Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Ég vil nota þetta tækifæri þar sem þetta frv. er hér til umræðu að flytja Alþingi beiðni frá æðsta ráði Sovétríkjanna, en í upphafi þessa mánaðar fór sendinefnd Alþingis í heimsókn í boði æðsta ráðsins. Nefndina skipuðu auk mín Halldór Blöndal, Geir Gunnarsson, Rannveig Guðmundsdóttir, Guðmundur Ágústsson og Málmfríður Sigurðardóttir. M.a. áttum við viðræður við fulltrúa frá umhverfisnefnd æðsta ráðsins og þeir tjáðu okkur að umhverfisvandamál Sovétríkjanna væru svo gífurleg að þeir yrðu að leita aðstoðar allra þeirra sem hugsanlegt væri að fá aðstoð frá. Þessir fulltrúar nefndu þó
aðeins tvö stór umhverfisvandamál sérstaklega. Annað var Tsjernóbíl - slysið. Afleiðingar þess liggja alls ekki fyrir að fullu enn, hvorki það hversu mikið heilsutjón menn munu bíða af völdum þess slyss og ekki heldur hversu mikinn fjölda fólks þarf enn að flytja í burtu frá svæðum sem hætta stafar af að dvelja á, en þó nefndu þeir töluna fjórar milljónir manna. Hér er um að ræða svo gífurlegan fjölda að þeir sögðust alls ekki ráða við það verkefni án miklu meiri aðstoðar en þeir hafa fengið í sambandi við þetta hörmulega slys.
    Annað atriðið var umhverfisvandamálið í kringum Aralvatnið. Á síðustu 20 árum hefur, vegna áveitna úr ánum sem í það renna, rúmmál þess minnkað um helming, yfirborðið minnkað um 1 / 3 og vatnsborðið lækkað um 15 metra. Þetta hefur leitt til þess að strönd vatnsins hefur færst út allt að hundrað kílómetrum og það sem þar hefur þornað er að breytast í eyðimörk. Þeir óttast jafnvel að þarna verði um óviðráðanlegan uppblástur að ræða og að sá uppblástur tengist Mið - Asíueyðimörkinni. Að sjálfsögðu eiga þeir við mörg smærri vandamál að glíma, m.a. þau sem hæstv. ráðherra nefndi hér um mengun frá verksmiðjum og önnur slík.
    Ég minntist á tvö atriði í sambandi við umhverfismál sem hafa verið okkur Íslendingum ofarlega í huga. Annað er hættan af kjarnorkuslysum í hafinu og þar lýstu þeir yfir eindregnum stuðningi við tillögur okkar Íslendinga um friðun á úthöfunum eða draga sem mest úr kjarnorkuumferð um úthöfin. Hitt atriðið eru hugmyndir sem við höfum heyrt í nokkur ár að uppi væru hjá þeim um að veita vatni úr ánum í Síberíu sem falla norður í Íshafið til suðurs með óútreiknanlegum breytingum á loftslagi og öðru slíku í sambandi við Norður - Íshafið.
    Þeir sögðu að slíkar hugmyndir væru ekki lengur á döfinni hjá þeim, ekki til þess að fá þær til áveitna. Hins vegar gæti verið að þeir mundu reyna að leita að neysluvatni.
    En ég vildi sem sagt nota þetta tækifæri til að skýra frá þessari beiðni sem var beint til okkar Íslendinga eins og annarra þjóða. Þess vegna vildi ég taka undir það frv. sem hæstv. umhvrh. flytur hér og þörfina á því og jafnframt þá möguleika sem það gæti gefið í samskiptum þessara þjóða og verkefnum sem við gætum svo tekið að okkur þar.