Guðmundur Ágústsson :
    Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Nú er komið að lokum þessarar umræðu um stefnuræðu forsrh. Ef teknar eru saman niðurstöður
þessara miklu ræðuhalda er það einkum tvennt sem þær skilja eftir. Annars vegar styrk ríkisstjórnarinnar og hins vegar ráðleysi stjórnarandstöðunnar. Ég átti von á því hér í kvöld að stjórnarandstaðan gerði harða hríð að ríkisstjórninni og gerðum hennar. Það hefur ekki orðið raunin. Þvert á móti hafa málsvarar Sjálfstfl. notað gamalkunna frasa um miðstýringu og forsjárhyggju en sneitt fram hjá því að fjalla um það sem máli skiptir fyrir þjóðina, þann mikla stöðugleika sem náðst hefur í efnahags - og atvinnumálum. Mér er til efs að nokkur ríkisstjórn á Íslandi hafi á síðustu árum komið fram fyrir þjóðina og tilkynnt að skeið óðaverðbólgu, ríkissjóðshalla, skuldasöfnunar og gengisfellingar sé á enda og uppbygging atvinnulífs og hagvöxtur séu á næsta leiti. Þessari ríkisstjórn hefur þrátt fyrir samsetningu hennar tekist það sem engan óraði fyrir, að koma á stöðugleika og hefja nýtt framfaraskeið á Íslandi.
    Þegar Borgfl. ákvað fyrir rúmlega ári síðan að taka þátt í ríkisstjórnarsamstarfi og koma í veg fyrir að efnt yrði til kosninga á haustmánuðum 1989 var skapaður nýr grundvöllur í efnahagsmálum. Áhersla var á það lögð að lækka framfærslukostnað heimilanna með lækkun helstu nauðsynjavara og lækkun fjármagnskostnaðar.
    Með fjárlagafrv. fyrir árið 1990 kom þessi stefna skýrt fram og lagði grunninn að þjóðarsáttinni í febrúarmánuði sl. Þáttur Borgfl. í framvindu efnahagsmála er því stór hverju sem menn vilja halda fram um flokkinn og liðsmenn hans að öðru leyti.
    Góðir landsmenn. Þar sem tími minn er á enda runninn vil ég að lokum fyrir hönd þingflokks Borgfl. bjóða ykkur góða nótt með von um bjarta framtíð.