Áfengislög
Þriðjudaginn 23. október 1990


     Flm. (Eiður Guðnason) :
    Herra forseti. Ég vildi aðeins þakka þeim hv. þm. sem tekið hafa til máls og hafa tekið undir efni frv. og staðfest að það er auðvitað hárrétt sem hæstv. forseti þessarar deildar, 2. þm. Suðurl., sagði hér í þessum ræðustól, að málið kom mjög seint fram á síðasta þingi og það er auðvitað eingöngu ástæðan fyrir því að það var ekki afgreitt. Sömuleiðis hygg ég að rétt sé sú ábending hans að hugleiða megi og athuga hvort ekki sé rétt að gefa nokkurn umþóttunartíma frá því að þessi breyting kynni að verða samþykkt og þar til hún kemur til framkvæmda vegna þess að það er sjálfsagt eðlilegt að einhvern tíma þurfi menn til undirbúnings varðandi þetta atriði.
    Ég þakka sem sagt undirtektirnar og túlka þær sem svo að þetta mál muni eiga greiðan gang hér í gegnum þessa hv. deild.