, enda hafa þeir haft greiðan aðgang að því allan tímann og að sjálfsögðu sérstaklega um orkumálin þar sem það er á þeirra vegum að semja um þau mál. Og að þingmaðurinn skuli leyfa sér að halda fram svona fjarstæðu er dapurlegt, að ekki sé meira sagt.
    Allir þeir samningar sem hér hafa verið ræddir og þau atriði sem lýst er í áfangasamkomulaginu frá 4. okt. eru með fyrirvara um að samningar í heild náist að lokum og að sjálfsögðu að auki með fyrirvara um samþykki Alþingis. Þetta veit þingmaðurinn en spyr þó.
    Síðan kem ég þá að því sem hann spurði um sérstaklega vegna atriða í skýrslunni sem dreift var hér fyrir viku. Hann spurði í fyrsta lagi hvort það væri almennt rétt að þegar talað væri um gerðardóm væri átt við gerðardóm samkvæmt íslensku gerðardómslögunum. Svarið er að það er ævinlega svo í þessum samningi eða þessum drögum að samningi sem hér liggur fyrir að þegar rætt er um gerðardóm er átt við gerðardóm samkvæmt íslensku gerðardómslöggjöfinni. Hv. þm. spurði um merkingu orðsins ,,almennt`` í staflið j í 2. gr. á bls. 12 í skýrslunni, í þskj. 8. Svarið er að þarna þýðir orðið ,,almennt``, eins og ég skil þetta, eins og þingmaðurinn orðaði það, yfirleitt, þ.e. hin almenna regla er að um túlkun á framkvæmd samningsins gildi íslensk lög og að ágreiningsmál verði yfirleitt leyst fyrir íslenskum dómstólum en eingöngu í undantekningartilfellum með gerðardómi samkvæmt íslensku gerðardómslögunum. Skýrara getur þetta varla verið á þessu stigi máls en sjálfsagt að staðfesta það.
    Að endingu, vegna þess sem hv. þm. sagði, að hann hefði ekki fengið upplýsingar um staðarvalið, eða þingmenn Sjálfstfl., langar mig að endingu að benda á það að í ráðgjafarnefndinni hafa jafnan starfað menn sem vitað er að hafa trúnað sjálfstæðismanna og beinlínis ráð fyrir því gert með samtölum við forustumenn sjálfstæðismanna að þeir gegni þeirri upplýsinga - og miðlunarskyldu auk þess sem, eins og vel er kunnugt, ég hafði í haust eða síðsumars samband við forustu Sjálfstfl. einmitt til að láta í té allar upplýsingar um málið, þar með talið staðarvalið, með því fororði að það væri að sjálfsögðu kynnt þingmönnum flokksins eftir því sem þeir teldu þörf á og öll aðstoð boðin frá starfsmönnum iðnrn. og markaðsskrifstofu Landsvirkjunar til þess að skýra málið ef það mætti að gagni koma. (ÞK: Var þetta sagt á fyrsta fundi?) Þetta var sagt þá já.