Launamál
Þriðjudaginn 23. október 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson) :
    Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til staðfestingar á bráðabirgðalögum sem sett voru 3. ágúst sl. um launamál.
    Áður en ég kem að því frv. þykir mér rétt að rekja nokkuð aðdraganda þessa máls og þá m.a. gang mála í samningum ríkisins og Bandalags háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna frá því síðla vetrar 1989 og ætla þá að nefna nokkrar tímasetningar í því sambandi.
    Kröfugerð Bandalags háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna kom fram í febrúar 1989. Ekki tókst að ná samkomulagi um þær kröfur og hófst verkfall BHMR 6. apríl 1989. Tiltölulega lítið gerðist í þeim málum þar til 12. maí, þ.e. föstudaginn fyrir hvítasunnuhelgina, að viðræður hófust á ný og tók ég reyndar nokkurn þátt í því fyrst og fremst vegna ákveðins atriðis sem ég kem sérstaklega að hér á eftir. Og síðan liggja fyrstu samningsdrög fyrir 14. maí, mikið fjallað um þau þá daga. 15. maí var samningsdrögunum enn þá breytt og tel ég rétt að rekja hér á eftir ýmislegt sem fram kom í þeirri viðleitni sem fór fram á þeim dögum til að ná samkomulagi sem að lokum var undirritað 18. maí 1989.
    Í þessum samningum var fallist á það að gera samanburð á kjörum háskólamenntaðra manna í þjónustu ríkisins og háskólamenntaðra manna sem eru starfandi utan þess og að leitast við að ná þar jöfnuði á milli. Þetta hefur oft áður verið rætt í samningum og reyndar áður verið fallist á að gera slíkan samanburð en því miður ekki tekist að framkvæma hann, enda er hann út af fyrir sig ýmsum erfiðleikum háður. Nægir að minna á að fyrri tilraunir sem hafa verið gerðar runnu út í sandinn. Það má segja að þær hafi fallið á tíma, tóku miklu lengri tíma en menn höfðu gert ráð fyrir og það var því eðlileg krafa Bandalags háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna að fá einhverjar tryggingar fyrir því að þessi samanburður yrði nú gerður á þeim tíma sem að var stefnt og um það fjölluðu ekki síst þær viðræður sem fóru fram þessa daga 12. -- 18. maí 1989.
    Mín afskipti af málinu komu þó hins vegar fyrst og fremst fram í tengslum við það sem ég taldi nauðsynlegt, að tryggja á einhvern máta að slíkur samanburður leiddi ekki til röskunar á hinu almenna launakerfi í landinu. Ég fékk með mér í það starf Þorkel Helgason sem hafði ekki komið nálægt þessum málum áður og hefur hann tekið saman minnisblað um aðdraganda að þeim þætti þessa máls sérstaklega.
    Eins og segir, lauslega rifjað upp, hófust þær viðræður 12. maí og samkvæmt þeim minnisblöðum sem hann tók saman kemur fram á fundi með BHMR, kl. 3 laugardaginn 13. maí, sú áhersla frá mér að þessi samanburður megi ekki leiða til neinnar efnahagslegrar kollsteypu, eins og tekið er fram innan gæsalappa í minnisblaði Þorkels, og það þurfi að gæta innbyrðis samræmis á milli launamanna í landinu. Þetta er síðan ítrekað aftur og aftur og kemur fram t.d. 14. maí á fundi sem þá var haldinn í forsrn., milli kl. 3 og 5, að í samningstilboði þurfi að koma setning sem þá er

lagt til að verði svohljóðandi: ,,Samtímis skal gæta innbyrðis samræmis í launakerfinu í landinu og taka tillit til aðstæðna og samkeppnisstöðu á vinnumarkaði.`` Þetta er síðan endurtekið aftur og aftur og undirstrikað í þessari viðleitni til að ná samkomulagi.
