Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Við umræður um síðustu stefnuræðu forsrh. á þessu kjörtímabili hefur verið minnt á það að ríkisstjórnin hefur náð góðum árangri í efnahagsmálum síðan slitnaði upp úr stjórnarsamstarfi við Sjálfstfl. vegna ágreinings um málefni atvinnuveganna. Hér er nú lægsta verðbólgan um áratuga skeið. Þessi staðreynd leggur grundvöllinn að bættum lífskjörum og velferðarþjóðfélagi. Staða framleiðsluatvinnuveganna er nátengd byggðamálum í landinu. En það er nauðsynlegt og brýnt að reka þá með sem mestri hagkvæmni. Sú löggjöf um stjórn fiskveiða, sem tekur gildi um næstu áramót, miðar að þessu jafnframt því að varðveita fjöregg þjóðarinnar, fiskstofnana. Sé þessarar hagkvæmni ekki gætt stendur þjóðfélagið ekki undir þeirri þjónustustarfsemi sem nútímasamfélag krefst.
    Ríkisstjórnin hefur tekist á við það verkefni að tryggja grundvöll fyrir rekstri atvinnulífsins í landinu og bætt afkoma fyrirtækja dylst ekki. Hins vegar verður aldrei þjóðarsátt um það að höfuðborgarsvæðið og nágrenni sitji eitt að þjónustustarfsemi og iðnaðaruppbyggingu. Raunhæfar og áþreifanlegar aðgerðir til að styrkja byggðirnar í landinu og auka jafnrétti fólks á landsbyggðinni verður lokapróf þessarar ríkisstjórnar. Öll áform um uppbyggingu stóriðju suðvestanlands standa og falla með því hvort ríkisstjórnin fellur á þessu lokaprófi eða nær því.
    En hvernig er svo stefna stjórnarandstöðunnar og þá einkum Sjálfstfl.? Hvernig hefur hún birst þjóðinni á undanförnum mánuðum? M.a. í dagdraumum formanns flokksins í Morgunblaðinu þar sem hann segir í greinaskrifum á viku fresti að ríkisstjórnin eigi að fara frá. Þá muni öll vandamál leysast. En hvernig hefur málflutningur sjálfstæðismanna leitt það í ljós? Því er fljótsvarað. Þau regnhlífarsamtök ólíkra hagsmunahópa sem Sjálfstfl. er hafa ekki skýra stefnu.
    Varðandi ríkisfjármálin er haldið uppi almennu snakki um skattpíningu en tekið undir hverja kröfu til aukinna útgjalda ríkissjóðs. Þegar heilbrrh. vill kanna skipulagsbreytingar í heilbrigðisþjónustunni í Reykjavík sem gætu leitt til sparnaðar jafnvel upp á hundruð milljóna er bitið í skjaldarrendur til varnar úreltu kerfi sem m.a. kemur fram í því að 12.000 Reykvíkingar eru án heimilislæknis. Opinber rekstur kemst ekki hjá umræðu og aðgerðum í hagræðingarátt fremur en framleiðsluatvinnuvegir landsmanna.
    Allir muna málþóf dögum saman sl. vetur um tvíhliða viðræður við Evrópubandalagið. En nú hafa bæði formaður og varaformaður Sjálfstfl. gefið tóninn um umræður um aðild að Efnahagsbandalaginu. Sú aðild kemur ekki til greina.
    Í álmálinu er stefnan óljós og á reiki og yfirlýsingar forustumanna ganga á skjön. Þingmenn Sjálfstfl. sátu hjá við atkvæðagreiðslu um löggjöf um stjórn fiskveiða á sl. vori og þess verður ekki vart að þessi stærsti flokkur þjóðarinnar hafi skýra stefnu í sjávarútvegsmálum. Þetta eru staðreyndir sem vekja athygli ekki síst fyrir það að þetta er flokkurinn sem telur sig

borinn til forustu í þjóðmálum næstu árin.
    Góðir Íslendingar. Við stöndum á þröskuldi nýrra tíma, aukinna samskipta og samkeppni þjóða á öllum sviðum. Við framsóknarmenn viljum taka þátt í þessum samskiptum. Við viljum ekki ganga undir yfirþjóðlegt vald né afhenda yfirráð yfir auðlindum okkar. Þess vegna er aðild að Evrópubandalaginu ekki á dagskrá. Það er óskynsamlegt að auka nú flokkadrætti í þjóðfélaginu með umræðum um slíka aðild.
    Hin miklu tíðindi af alþjóðavettvangi eru þau að öfgastefnur til hægri og vinstri hafa beðið skipbrot. Síðast hrundi kommúnisminn. Öfgastefnur hafa aldrei átt erindi við íslenskt samfélag. Við framsóknarmenn viljum vinna að málum undir merkjum frjálsra einstaklinga og félagasamtaka þeirra. Undir þeim merkjum höfum við besta möguleika til farsældar í þessu þjóðfélagi. --- Góða nótt.