Bygging og rekstur álvers
Fimmtudaginn 18. október 1990


     Friðrik Sophusson :
    Forseti. Ég skal vera afar stuttorður því að ég býst við að hæstv. forseti telji að kominn sé tími til að ljúka þessari umræðu. Ég kemst þó ekki hjá því vegna orða hæstv. ráðherra um ábyrgð Landsvirkjunar og Landsvirkjunarstjórnar á þessu máli að vekja athygli á því að hv. 2. þm. Reykv. gerði mjög ítarlega grein fyrir þessu máli í sinni ræðu hér um daginn. Hv. þm. getur því miður ekki verið við umræðuna hér í dag, en það er full ástæða til að rifja upp það sem hann sagði, einkum og sér í lagi um það dæmi sem hæstv. ráðherra notaði þegar hann var að benda á það að um væri að ræða ábyrgð Landsvirkjunarstjórnarinnar. Hæstv. ráðherra benti á að Landsvirkjunarstjórnin hefði á sínum tíma rætt það hvort og hvernig skyldi notuð sú heimild sem Alþingi samþykkti á sl. vori. Hv. þm. rakti það að Landsvirkjunarstjórnin ræddi þetta mál á fundi sínum, óskaði eftir frekari upplýsingum frá hæstv. ríkisstjórn, þ.e. frá iðnrn., og eftir að ráðuneytið skrifaði bréf var ákvörðun tekin í stjórn Landsvirkjunar og hv. þm. vitnaði í þetta bréf svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Ráðuneytið telur að sá árangur hafi orðið í viðræðum um nýtt álver á samningafundum með Atlantsálsaðilunum í lok júní sl. að eðlilegt sé að hefja þegar þann undirbúning sem Landsvirkjun telur nauðsynlegan á þessu ári til þess að unnt verði að afhenda nýju álveri orku á árinu 1994.``
    Þetta er orðrétt úr bréfi sem ráðuneytið skrifar Landsvirkjun 17. júlí.
    Ég tel, virðulegi forseti, þótt mönnum þyki kannski þetta vera hin smærri atriði að það hljóti að standast sem ekki bara meiri hluti sjálfstæðismanna í Landsvirkjunarstjórninni segir heldur öll Landsvirkjunarstjórnin og það kemur í ljós þegar skoðaðar eru undirskriftir manna í þessu máli að skrifað er undir fyrir hönd ráðgjafarnefndar. En ráðgjafarnefndin er vængstýfða viðræðu - og samninganefndin sem var til áður en hæstv. ráðherra setti á laggirnar til þess að hafa öll snæri og alla spotta í sínum höndum. Vegna þess að hæstv. ráðherra kaus að drepa á þessa umræðu nú taldi ég mér skylt að rifja þetta upp. Ég tel því alveg ljóst að ráðuneytið sem slíkt og þeir sem starfa á ráðuneytisins vegum tóku á sig og hafa borið ábyrgð á þessu verki jafnvel þótt þeir hafi notfært sér tæknilega þekkingu og aðstoð ýmissa starfsmanna Landsvirkjunar sem fyrirtækis. Þetta vil ég að komi fram, ekki síst vegna ræðu hæstv. ráðherra hér fyrr í dag og vegna þess að hann hefur látið í sínu ráðuneyti fara fram talningu á því í fundargerðum Landsvirkjunarstjórnarinnar hve oft mál þetta hefur borið á góma í Landsvirkjunarstjórn, en eins og allir vita situr ráðuneytisstjóri iðnrn. í Landsvirkjunarstjórn fyrir hönd hæstv. ráðherra.
    Ég tel að þrátt fyrir orð hæstv. ráðherra standi það sem fulltrúar þings og sveitarfélaga hafa sagt og komið hefur glögglega fram í ýmsum yfirlýsingum og álitsgerðum Landsvirkjunarstjórnarinnar.