    Í drögum sem síðan eru orðin til er þetta síðan orðað nokkuð öðruvísi, í drögum sem verða til 14. maí: ,,Samtímis skal gæta innbyrðis samræmis í launakerfinu og taka tillit til samkeppnisaðstöðu ríkisvaldsins um vinnuafl.`` Um það náðist ekki samkomulag og í drögum sem verða til seinna þann sama dag er þetta enn orðað dálítið öðruvísi og sagt: ,,Við þessa endurskoðun skal jafnframt gæta innbyrðis samræmis í launakerfinu í landinu og taka tillit til aðstæðna og samkeppnisstöðu á vinnumarkaði.`` En þetta fékk ekki samþykki og var þá breytt þannig: ,,Þess skal gætt að umræddar breytingar valdi ekki röskun á hinu almenna launakerfi í landinu.`` Síðan í lokayfirferð yfir þessa hluti verður niðurstaðan sú að segja: ,,Standa skal að umræddum breytingum með þeim hætti að ekki valdi röskun á hinu almenna launakerfi í landinu`` og þannig fer þetta ákvæði inn í samninginn. Ég skrifa síðar sem forsrh. bréf 16. maí 1989 og hvet til þess að gengið verði til þessara samninga og undirstrika þá enn þá einu sinni það sem ég hef nú rakið, segi í lok bréfsins, með leyfi hæstv. forseta, ,,án þess að valda röskun á launakerfinu í landinu``. Mér finnst rétt að þetta komi fram því að þetta var kannski aðaldeiluatriðið í lokaátaki í að ná þessum samningum og er nauðsynlegt að menn geri sér grein fyrir að þetta var það áhersluatriði sem ríkisstjórnin taldi sér ekki fært að víkja frá. Það er því mikill misskilningur, sem kemur fram hjá ýmsum nú, að þegar þessir samningar voru gerðir hafi ekki verið haft í huga einmitt það sem í raun kom síðar upp þó að þetta ákvæði yrði, eins og ég mun rekja, metið á annan veg en við gerðum ráð fyrir.
    Við gerð þessara samninga var einnig mjög um það fjallað, eins og ég sagði áðan, hvernig mætti tryggja að nú yrði við það staðið að ljúka þessum samanburði á tilskildum tíma og var að lokum ákveðið að taka inn í 5. gr. það sem stundum hefur verið kallað eins konar refsiákvæði og tek ég fram að það var ekki frá gengið í þeim viðræðum sem ég tók þátt í heldur með samninganefndunum sem slíkum. Í þessari 5. gr. segir, með leyfi forseta:
    ,,Hafi menn skv. 3. mgr. 2. gr. ekki skilað lokaáliti hinn 1. júní 1990 skal greitt upp í væntanlega hækkun þannig að tilfærslur milli launaflokka skv. 3. mgr. verði að jafnaði hálfum launaflokki meiri en lágmark skv. 3. mgr. hefði verið frá 1. júní 1990. Við endanlega ákvörðun áfangans skal þó enginn lækka í launaflokki.`` Þ.e. tímamörk voru sett 1. júlí og ef þessari grundvallarathugun yrði ekki lokið fyrir þann tíma áttu menn að hækka um, eins og síðar var túlkað, 1 1 / 2 launaflokk.
    Töluvert hefur það verið nefnt í umræðunum að þegar samningar á hinum almenna launamarkaði voru gerðir hafi forustumenn sem að þeim samningum stóðu gengið á fund ríkisstjórnarinnar og lagt áherslu

á að umræddir samningar við Bandalag háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna yrðu varasamir í þessu sambandi og þá með tilliti til þess fyrirvara sem er í hinum almennu samningum, að önnur laun í landinu skuli ekki hækka meira. Þeim var þá tjáð, með tilvísun til þess ákvæðis sem ég rakti ítarlega áðan, í 1. gr., að á þessu væri fullur skilningur og hefði náðst samkomulag við háskólamenntaða menn um að standa skyldi þannig að umræddum breytingum að ekki ylli röskun á hinu almenna launakerfi í landinu. Menn töldu að með þessu móti yrði þess gætt.
    Það er skemmst frá því að segja að samanburður sem gerður var á launum opinberra starfsmanna háskólamenntaðra innan og utan ríkisgeirans tók langtum lengri tíma en gert hafði verið ráð fyrir. Gallupstofnunin var fengin til að vinna þetta verk. Ýmislegt olli þeim töfum. Bæði tók lengri tíma en gert hafði verið ráð fyrir að ná samkomulagi um það hverjir skyldu vera í þeim samanburði. Reyndar held ég að öllum megi ljóst vera að þarna er um afar erfiðar skilgreiningar að ræða og var reyndar langt frá því að margt af því væri leyst þegar samanburðarkönnunin fór fram. Hún tók hins vegar lengri tíma en gert hafði verið ráð fyrir einnig og fengust ekki niðurstöður fyrir 1. júlí án þess að ég fari að rekja það ítarlega. Það varð til þess að Bandalag háskólamenntaðra manna taldi að sá hluti 5. gr. sem ég las áðan ætti að koma til framvæmda með launahækkun sem næmi 1 1 / 2 launaflokki.
