Ólafur G. Einarsson :
    Hæstv. forseti. Góðir áheyrendur. Þá höfum við heyrt hæstv. forsrh. halda sína síðustu stefnuræðu. Hún ber einkenni þau hin sömu og við þekkjum frá fyrri stefnuræðum. Hendur eru þvegnar af því sem miður hefur farið, hælst um yfir því sem sæmilegt hefur gerst þrátt fyrir ríkisstjórnina en ekki fyrir hennar tilverknað. Ráðherrann sagði að engin samstaða um nauðsynlegar aðgerðir hafi verið í þeirri ríkisstjórn sem hrökklaðist frá haustið 1988, eins og ráðherrann svo smekklega orðar það.
    Það er rétt að samstaða var ekki um aðgerðir. Steingrímur Hermannsson og Jón Baldvin Hannibalsson sprengdu ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar. Það gerðu þeir til þess að geta komið hér á kerfi úreltra hugmynda sem hver þjóðin af annarri er nú að hverfa frá. Það er líkt og í Framsfl. og Alþb. séu eins konar steinaldarmenn sem hafa ekki náð þroskastigi þeirra sem þessu oki varpa nú af sér. Sjálfstfl. var ekki og verður aldrei tilbúinn að elta svona alræðishyggju. En þeir fundust í þinginu sem til voru í tuskið.
    Ráðherrann segir að ríkisstjórn sín hafi ákveðið að vinna þjóðina frá hengifluginu. Það hafi verið gert með aðhaldssamri efnahagsstefnu og markvissri leiðréttingu á gengi íslensku krónunnar.
    Þegar aðilar vinnumarkaðarins tóku völdin af ríkisstjórninni í upphafi þessa árs náðist verðbólgan niður, með öðrum orðum þrátt fyrir ríkisstjórnina, ekki fyrir hennar tilstilli. Með markvissri leiðréttingu á gengi krónunnar á ráðherrann væntanlega við skipulagslaust undanhald ríkisstjórnarinnar í gengismálum, þar sem stefnuleysi og hik olli því að fella þurfti gengið um 26% á sl. ári. Það var afleiðing þess að þeir félagarnir, Steingrímur og Jón Baldvin, hæstv. ráðherrar, höfnuðu tillögum sjálfstæðismanna sumarið 1988 um markvissa aðlögun gengisins. Þá nauðsyn viðurkenndu þeir hins vegar ári síðar og ári of seint. Svo talar ráðherrann um að víðtækari fjárhagsleg endurskipulagning úrflutningsatvinnuveganna hafi verið gerð en nokkru sinni fyrr. Engin endurskipulagning hefur farið fram. Í gegnum Atvinnutryggingarsjóð og Hlutafjársjóð hefur ríkið framlengt dauðastríð fjölmargra fyrirtækja og undirbúið með því víðtækustu þjóðnýtingu Íslandssögunnar. Afborganir af lánum frá þessum sjóðum koma nú fram með fullum þunga. Þær afborganir flestar greiðir þjóðin með skattpeningum, ekki þessi ríkisstjórn. Það sem ríkisstjórnin hefur gert er að skuldsetja komandi kynslóðir og tefja fyrir óhjákvæmilegri endurskipulagningu atvinnuveganna.
    Forsrh. gerði að umtalsefni kjarasamning ríkisstjórnarinnar og Bandalags háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna. Hann sagði að þegar ekki hefði fengist frestun fram yfir gildistíma þjóðarsáttar á þeim ákvæðum samningsins sem leiddu til meiri launahækkunar en aðrir fengju hefði ekki verið um annað að ræða en fella þau ákvæði úr gildi. Frestun á öllu fram yfir þjóðarsátt, það er lausnarorðið hjá hæstv. ríkisstjórn. Þannig sagði félmrh. í útvarpsviðtali fyrir skömmu að vextir af húsnæðislánum yrðu ekki hækkaðir fyrr en

eftir þjóðarsátt. Með öðrum orðum, þá er allt í lagi að hækka þá. Nú er það draumur Steingríms, Svavars, Jóns Baldvins og Ólafs Ragnars að halda áfram samstarfi eftir kosningar fái þeir til þess meiri hluta eða aðstoð einhverra flokksbrota sem kunna að fá kjörna menn á þing. Því er nú nauðsynlegt að fá svör frá fulltrúum flokka þeirra hér á eftir hvað þeir ætla að gera eftir að þjóðarsátt lýkur, eins og þeir orða það.
