Umhverfisráðherra (Júlíus Sólnes) :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka góðar undirtektir hv. þm. við þetta frv. Varðandi það sem hv. 18. þm. Reykv. Guðrún Halldórsdóttir nefndi get ég sagt frá því að það er einmitt lögð mikil áhersla á að leita eftir verkefnum í Eystrasaltsríkjunum. Veit ég til þess að fundir hafa verið tíðir og reyndar heimsóknir til Eystrasaltsríkjanna af hálfu þeirra aðila í Helsinki sem fara með þessi mál einmitt til þess að ná betra samstarfi og sambandi við Eystrasaltsríkin. Ég held að ég geti fullvissað hv. þm. um að það verður sérstaklega hugað að Eystrasaltsríkjunum í þessu sambandi.