    Á fundum sem haldnir voru með fulltrúum hins almenna vinnumarkaðar, sérstaklega með fulltrúum VSÍ og ASÍ og sömuleiðis með fulltrúum BSRB, kom fram að yrði sú launahækkun, sem yrði þá um 4,5%, framkvæmd, benti allt til þess að þeir teldu sér skylt að veita sínum viðsemjendum sömu launahækkun. Ítarlega var rætt við þessa aðila um þetta mál og m.a. kannað hvort þeir mundu ekki þola einhverja hækkun, ef t.d. unnt væri að hraða þeim samanburði sem gerður hafði verið, en það kom mjög greinilega fram að svo var ekki og vísuðu þar reyndar nánast eingöngu í þær forsendur sem ég nefndi áðan í þeirra kjarasamningum. Reyndar kom þetta mjög ítarlega fram opinberlega frá þessum aðilum, að þeir mundu ekki sætta sig við það. Ríkisstjórnin taldi því ljóst að hækkun samkvæmt þessari grein mundi valda þeirri röskun sem ákvæði 1. gr. var ætlað að koma í veg fyrir og ákvað því að af þessari hækkun gæti ekki orðið. Ég beitti mér fyrir því að þá yrðu ítarlegar viðræður við háskólamenntaða menn um þetta mál og það verður að segjast eins og er að þar var járn í járn og ekki vilji til þess að fresta umræddum hækkunum, m.a. talið ljóst að aðilar vinnumarkaðarins mundu ekki láta slíka hækkun yfir sig ganga ef hún yrði. Fljótlega kom þó í ljós að svo var ekki. Vinnuveitendur samþykktu að kæmi þessi launahækkun til framkvæmda skyldi hún einnig veitt þeirra viðsemjendum.
    Þess ber þá að geta að í 15. gr. samnings ríkisins og háskólamenntaðra manna er gert ráð fyrir að þeir skuli hljóta hverja þá hækkun sem hinn almenni vinnumarkaður fengi umfram þeirra umsömdu hækkun. Með öðrum orðum var komin af stað víxlverkun sem ekki var séð hvar mundi enda nema þá í ósköpum verðbólgunnar. Þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að greiða umsamda hækkun ekki út með tilvísun til 1. gr. var vísað til félagsdóms, eins og hv. þm. þekkja, og niðurstaðan varð þar sú að greiða skyldi út þessa hækkun. Þá var komið fram undir mánaðamótin júlí/ágúst.
    Þá samþykkti ríkisstjórnin tillögu frá mér um tilboð til BHMR að samanburðinum öllum yrði áfram haldið en frestað yrði þeim hækkunum sem af honum kynni að leiða þar til þjóðarsáttinni væri lokið í september 1991. Fjmrh. gerði ítarlega tilraun til að ná samkomulagi um þessa málamiðlun, en því miður tókst hún ekki. Ríkisstjórnin taldi, með tilliti til þess sem ég hef nú rakið og með tilliti til þeirra augljósu víxlverkana í launum sem mundu fylgja þegar sama launahækkun yrði greidd út hjá hinum almenna vinnumarkaði og síðan ný krafa frá BHMR um hækkun til jafns við það, að leiða mundi til þess að hér hæfist ný óðaverðbólga sem ekki væri séð fyrir endann á. Að vísu kom það fram í viðræðum við fulltrúa BHMR að til greina kæmi að falla frá þessari víxlverkunarkröfu, þ.e. 15. gr., og var þar gengið nokkuð til móts við tillögur ríkisstjórnarinnar. Hins vegar var ljóst að jafnvel hækkun um 4,5%
mundi brjóta á bak aftur svokallaða þjóðarsátt og lá alveg ljóst fyrir að því mundu fylgja hækkanir á ýmiss konar verðlagi sem aftur mundu leiða til þess að samningum yrði sagt upp og hér hæfust víxlverkanir verðlags og launa.
    Ríkisstjórnin taldi til svo mikils að vinna að koma í veg fyrir þetta að hún sá ekki annan kost en að setja bráðabirgðalög þar sem numdar eru úr gildi þær greinar í samningi við Bandalag háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna sem heimiluðu þær launahækkanir sem ég hef nú gert grein fyrir, þ.e. 5. og 15. gr.
