Guttormur Einarsson :
    Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Nú þegar hæstv. forsrh. gefur þjóðinni skýrslu um það sem áunnist hefur og hvað er fram undan tel ég rétt að skyggnast á bak við tjöldin og skoða nánar það sem þar hefur farið fram. Ég er þess fullviss að ýmsum bregði í brún þegar það rennur upp fyrir þeim að það er í mörgum veigamiklum atriðum verk Borgfl. að svo giftusamlega hefur nú tekist til við að stýra þjóðarskútunni frá hengiflugi efnahagshruns og koma henni í var, í það minnsta um stundarsakir. Á sama tíma og öfgastefnur í stjórnmálum eru sem óðast að hverfa um allan hinn siðmenntaða heim hafa þeir þrír af gömlu fjórflokkunum sem skipa ríkisstjórnina átt í miklum erfiðleikum með að aðlaga úreltar sérhagsmunastefnur sínar að breyttum tímum. Það hefur því komið í hlut Borgfl. að verða eins konar kjölfesta á stjórnarheimilinu þar sem hann er ekki háður neinum sérhagsmunaöflum. Og með framtíðarstefnu hinna hagrænu stjórnmála að leiðarljósi hefur Borgfl. haft úrslitaáhrif í anda mannúðar og mildi á það hvernig til hefur tekist í þessu stjórnarsamstarfi. Úti fyrir þrumir Sjálfstfl. að hurðarbaki helblár í hengingaról sérhagsmunapots og fjölskyldufjötra en svo snyrtilega innpakkaður í fagurgala um víðsýna framfarastefnu að hálf þjóðin er sögð trúa á blekkingarnar. Þessari ginningargulrót veifar Sjálfstfl. framan í æskufólk þessa lands og aðra þá brautryðjendur sem af heilindum standa traustum fótum í íslenskum raunveruleika. En áður en varir vakna brautryðjendurnir svo upp af vondum draumi og verða þess áskynja að stórbokkarnir eru fyrir löngu búnir að éta gulrótina og jafnframt ná banvænu tangarhaldi á þeim sjálfum í gegnum fjármagnsmarkaðinn, eignarhald á auðlindum landsins eða markaðsforréttindi. Í nepjunni utan dyra má í fjarska greina Kvennalistann villuráfandi í stefnulausri málefnasúpu sem hlaupið hefur í kekki.
    Góðir Íslendingar. Hér að framan hef ég drepið á nokkrar meginástæður þess að oftar en ella réði úrslitum að ráðherra Borgfl. gátu lagt hlutlægt mat á mál og stefnumið í ríkisstjórninni og skapað þar festu þegar örvænting hinna ríkisstjórnarflokkanna við leit að nýjum stefnum og lífsgrundvelli hefur leitt af sér alls konar upphlaup sem ógnuðu stjórnarsamstarfinu. Þetta gerðist af því að Borgfl. er nýtt óþvingað stjórnmálaafl sem fyrstur íslenskra flokka hefur tileinkað sér hin nýju hagrænu stjórnmál framtíðarinnar. Þannig byggjum við borgaraflokksmenn stefnu okkar m.a. á þeim grundvallaratriðum:
    að auðlindir þjóðarinnar séu óframseljanleg sameign hennar,
    að á vettvangi atvinnulífsins ríki fullt frelsi til þátttöku og samkeppni,
    að allar atvinnugreinar standi á eigin rekstrarforsendum,
    að hvers konar einokun verði haldið í skefjum svo sem með ríflegum gjöldum til samfélagsins,
    að nýjum eða betri atvinnuháttum verði opnuð leið með sérstakri fyrirgreiðslu á meðan þeir eru að sanna

ágæti sitt.
    Öll velferð og samhjálp landsmanna byggist á efnahagslegri afkomu í hvers konar atvinnurekstri og því er ljóst að þangað eigum við allt að sækja og verðum því að búa honum ákjósanleg skilyrði. Með aðhaldi og ráðdeild verður svo tryggt að hann skili þjóðarbúinu réttilega þeirri hlutdeild til samneyslu sem honum ber.
