Halldór Blöndal :
    Hæstv. forseti. Góðir Íslendingar. Það er hálfnöturlegt þegar hv. 2. þm. Framsfl. á Austurlandi hleypur í skarðið fyrir sjútvrh. að hann skyldi ekki hafa gefið sér tíma til þess að lesa ræðu forsrh., sem hann flutti hér áðan, stefnuræðuna sjálfa, þegar hann var að ráðast að okkur sjálfstæðismönnum fyrir það að við skyldum á síðasta þingi hafa veist harkalega að ríkisstjórninni fyrir að hún skyldi ekki efna til tvíhliða viðræðna við Evrópubandalagið um sjávarútvegshagsmuni okkar, --- gleymdi þessi þingmaður að forsrh. tekur undir þessi sjónarmið okkar í sinni stefnuræðu og er greinilegt þar að hann finnur til þess að hann veðjaði þar á rangan hest, utanrrh. Vitum við sjálfstæðismenn kannski betur en flestir aðrir að það getur verið valt að treysta orðum hans. A.m.k. minnist ég þess að ég hef ekki í annan tíma heyrt fegurri heitstrengingar né blíðari fagurmæli eða fagurgala en frá þeim manni fyrir síðustu kosningar þegar hann var að tala um að hann hefði loksins skilið að ef við Íslendingar ætluðum að stefna fram til betra mannlífs, bættra lífskjara, öruggari atvinnuhátta væri nauðsynlegt að opna ekki aðeins landamæri okkar heldur opna svo landið að viðskipti gætu orðið frjáls, bæði gjaldeyrisviðskipti og önnur viðskipti þannig að hendur okkar væru ekki bundnar í úreltum höftum.
    Eiður Guðnason, þingmaður Alþfl., gleymdi því hér áðan að það var í ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar sem ákveðið var að gjaldeyrisverslunin skyldi gefin algerlega frjáls. Við biðum og biðum eftir því að viðskrh. gæfi út reglugerðina. Við vorum farnir að halda á tímabili að Pólverjar yrðu á undan okkur að gefa gjaldeyrinn frjálsan. Loksins örlaði á reglugerðinni en hún er ekki djarfari en svo að þar er gert ráð fyrir því að hömlur verði að fullu afnumdar á því herrans ári 1993.
    Menn hafa hér talað um þjóðarsátt. Forsrh. þakkar sér þjóðarsátt. Hver einasti ræðumaður sem hér kemur upp þakkar sér þjóðarsátt. ,,Ef ég lofa mig ekki sjálfur,`` sagði karlinn, ,,gerir enginn það.`` Hvernig var nú ástandið þegar þjóðarsáttin var gerð?
    Sl. þrjú ár hefur landsframleiðsla okkar Íslendinga dregist saman um 8%. Á sama tíma hefur landsframleiðsla í löndum OECD aukist um 9%. Síðan ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar hvarf frá völdum hafa lífskjör á Íslandi versnað um 15%. Og hvernig er ástandið í skattamálum? Einungis á milli áranna 1988 og 1989 voru skattar hækkaðir sem svarar 120.000 kr. á fjögurra manna fjölskyldu.
    Formaður Alþfl. var að hrósa sér af því að hann hefði sett lög um staðgreiðslukerfi skatta. Auðvitað skjöplaðist honum þar. Þau lög voru sett meðan Þorsteinn Pálsson var fjmrh. Þá settum við okkur það mark að skattleysismörk skyldu vera við 42.000 kr. sem er sama og 63.836 kr. nú hjá einstaklingi. En í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar eru það 55.576 kr. Þar skakkar 8.000 hjá einstaklingum, 16.000 hjá hjónum og núna er skattprósentan 39,79% en var 35,2% í tíð Þorsteins Pálssonar.

    Við tölum um þjóðarsátt. Við sjálfstæðismenn leggjum áherslu á, eins og áður, að stétt vinni með stétt, eins og dómsmrh. man síðan hann var í Sjálfstfl. að við leggjum til grundvallar og þjóðarsáttin byggist á þeirri grundvallarhugsun okkar. Við gerum okkur grein fyrir því að við getum ekki unnið upp á nýjan leik lífskjörin nema okkur takist að auka þjóðartekjur, nema okkur takist að styrkja atvinnuvegina og á það munum við leggja áherslu eftir næstu kosningar.
     Það er óhjákvæmilegt fyrir mig að minnast nokkrum orðum á álver. Iðnrh. markaði viðræðurnar um álverið með þeim hætti að álver skyldi rísa úti á landi, annaðtveggja við Eyjafjörð eða Reyðarfjörð. Síðan hefur komið í ljós að þessum orðum hans fylgdi lítil alvara og það var greinilegt á fundi sem ég átti með Akureyringum í fyrradag að ýmsir ráðherrar og þingmenn ríkisstjórnarinnar hafa
uppi ýmsar efasemdir um að iðnrh. hafi í rauninni viljað berjast fyrir því að álverið risi úti á landi. Það er af þeim sökum sem við úti á landi gerum þá réttmætu kröfu til ríkisstjórnarinnar að hún greiði að fullu þann kostnað sem hin ýmsu sveitarfélög hafa haft af þeim falska málatilbúningi sem þannig var lagður til grundvallar. Við viljum einnig leggja á það ríka áherslu að með margvíslegum hætti öðrum verði greitt fyrir því að atvinnulífið úti á landi geti risið.
    Við höfum hlýtt á þingmenn Framsfl. og við heyrum að þeir finna sárt til þess að landsbyggðin stendur nú höllum fæti. Þeir eru ekki sammála forsrh. sínum og þeir reka hornin í Alþfl. Það var eftirtektarvert að við hlýddum hér áðan á tvo af áhrifamestu þingmönnum Alþb., hv. þm. Ragnar Arnalds og Hjörleif Guttormsson, þar sem þeir veittust harkalega að ríkisstjórninni vegna afstöðu hennar í tveimur stærstu málunum sem hún hefur nú til umfjöllunar, álmálinu og Evrópubandalaginu. Áður höfum við heyrt hvernig Jón Baldvin Hannibalsson hefur veist að Alþb. í sambandi við stefnuna í landbúnaðarmálum og við höfum lesið það okkur til mikillar furðu að formaður Alþfl. vilji bjarga gjaldþrota sjóðum Jóhönnu Sigurðardóttur með því að sækja einn milljarð í enn þá meiri gjaldþrotasjóð, Lánasjóð ísl. námsmanna.
    Ef við berum saman málflutning og stefnumið einstakra ráðherra sjáum við að þar er hver höndin upp á móti annarri. Við sjáum að mikil Heljarslóðarorrusta er rekin í þessari ríkisstjórn og við munum eftir því að Benedikt Gröndal sagði í eftirmála þeirrar útgáfu: ,,Stafsetning á bók þessari er með ýmsu móti, til þess að þóknast öllum sem aldrei koma sér saman.`` Eins er um þessa ríkisstjórn. Hún kemur sér ekki saman í hinum stærstu málum. Samt sem áður er ekki annað að sjá en að hún ætli að sitja áfram eftir næstu kosningar, en það veit trúa mín að það mun henni ekki takast. Að sjálfsögðu mun okkur takast, frjálshyggjumönnum og frjálsum mönnum í þessu landi, að velta þessari ríkisstjórn úr sessi í næstu alþingiskosningum. --- Góða nótt.