    Ég hef jafnframt látið taka saman svör við þeim spurningum sem fulltrúi Kvennalistans lagði fyrir mig sl. mánudag og ég átti að svara á tveimur mínútum. Það var ekki unnt en ég ætla að leyfa mér að fara með þær spurningar og svör sem skýra málið verulega.
    Fyrsta spurningin er: Með bráðabirgðalögum er numinn úr gildi úrskurður æðsta dómstóls. Telur forsrh. verjandi að setja bráðabirgðalög sem að öllum líkindum brjóta bæði í bága við 73. gr. stjórnarskrárinnar um félagafrelsi og 2. gr. stjórnarskrárinnar um þrískiptingu valdsins?
    Svar mitt, eftir að ég hef ráðgast við lögfræðinga um málið, er að það er misskilningur að bráðabirgðalögin hafi numið úr gildi dóm félagsdóms, eins og ég sagði reyndar þegar ég í mjög stuttu máli svaraði þessum spurningum. Dóminum er í engu raskað, hins vegar er hluta samnings BHMR og fjmrh. breytt með lögunum þannig að þær greiðslur sem fólust í dóminum féllu niður frá 1. sept. 1990. Það þýðir hins vegar ekki að dóminum sé breytt heldur þeirri réttarheimild sem greiðsluskylda samkvæmt dóminum studdist við. Og því er alfarið vísað á bug að bráðabirgðalagasetningin brjóti í bága við 73. gr. stjórnarskrárinnar um félagafrelsi og 2. gr. stjórnarskrárinnar um þrískiptingu valdsins. Er raunar dregið verulega í efa að þessar tvær greinar eigi við í því sambandi sem hér um ræðir.
    Önnur spurning: Hvernig samræmist setning bráðabirgðalaga nýjum lögum um aðskilnað dóms- og umboðsvalds?
    Ég verð að segja að þeir lögfræðingar sem ég hef talað við hafa ekki skilið þessa spurningu og gengið ákaflega illa að átta sig á henni. Ég segi það sama, ég fæ ekki skilið hvað þarna er átt við. Kannski geta hv. kvennalistakonur skýrt það hér nánar.
    Í þeim lögum sem vitnað er til er ekki fjallað um aðskilnað löggjafarvaldsins og dómsvaldsins. Í lögum um aðskilnað dóms- og umboðsvalds er heldur ekki að finna neitt sem snertir setningu bráðabirgðalaga. Spurningin er því óskiljanleg og maður spyr sjálfan sig hvort þeir sem spurðu hafi skilið hana en það væri þá gott að fá fram nánari skýringar.
    Þriðja spurningin: Telur forsrh. verjandi að framkvæmdarvaldið setji lög sem brjóti í bága við ákvæði 67. gr. stjórnarskrárinnar um eignarrétt með því að lækka laun tiltekins hóps?
    Í 67. gr. segir: ,,Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína, nema almenningsþörf krefjist; þarf til þess lagafyrirmæli, og komi fullt verð fyrir.``
    Við setningu bráðabirgðalaganna var talið að þau væru alls ekki andstæð 67. gr. stjórnarskrárinnar. Ég vil taka fram að um þetta var sérstaklega leitað álits fleiri lögfræðinga og þeirra niðurstaða var sömuleiðis sú að þetta bryti ekki í bága við aðrar greinar stjórnarskrárinnar. Ekkert er því óeðlilegt við að framkvæmdarvaldið setji bráðabirgðalögin, enda sé tryggt að slík lög hafi meirihlutafylgi á Alþingi og að sjálfsögðu gengu stjórnarflokkarnir úr skugga um það.
    Fjórða spurning: Nú hefur ríkisstjórnin sett bráðabirgðalög sem að öllum líkindum eru brot á þremur greinum stjórnarskrárinnar. Telur forsrh. þörf á að setja sérstakan stjórnarskrárdómstól?
    Ég vil í fyrsta lagi mótmæla því að þetta brjóti í bága við þrjár greinar stjórnarskrárinnar og hef áður rakið það að það var ítarlega skoðað hvort um slíkt gæti verið að ræða. Niðurstaðan hjá öllum þeim lögfræðingum sem leitað var til var að svo væri ekki í þessu tilfelli enda augljósar afleiðingar ef þessar hækkanir næðu fram.
