Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Enn erum við alþingismenn komnir til þings og hlýðum á boðskap forsrh. Við höfum jafnframt verið minnt á að umboð okkar rennur út að vori eins og sjá má í heilsíðuauglýsingum sumra dagblaða þar sem barist er um sæti í prófkjörum flokkanna.
Jafnvel Kvennalistinn hefur slegist í hóp með gömlu flokkunum og kann ekki betri ráð en taka upp vinsældakeppni við val á frambjóðendum. Vonandi verður ekki undirbúningur alþingiskosninga til að trufla um of störf þessa þings því fyrir því liggja stór og afdrifarík mál.
    Ég tel byggðamálin og það sem þeim tengist vera efst á blaði. Til að öflug byggð verði áfram í hverjum fjórðungi þarf að skapa þar skilyrði til vaxtar og þróunar. Árangur í byggðamálum snertir alla þætti þjóðmála, ekki aðeins atvinnuþróun og opinberar fjárfestingar, heldur einnig stefnu í menntamálum og utanríkisviðskiptum. Byggðamálin eru svo brennandi að nú eiga þau að vera sá mælikvarði sem við leggjum á athafnir ríkisstjórna og Alþingis. Við eigum að spyrja hvort pólitískar ákvarðanir skili okkur áleiðis að því marki að skapa fólki verkefni og trú á framtíðina víðar en á einu landshorni. Þjóðin sjálf og þau náttúrugæði sem Ísland býður okkur hafa verið samofin allt frá landnámi. Þau tengsl mega ekki rofna. Tilfinningin fyrir því að sjávarfang og jarðargróði séu undirstaða mannlífs í landinu þarf að skila sér áfram til barna okkar. Þessi gæði eru dreifð um landið og miðin umhverfis það. Til að nýta þau skynsamlega þurfum við öfluga byggð í hverjum landshluta. En er ekki landsbyggðin dæmd til að eyðast? spyrja margir og vísa til þess hvert stefnir með fólksflutninga. Það er sannarlega ekkert náttúrulögmál, heldur undir okkur sjálfum komið og því hvernig ráðstafað er fjármagni, mannafla og hugviti. Við sem á Alþingi sitjum berum í þessu efni þunga ábyrgð.
    Ég leyfi mér, virðulegur forseti, að nefna dæmi frá Austurlandi, þeim hluta landsins sem ég þekki best. Þar hefur íbúatalan að mestu staðið í stað síðasta áratug. Möguleikarnir til vaxtar og þróunar eru þar hins vegar miklir. Samgöngubætur eru ein þýðingarmesta forsenda þess að landkostirnir nýtist og félagsleg og menningarleg samskipti verði greið milli byggðarlaga. Uppbygging góðra flugvalla eins og nú er unnið að á Egilsstöðum og stefnumörkun um jarðgöng hefur mikla þýðingu fyrir þróun byggðarinnar. Öflugir útgerðarstaðir, fjölþætt vinnsla sjávarafurða, nýting orkulinda til iðnaðar á svæðinu, skógrækt sem viðbót í landbúnaði og ferðaþjónusta geta til samans lagt til atvinnu fyrir vaxandi fjölda fólks. Opinbera þjónustu fyrir íbúana á að rækja heima fyrir og vald í heimamálefnum þarf að færast í hendur lýðræðislega kjörinna héraðsstjórna. Allt getur þetta gerst ef almenn skilyrði eru sköpuð til þess og teknar eru réttar ákvarðanir hér á Alþingi og í Stjórnarráðinu.
    Ríkisstjórninni hefur með tilstyrk almannasamtaka, ekki síst launafólks, tekist að afstýra hruni atvinnufyrirtækja um allt land sem við blasti haustið 1988. Það er mikilsverður árangur svo langt sem hann nær. En honum þarf að fylgja eftir með öflugum aðgerðum til að stuðla að atvinnuþróun og jafna aðstöðu manna um land allt. Að öðrum kosti sækir fyrr en varir í sama horf og þaðan af verra. Því miður eru nú blikur á lofti.
