Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Góðir áheyrendur. Senn dregur að lokum viðburðaríks kjörtímabils í sögu íslenskra stjórnmála. Viðburðaríks m.a. vegna þess að þrjár ríkisstjórnir hafa verið við völd og sú sem nú situr er fjögurra flokka stjórn. En þegar frá líður verður vonandi fyrst og fremst í minnum haft að á þessu kjörtímabili og undir þessari stjórn tókst að koma verðbólgunni niður og þar með að ná stjórn á efnahagsmálum. Og undir þessari stjórn tókst að koma rekstri undirstöðuatvinnugreinanna á réttan kjöl. Sá árangur sem náðst hefur í þessum efnum er stórkostlegur og honum má ekki glutra niður í tengslum við kosningar í vor eða með nýrri ríkisstjórn.
    Á síðustu árum hafa háir vextir verið að endurspeglast í mynstri atvinnufyrirtækja. Á einum áratug sveifluðust vextir frá því að vera neikvæðir í það að vera hvað mestu okurvextir um víða veröld. Þetta hefur verið sársaukafullt fyrir marga skulduga einstaklinga. Þetta hefur gert rekstur margra fyrirtækja ómögulegan og hafa þau mörg hver lagt upp laupana. Eftir á að hyggja má ef til vill segja að þetta hafi að einhverju leyti verið þrengingar sem íslenskt þjóðfélag þurfti að ganga í gegnum. Sá atvinnurekstur og sú fjárfesting sem byggir á því að fá lán með neikvæðum vöxtum á ekki rétt á sér nú á dögum og enginn biður um slíkt ástand á nýjan leik. Hitt er annað mál að þó svo að nafnvextir hafi lækkað svo sem raun ber vitni eru raunvextir of háir og þeir verða að lækka.
    Hér á landi hefur sama þróun verið að eiga sér stað og hjá öðrum Norðurlandaþjóðum og öðrum þjóðum með svipuð lífskjör nema hvað hún kemur seinna fram hér á landi. Störfum fækkar í framleiðslugreinum, svo sem landbúnaði, sjávarútvegi, iðnaði, en aukningin er í opinberri starfsemi og þjónustugreinum. Hér hafa orðið til 15.000 ný störf á síðustu átta árum. Segja má að þessi störf séu nánast öll í opinberri starfsemi og þjónustu. Af þessum 15.000 störfum eru 12.500 á höfuðborgarsvæðinu og 2.500 á landsbyggðinni. Allt bendir til að þessi þróun verði óbreytt á næstu áratugum ef ekkert verður að gert. Það er því ljóst að hér verður að taka á málum. Við getum ekki horft aðgerðarlaus á öll ný störf verða til á höfuðborgarsvæðinu. Það er hvorki höfuðborg né dreifbýli í hag. Á landsbyggðinni þarf hvorki meira né minna en 1400 ný störf fyrir ungt fólk á ári hverju.
    Byggðanefnd skipuð af forsrh. hefur unnið mikið starf á síðustu mánuðum undir stjórn Jóns Helgasonar alþingismanns. Þar eru ýmis athyglisverð mál í meðferð sem vert er að gefa gaum en ekki er tími til að tíunda hér. Þar eru t.d. útfærðar hugmyndir um byggðakjarna sem hefur verið viðkvæmt mál fram til þessa. Mín skoðun er sú að þar sé mjög viðkvæmt mál á ferðinni sem verður að ná samstöðu um. Bættar samgöngur gera þetta mögulegt og eðlilegt. Með sameiningu sveitarfélaga og þar með eflingu þeirra er mikilvægt að þau fái aukin verkefni og tekjustofna frá ríkinu.
    Sveitarfélög hér á landi hafa ólíkt minna af opinberri þjónustu með höndum en tíðkast hjá nágrannaþjóðum okkar. Þá er mikilvægt að jaðarsvæði fái að njóta sérstöðu þegar kemur að því að draga enn frekar saman í sauðfjárrækt. Eftir því sem heyrst hefur frá stærsta stjórnmálaflokknum hér á landi um landbúnaðarmál upp á síðkastið þá virðist hann vilja vinna í þveröfuga átt sem yrði til þess að sauðfjárræktin á jaðarsvæðum legðist af og þar með væntanlega byggð.
    Hæstv. forseti. Ég hef í máli mínu einkum fjallað um það sem flokka mætti undir byggðamál. Það er ekki að ástæðulausu sem þau eru ofarlega í huga margra þessar vikurnar eftir að ljóst var að staðsetning álvers yrði á Keilisnesi ef af uppbyggingu þess verður. Það voru mikil vonbrigði fyrir landsbyggðina sem ég ræði ekki frekar hér. Nú snýst málið um mótvægisaðgerðir til að koma í veg fyrir byggðaröskun þessu samfara.
    Ég vil að síðustu endurtaka það sem ég sagði í upphafi. Verðbólgunni verður að halda niðri til frambúðar. Að öðrum kosti er hér allt komið í óefni að nýju. Ég sé einnig fyrir mér breytt vinnubrögð hér á hinu háa Alþingi með stöðugleika í efnahagsmálum. Í stað þess að vera sífellt að bjarga hlutum fyrir horn, lesa nýjar áætlanir vegna breyttra forsendna ættu stjórnmálin að geta snúist meira um langtímamarkmið á sviði ýmissa velferðarmála svo sem menningarmála og félagsmála. Það mundi ekki einungis gera starf stjórnmálamannsins áhugaverðara og bæta ímynd Alþingis út á við, heldur mundi það snerta hverja fjölskyldu í landinu. Málefni sem sérstaklega snúa að velferð barnafólks og þeirra sem minna mega sín í þjóðfélaginu hafa vijað verða undir í íslenskum stjórnmálum á meðan efnahagsmál hafa tröllriðið umræðunni. Þetta tel ég okkar annars ágæta þjóðfélagi til vansa. --- Góðar stundir.