    Það er rétt að sérstakur stjórnarskrárdómstóll er til í sumum ríkjum. Hér á landi hefur hins vegar verið fylgt þeirri reglu að láta hina almennu dómstóla fjalla um slík mál. Reyndar hefur það verið okkar venja að setja ekki upp sérdómstól í ýmsum málum og mætti halda að þeir sem vilja draga úr ríkisbákninu teldu þetta ekki leið til þess. Ég vil lýsa þeirri skoðun minni að ég treysti fullvel hinum almennu dómstólum til að fjalla um svona mál og frekar vil ég sporna gegn stofnun sérdómstóla og þeirri útvíkkun sem í því felst. Enda hefur málið komið fyrir dómstóla og hef ég ekki heyrt neinn vefengja það að þessir dómstólar séu fullfærir að fjalla um málið.
    Fimmta spurning: Allir sjá að forsendur bráðabirgðalaganna eru hæpnar. Hvers vegna var Alþingi ekki kallað saman í ágúst til að fjalla um kjarasamninga BHMR?
    Ég sagði áðan að það var gerð mjög ítarleg tilraun til að ná samkomulagi við BHMR og fóru þeir fundir fram helgina í lok júlí. Þeir tókust ekki, því miður. Þá var þetta mál allt komið í eindaga og ljóst að það yrði að eyða þeirri óvissu sem þá var, ljóst að þetta yrði afar erfitt mál ef greiðslur væru hafnar á hinum almenna vinnumarkaði eins og þær voru hafnar til BHMR. Því var ekki svigrúm til að kalla Alþingi saman.
    En auk þess vek ég athygli á því að stjórnarskráin segir að það megi setja bráðabirgðalög milli þinga þegar brýna nauðsyn ber til, og ég held nú fyrir mitt leyti að sjaldan hafi brýnni nauðsyn borið til en í þetta skipti.
    Ég sé ekki mun á því þótt Alþingi hefði sett þessi lög, þegar búið var að ganga úr skugga um það að tryggt fylgi væri fyrir þessum lögum. (Gripið fram í.) Mönnum kann að þykja það undarlegt að ég teldi brýna nauðsyn til. Ég veit ekki hverju menn hafa vanist á verðbólguárunum. Ég veit að við fögnum því öll núna að atvinnuvegirnir búa við allt önnur skilyrði og svo gera heimilin. Svo væri ekki ef ný verðbólgualda hefði hafist og þeir samningar sem gerðir voru á hinum almenna vinnumarkaði hefðu brostið. Ég er sannfærður um það að þá væri hér víða auðn og ég er reyndar sannfærður um það að þá hefðu háskólamenntaðir menn ekkert borið úr býtum. Eða að hvaða leyti hefði hlutur þeirra orðið meiri ef þeirri hækkun sem þeir fengju hefðu fylgt samsvarandi hækkanir á hinum almenna markaði? Hvað var með slíku unnið? Nei, vitanlega hefði ekkert upp skorist af því nema öngþveiti í íslenskum efnahagsmálum og öngþveiti í íslenskum launamálum. Það ber að harma að ekki náðist samkomulag um að halda áfram þeim samanburði sem var hafinn og láta þá þær hækkanir koma fram sem kynnu að hafa komið úr þeim samanburði í september 1991. Sumum þykir kannski nokkuð langt að bíða til þess tíma. En að mínu mati er það þó ólíkt skárra en að fara út á ísinn og kanna ekki hvernig hann er. Ég er sannfærður um að þannig hefði, og kannski má enn sýna fram á að þarna sé leiðréttingar þörf, þarna sé rétt að leiðrétta, og að hinn almenni markaður sætti sig við þá leiðréttingu. Ég lýsi þeirri von minni að sú vinna haldi áfram sem var hafin, hún er mjög erfið, hún þarf meiri tíma en gert var ráð fyrir, en hún getur verið mjög þörf. Og það er eina leiðin til að ná þeirri leiðréttingu sem þarna kann að reynast réttmæt á grunni þessa samanburðar. Það er eina leiðin að gera það svo.
