Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Hæstv. forseti. Í sjálfu sér er þetta þingmál eiginlega útgert mál. Það er búið að gera þennan samning og við erum bara að árétta orðinn hlut. Eigi að síður vil ég taka undir að þetta er nauðsynjamál sem hér er verið að bera fram og sjálfsagt að taka þátt í þessari norrænu samvinnu. --- Á ég að gæta bróður míns? var einu sinni spurt og það hefur vafist fyrir mönnum lengi. En það fer ekki á milli mála, okkur ber skylda til þess að styðja bræður okkar í austri til að vernda sitt umhverfi. Það er ekki bara þeirra umhverfi heldur einnig okkar.
    Mér finnst samt að það skorti örlítið á í þessu lagafrv., í þessum áætlunum. Það virðist vera búið að binda nú þegar ákvarðanir um það hvert á að snúa þessari samvinnuaðstoð, aðeins til Austur - Þýskalands, Póllands, Sovétríkjanna, Tékkóslóvakíu og Ungverjalands. Mér hefði fundist eðlilegt að í þessari upptalningu væru baltnesku löndin þrjú sem leitað hafa sérstaklega eftir samvinnu við okkur og aðstoð, bæði til þess að öðlast fullt sjálfstæði og á öðrum sviðum. Ég álít að inni í þessum samningi og í þessum lögum ætti að vera áætlun um það að við veittum baltnesku þjóðunum sérstaka aðstoð líka á þessu sviði.