Bygging og rekstur álvers
Fimmtudaginn 18. október 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi er það ekki rétt hjá hv. 2. þm. Norðurl. e. að ég hafi staðfest að í sumum deilumálum skuli gilda alþjóðlegur gerðardómur. Maðurinn hlýtur að tala gegn betri vitund vegna þess að ég sagði hér mjög skýrt að jafnan þegar átt er við og nefndur gerðardómur í þessum textum er verið að tala um gerðardóm samkvæmt íslensku gerðardómslöggjöfinni. Það vill nú svo til að í gildi eru íslensk lög um þá úrlausnaraðferð sem er að sjálfsögðu ágæt aðferð þegar svo stendur á. Þó er hún sett fram hér sem undantekningarregla. En af því að hv. þm. þrástagast á þessu hlýt ég að koma hér og segja: Hann hlýtur að hafa misheyrt þetta því hér er verið að tala um það sem skýrt stendur skrifað: Almenna reglan er íslenskir dómstólar, í undantekningartilvikum gerðardómur samkvæmt íslensku gerðardómslöggjöfinni. Aðalreglan að sjálfsögðu íslensk lögsaga, íslenskt forræði í þeim skilningi. Þetta er mjög mikilvægt að menn hafi alveg skýrt og séu ekki hér að draga ályktanir af orðum annarra um einhverja allt aðra hluti. ( HBl: Almennt þýðir yfirleitt.) Að öðru leyti, virðulegur þm., þarf ekki að fjalla frekar um þetta út frá því sem þingmaðurinn sagði. Þetta talar allt saman fyrir sig sjálft.