Bygging og rekstur álvers
Fimmtudaginn 18. október 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Sú málflutningsaðferð sem hv. 1. þm. Reykv. velur er mjög sérkennileg. Hann velur að koma hér í ræðustól við lok þessarar umræðu til þess að endurtaka part úr ræðu hv. 2. þm. Reykv. frá því á mánudag. Ég hafði að sjálfsögðu fjallað um þau orð sem þar voru sögð í fyrri ræðu minni hér í dag. Ég tók þar fram, eins og hv. 1. þm. Reykv. er mætavel kunnugt, að þetta mál hefur ítrekað verið á dagskrá funda stjórnar Landsvirkjunar, að Landsvirkjun hefur haft öll færi á því að hafa af málinu afskipti, hefur enda verið rekið á þess fyrirtækis vegum. Þar hafa skýrslur og greinargerðir um orkuverð verið ræddar og aldrei hvarflað að neinum sem getur séð þau gögn að þar sé verið að fjalla um einhver önnur mál.
    Ég vildi líka taka það skýrt fram, eins og hver maður getur séð sem les skýrsluna sem hér er fram lögð, að undir samkomulagið um orkuverðið er ritað fyrir hönd íslensku samninganefndarinnar. Það hefur enginn sem ég hef hitt, hvorki innlendur maður né erlendur, vefengt umboð stjórnarformanns, forstjóra, aðstoðarforstjóra, lögfræðinga eða tæknilegra forráðamanna Landsvirkjunar til þess að ræða samningagerð á vegum fyrirtækisins. Hafa þeir enda stöðuumboð til þess samkvæmt réttum lögum. Hafa þeir enda kynnt sínum umbjóðanda, stjórninni, reglulega það sem þarna var á ferðum. Þess vegna tel ég það með furðulegum hætti að menn skuli hér og nú halda því fram að þetta hafi verið eins konar utanlegsfóstur. Það er ekki. ( FrS: Var það samninganefnd Landsvirkjunarstjórnarinnar?) Ég er að segja þér hvernig þetta er stofnað og þú veist sjálfur, virðulegur þingmaður, að þetta er með nákvæmlega sama hætti og var í tíð hæstv. þáv. iðnrh. Friðriks Sophussonar, núv. hv. 1. þm. Reykv. Vegna þess að hv. þm. tók dæmið sem ég notaði hér í umræðunum fyrr um ákvarðanir um að ráðast í framkvæmdir á grundvelli framvindu samninganna sem mark um það að þar hefði Landsvirkjun verið með á nótunum, svo að maður noti nú hversdagslegt málfar, þá get ég líka tekið önnur dæmi og ítrekað þau úr því að menn eru hér farnir að ítreka sínar ræður, að tvívegis sendi Landsvirkjunarstjórnin erindi á grundvelli viðræðna um orkusölu til þessa nýja Atlantsálsverkefnis, 6 . okt. 1988, eins og ég nefndi, og 18. jan. 1990, þar sem óskað er eftir því að aflað sé frá Alþingi virkjanaheimilda til þess að anna þörf fyrir slíka áliðju. Slík erindi verða að sjálfsögðu ekki skilin frá kjarna þessa máls og sýnir að sjálfsögðu að stjórnin hefur fylgst með því og að þessu leyti tekið frumkvæði, eðlilegt frumkvæði, því að það er eins og menn hafi stundum gleymt því til hvers Landsvirkjun var stofnuð.