    Í síðustu viku fór fram hér í þinginu utandagskrárumræða um bráðabirgðalögin og BHMR - samninginn. Meðan hver þingmaðurinn á fætur öðrum, líka úr röðum stjórnarinnar, gagnrýndu þessa aðför ríkisstjórnarinnar að samningsréttinum sat forsrh. og horfði í gaupnir sér, en fjmrh. fól andlit sitt á bak við erlent tímarit. Það má vel vera að hann hafi verið að lesa það, ég veit það ekki. En engum spurningum var svarað. Við önnur tækifæri hafa hins vegar ráðherrarnir sagt að þessi gerð hafi verið nauðsynleg til þess að koma í veg fyrir að þjóðarsáttin yrði sprengd í loft upp. Þetta var aldrei spurning um það heldur hitt, hvort staðið skuli við gerða samninga. Setning þessara bráðabirgðalaga var siðlaus athöfn. Hún var tilræði við samningsréttinn, þingræðið, dómstólana í landinu og fólkið sem samið var við.
    Í sumarleyfi Alþingis taka ráðherrar í sínar hendur lagasetningarvaldið til þess að afnema samningsákvæði sem þeir sjálfir hafa undirritað og æðsta dómsstig lagt annan skilning í en þessum sömu herrum er þóknanlegur. Við gerð þjóðarsáttar var rækilega bent á ákvæði samnings ríkisstjórnarinnar og BHMR. Aðilar vinnumarkaðarins undirstrikuðu að þjóðarsáttin ætti að gilda um alla, ekki bara suma. Ríkisstjórnin taldi enga þörf á að taka á málinu þá, enda aldrei ætlun hennar að standa við samninginn eins og síðar kom í ljós. En þetta er allt í samræmi við álit þessara ráðherra á þinginu sem þeir þó allir eru kjörnir til utan einn.
    Forsrh. gerði álmálið að umtalsefni. Sagði að þróun orkufreks iðnaðar hefði gengið hægara en margir gerðu ráð fyrir. En hann segir ekki hvers vegna. Ég skal segja honum það. Það er vegna þess að í hans eigin flokki og í Alþb. eru þau öfl sem eru á móti framförum í landinu, á móti stóriðju, á móti því að efla atvinnulífið yfirleitt. Sjálfur sat hæstv. núv. forsrh. í ríkisstjórnum sem árum saman voru í beinum hernaði gegn öllum stóriðjuáformum. En það var auðvitað ekki honum að kenna að ekkert gekk, fremur en annað sem miður hefur farið. Vonandi kemst álmálið í heila höfn þrátt fyrir þá skemmdarstarfsemi sem hefur verið stunduð af einstökum stjórnarliðum. En meðferð ríkisstjórnarinnar á málinu er til vansæmdar. Landshlutum og sveitarfélögum hefur verið att saman í samkeppni um staðarval fyrir álver sem í raun var löngu ákveðið hvar skyldi rísa. Misvísandi yfirlýsingar ráðherranna hafa veikt samningsstöðu okkar og leitt í ljós ágreininginn innan ríkisstjórnarinnar. Meðan ráðherrarnir vita ekki hvort þeir ná saman í mikilvægasta máli sem til þeirra kasta hefur komið og vita enn síður hvort flokkar þeirra fylgi því sem kann að verða ofan á í ríkisstjórninni spyrja þeir hver sé

stefna Sjálfstfl. Hún er alveg ljós. Sjálfstæðismenn styðja byggingu nýs álvers í trausti þess að hagkvæmustu samningum verði komið í höfn. En við vantreystum þessari ríkisstjórn í þessu máli sem öðrum og það er áhætta í því fólgin fyrir framgang mikilvægs máls að hafa það í höndum ríkisstjórnar sem veit ekki hvað hún vill. Sjálfstæðismenn lána því ekki atkvæði sín geðlitlum ráðherrum sem mundu sitja áfram í ríkisstjórn sem gengi gegn þeirra eigin sannfæringu ef sannfæring er þá til.
    Svona stjórn á auðvitað að fara frá. Að því loknu og eftir kosningar er Sjálfstfl. reiðubúinn að taka höndum saman við þá sem af heilum hug vilja vinna að framgangi þessa máls og öðrum þeim þjóðþrifamálum sem vinna þarf en fá aldrei framgang hjá núv. ríkisstjórn.
    Í stefnuræðu forsrh. var því miður ekkert það að finna sem vekur þjóðinni vonir um bjartari framtíð. Þær vonir eru hins vegar tengdar næstu kosningum og sigri Sjálfstfl., nýrri ríkisstjórn þar sem frjálslynd öfl ráða ferð og Sjálfstfl. er í forustu. --- Góða nótt.