    Við verðum því að lækka þann gífurlega fjármagnskostnað sem að undanförnu hefur sligað atvinnulífið og heimilin í landinu
því þannig mun atvinnulífið hafa meira til skiptanna, til launafólks og samneyslu. Þetta má auðveldlega gera með því að veita bönkum og öðrum peningastofnunum strangt aðhald, svo sem með frjálsum viðskiptum atvinnulífsins við erlenda banka.
    Þá verður ekki lengur undan því vikist að búa æskufólki þessa lands álitleg atvinnutækifæri, ekki með fyrirheitum um þaulsetu í alls konar stofnunum og stjórnarskrifstofum heldur með blekkingarlausum forsendum fyrir hvers konar framtaki og nýsköpun í atvinnulífinu. Með leyfi virðulegs forseta vil ég beina þeim orðum til hæstv. forsrh.: Okkur ber að örva frumkvæðishvöt unga fólksins og sköpunargáfu. Á þann hátt getum við gert því kleift að leggja sitt af mörkum til að skapa þjóðfélaginu þann auð sem velferð þess mun byggjast á um ókomna daga.
    Það er eitt af meginstefnumálum Borgfl. að afnema hvers konar boð og bönn í viðskiptum við aðrar þjóðir. En því eru að sjálfsögðu takmörk sett hve langt á að ganga í þeim efnum. Þess vegna verðum við að gera það upp við okkur hvaða áhætta fylgir því að gerast dvergfylki í risastóru efnahagsbandalagi eins og ótrúlega margir virðast telja ábatasamt og hættulaust. Mér segir svo hugur að slík ógn við sjálfstæði þjóðarinnar hafi ekki áður blasað við í hartnær 50 ár. Við megum ekki gleyma því
    að tíminn vinnur með okkur,
    að þörf Efnahagsbandalagsins fyrir sjávarafurðir okkar vex með hverjum degi sem líður,
    að festa en lipurð í samningum mun um síðir skila okkur ásættanlegum kjörum,
    að okkur ber að leita eftir öðrum mörkuðum í fjarlægum heimsálfum til mótvægis við Efnahagsbandalagið svo að við séum ekki stöðugt að glæfrast með öll fjöregg þjóðarinnar í sömu körfunni.
    Virðulegi forseti. Nú þegar atvinnulífi þjóðarinnar hefur verið stýrt í var stöndum við frammi fyrir þeim valkosti að reisa álbræðslu í einum landshluta þannig að miklar framkvæmdir við virkjanir og línulagnir blasa einnig við í öðrum landshlutum. Stóriðja eins og álver á fullan rétt á sér svo að við Íslendingar megum ekki undir neinum kringumstæðum sitja af okkur þetta tækifæri nú þegar spáð er litlum hagvexti við óbreytt atvinnuástand. Og þar sem fyrirtæki af þessari stærðargráðu varðar hag landsins alls hlýtur staðarvalið að miðast við að það gefi okkur sem mestan arð. Með þetta í huga hafa sérfræðingar og samningamenn komist að þeirri niðurstöðu að reisa skuli álver á Keilisnesi og því hljótum við borgaraflokksmenn að

samþykkja það. En ekki verður undan því vikist að slá skjaldborg utan um atvinnulíf og afkomu þeirra byggðarlaga sem afskipt verða þegar til verks kemur. Ég dreg enga dul á það að erfitt verður að koma í veg fyrir þenslu í efnahagslífi okkar á meðan framkvæmdir standa yfir.
    Í dag er nánast allt atvinnulíf á landsbyggðinni bundið í kvótum á meðan frjálsir atvinnuvegir dafna helst á höfuðborgarsvæðinu. Okkur Reykvíkingum er enginn greiði gerður ef það sneyðist svo um allt atvinnulíf á landsbyggðinni að fólk flosni þar upp frá eigum sínum og þyrpist á höfuðborgarsvæðið. Það er því fyrirsjáanlegt að helstu verkefni í hagstjórn landsins á komandi árum munu beinast að þessum vandamálum. Í þeirri glímu mun Borgfl. halda ótrauður áfram að beita áhrifum sínum sem forustuafl á braut hinna hagrænu stjórnmála. --- Lifið heil.