    Í stefnuræðu sinni hér áðan fór forsrh. mörgum orðum um álbræðslu á Keilisnesi og boðaði tillögur þar að lútandi innan skamms. Alþfl. með iðnrh. í fararbroddi hefur keyrt þetta mál áfram að undanförnu af mikilli einsýni og óbilgirni. Hvernig halda menn að fjárfesting upp á um 100 milljarða kr. á næstu árum vegna þessa eina fyrirtækis rími saman við fyrirheit ríkisstjórnarinnar í byggðamálum? Það mætti allt eins reyna að snúa faðirvorinu upp á þann í neðra.
    Með ákvörðun um þessa álbræðslu væri verið að taka burt það svigrúm sem þarf á næstu árum til atvinnuþróunar og uppbyggingar víða um land. Jafnframt gefa menn langt nef marglofaðri þjóðarsátt sem kostað hefur almenning miklar fórnir. Til að komast hjá þenslu og nýrri verðbólguskriðu vegna stóriðjuframkvæmda er nú boðaður niðurskurður og aðhald á mörgum sviðum. Hann mun koma niður á samneyslu og uppbyggingu, ekki síst úti um land. Sérstaklega hefur verið bent á framkvæmdir sveitarfélaga og samgöngumál í þessu samhengi. Gegn þessum áformum ætti fólk, ekki síst á landsbyggðinni, að rísa sem einn maður því með þeim er verið að kasta rekunum á þá stefnu að treysta byggðina.
    Inn á borð okkar þingmanna barst á dögunum þykk og mikil skrudda upp á um 1038 bls. Hér er um að ræða uppkast að fyrsta bindi þeirrar nýju lögbókar sem utanrrh. o.fl. vilja fá Alþingi til að samþykkja innan tíðar ef saman gengur um evrópskt efnahagssvæði. Um það er ekki deilt að við þurfum að eiga góð samskipti við Evrópubandalagið eins og aðra granna okkar og viðskiptaþjóðir. Sjávarútvegsmál eru aðalatriði í viðskiptalegum samskiptum okkar við bandalagið og samningar um þau hljóta að vera viðfangsefnið í beinum og milliliðalausum viðræðum, m.a. um niðurfellingu tolla á saltfiski og ferskum flökum. Með aðild að evrópsku efnahagssvæði væri Alþingi hins vegar í reynd að afsala sér stórum þáttum löggjafarvaldsins og dómsvald flyttist úr landi. Hin nýja lögbók, bláskinna Jóns Baldvins Hannibalssonar, mundi færa réttarstöðu okkar um aldir til baka. Með samþykkt hennar værum við komin hálfa leið inn í Evrópubandalagið. En það virðist ekki nægja húsbændum á sumum bæjum því forustumenn Sjálfstfl., bæði formaður og varaformaður, hafa lýst því yfir að þeir telji að Íslendingar eigi að sækja um aðild að Evrópubandalaginu. Þetta gerist þrátt fyrir að það sé samdóma álit hagsmunaaðila í sjávarútvegi að ekki komi til greina að sækja um aðild að Evrópubandalaginu. Talsmenn sjávarútvegsins benda m.a. á að innganga í bandalagið jafngildi því að fiskveiðilögsaga Íslands yrði aðeins 12 mílur en utan þeirra marka yrði óskipt hafsvæði EB.
    Alþb. markaði þá stefnu á landsfundi sínum fyrir

tæpu ári að aðild að Evrópubandalaginu komi ekki til greina. Þess í stað eigum við að leita eftir góðri samvinnu við bandalagið sem og aðrar þjóðir án þess að skerða svigrúm og sjálfsákvörðunarrétt þjóðarinnar.
    Virðulegur forseti. Það er ævintýri að vera Íslendingur. Á það eigum við að minna okkur sjálf og börnin okkar seint og snemma. Þátttaka í þessu ævintýri verður ekki metin til fjár. Íslensk menning, verkmennt þjóðarinnar, bókmenntir og listir er sá þráður sem bindur saman kynslóðirnar. Við þurfum að hlúa að menningararfleifðinni og gera Íslendingum kleift sem jafningjum, óháð efnahag, búsetu og kynferði, að rækta hana og bæta hana. Dýrmætasta eign okkar er sjálfstæðið og umráðaréttur yfir landinu, gögnum þess og gæðum. Umrótið sem nú gengur yfir Evrópu má ekki verða til þess að við gefum eftir þumlung af því sem áunnist hefur. Þá gæti ævintýrið skjótt tekið enda.
    Ég þakka áheyrnina. --- Góða nótt.