    Ég þarf ekki að vekja athygli á því að ýmsir forustumenn launþega hafa farið mjög hörðum orðum um það að þeir muni krefjast hverrar þeirrar hækkunar sem hærra launaðir aðilar í þjóðfélaginu, eins og þeir orða það, fá. Ég geri mér samt vonir um það að þegar allar upplýsingar liggja fyrir ítarlega raktar og þá

þannig að allir hafi aðgang að þeim og geti rökrætt þær, þá muni menn fallast á að einhver leiðrétting sé réttmæt, enda hafi hún verið vel unnin.
    Það kann vel að vera að þessu sé nú stefnt í hættu en það fer fyrst og fremst eftir því hvort aðilar fást til að setjast yfir þessa vinnu og halda henni áfram. Þetta er aðdragandi þess að ríkisstjórnin sá sér ekki annað fært en að setja bráðabirgðalög, eins og ég sagði áðan, dagsett 3. ágúst 1990. Þau eru um launamál almennt og hér liggur fyrir frv. til laga um launamál til staðfestingar á þeim bráðabirgðalögum.
    Í fáum orðum sagt er fastmælum bundið samkvæmt þessum lögum að laun skuli hækka hér yfir línuna hjá öllum um það sama sem kveður á um í hinum almennu kjarasamningum, þ.e. um 2% 1. des. 1990, um 2,5% 1. mars 1991 og 2% 1. júní 1991. Einnig eru öll þau ákvæði önnur í hinum almennu kjarasamningum lögbundin fyrir aðra aðila hér í þjóðfélaginu og sömuleiðis þær ákvarðanir sem gert er ráð fyrir að launanefndir geti tekið í hinum almennu kjarasamningum, bæði launanefnd VSÍ og ASÍ og sömuleiðis launanefnd ríkissjóðs og bandalags ríkisstarfsmanna. Og þá er gert ráð fyrir að slíkar ákvarðanir gildi einnig fyrir aðra.
    Í þessum lögum er jafnframt sett bann við því að laun hækki um meira en samkvæmt þessum ákvæðum og því tekin til baka sú launahækkun um 4,5% sem opinberir starfsmenn höfðu þegar fengið. Það má orða það svo að í staðinn fái þeir þær launahækkanir sem ég rakti áðan.
    Eins og ég sagði eru þessi lög almenns eðlis og heimila t.d. að launanefndir megi setja á fót hjá öðrum samningsaðilum sem ekki hafa slíkar nefndir enda náist um það samkomulag. Þá skulu þær launanefndir hafa sama rétt til að breyta samningum og launanefndir þær sem settar voru á fót samkvæmt samningum VSÍ og ASÍ og ríkisins og BSRB.
    Í þessum lögum eru svo jafnframt numdar úr gildi 5. og 15. gr. kjarasamningsins sem ég nefndi áðan og af þeim ástæðum sem ég hef þegar rakið.
    Það er að sjálfsögðu ætíð erfitt og reyndar slæmt að þurfa að breyta kjarasamningum með lögum. En ég vil leyfa mér að segja að stundum geta þjóðarhagsmunir verið þannig að jafnvel mikilvæg atriði verði að víkja. Það er a.m.k. óbifanleg skoðun mín að ekkert sé þessari þjóð mikilvægara en að ná tökum á sínum efnahagsmálum og fjöldamörg ef ekki öll þau góðu atriði sem sumir lýstu hér í gærkvöldi verði ekki framkvæmd nema efnahagsmálin séu í heilbrigðu og góðu lagi. Við gerum ekki þessa hluti nema atvinnan sé trygg, við gerum ekki þessa góðu hluti nema jafnvægi sé í efnahagsmálum og verðbólga ekki meiri en hún er í okkar nágrannalöndum. Þetta hélt ég nú satt að segja að flestir hefðu lært í gegnum erfiðleika undanfarinna ára. En fljót er lexían stundum að gleymast og ég get ekki neitað því að mér finnst svo á málflutningi sumra þeirra sem töluðu hér í gærkvöldi.
    Ég vona að með þessum því miður erfiðu aðgerðum og fleirum sem ríkisstjórnin hefur gripið til og orðið að sýna kjark til að grípa til, þá náist þetta

markmið og hér komist jafnvægi á í efnahagsmálum. Ég vona að með áframhaldandi vinnu takist að vinna þann samanburð á launum háskólamenntaðra manna sem menn taka trúanlegan og það skapist þá svigrúm til að leiðrétta ef niðurstaðan sýnir að svo ber að gera.
    Ég vil svo að lokum, herra forseti, leggja til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til fjh.- og viðskn.