Launamál
Þriðjudaginn 23. október 1990


     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég kveð mér hljóðs í þessari umræðu til þess að gera grein fyrir sjónarmiðum mínum varðandi það stóra mál sem hér er til umræðu. Ég geri það til viðbótar þátttöku í utandagskrárumræðu hér fyrir skemmstu. Þar var lítill tími til þess að fjalla um málið og úr því ætla ég að bæta hér nokkru við til þess að fyrir liggi hvers vegna ég ásamt öðrum þingmanni Alþb. tók þá ákvörðun að lýsa andstöðu við setningu þessara bráðabirgðalaga sl. sumar, þeirra laga sem hér er leitað staðfestingar á.
    Ég vil taka það fram í upphafi að ástæðan fyrir þessari afstöðu byggir ekki á spurningunni um hvað sé réttlæti í sambandi við hlutaskipti í þjóðfélaginu, spurningunni um há laun eða lág laun til þessa eða hins. Um það snýst í raun og veru ekki þetta mál, heldur um almennar leikreglur í samfélaginu, hvaða leikreglur eigi að gilda í samskiptum aðila vinnumarkaðarins, í þessu tilviki í samskiptum ríkisvaldsins við starfsfólk sitt í Bandalagi háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna þó að þetta mál varði auðvitað önnur samtök sem ríkið semur við, eins og samtök kennara sem áttu ósamið þegar þessi bráðabirgðalög voru sett.
    Það er mikill misskilningur finnst mér hjá hæstv. forsrh. þegar hann er að rökstyðja þessa lagasetningu með því að vísa í 1. gr. kjarasamnings Bandalags háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna og þau ákvæði og þá varnagla sem þar voru slegnir. Dómsniðurstaðan sem hér er verið að setja lög þvert ofan í varðar ekki 1. gr. samningsins heldur 5. gr. hans, sem er rökstuðningurinn fyrir dómi félagsdóms sem er æðsta dómstig í þessu máli. Mér finnst mjög sérkennilegt að ráðherrar sem eru beðnir um að rökstyðja afstöðu sína m.a. með vísun til stjórnarskrár landsins skuli hlaupa langt yfir skammt í rökstuðningi að þessu leyti. Og ég undrast það líka þegar það er fram borið hér á Alþingi þegar mælt er fyrir þessum lögum, mörgum mánuðum eftir að þau eru sett af hæstv. forsrh., að ríkisstjórnin hafi talið til svo mikils að vinna að hún hafi ekki séð sér neinn annan kost en að setja þessi lög. Það var ekki í þessu tilviki nauðsynin, hin brýna nauðsyn sem hæstv. forsrh. var að vísa til, heldur að það var til svo mikils að vinna. Það er vísað til efnahagslegra ástæðna og annars rökstuðnings í sambandi við þetta mál, en hann er bara því miður ekki gildur í þessu máli. Sá rökstuðningur er ekki gildur að mínu mati í þessu máli því það snýst ekki um hlutaskipti í samfélaginu heldur um leikreglur. Nema það sé hugmynd manna hér á Alþingi Íslendinga, sem ég ætla nú raunar ekki, að taka upp þannig kerfi hér að ríkisvaldið skammti fólki kaup og kjör í þessu landi og frjáls samningsréttur sé afnuminn. Þó svo að sporin í þeim efnum séu mörg og slæm á undanförnum árum í tíð fyrri ríkisstjórnar, þá tók núverandi ríkisstjórn, sú sem mynduð var haustið 1988, við þeim gjörningi þegar hún settist á stóla og situr með litlum endurbótum eftir ummyndun ríkisstjórnarinnar fyrir um ári síðan.
    Þetta er mjög alvarlegt mál sem hér er til umræðu.
Það snertir grundvallarþætti stjórnskipunar okkar, undirstöðuþætti varðandi leikreglur í samfélaginu og það varðar mjög marga. Jafnvel þó menn telji sig hafa vissu fyrir því að þarna hafi verið mikil vá eða a.m.k. erfiðleikar fyrir dyrum í efnahagslegu samhengi þá finnst mér ekki hægt að rökstyðja þessa lagasetningu með vísun til efnahagslegra kringumstæðna miðað við það sem á undan var gengið. Þá er ég að vísa til félagsdóms, niðurstöðu hans og dómsorðs, og ég er líka að vísa til þeirrar mjög takmörkuðu og brotakenndu viðleitni sem ríkisvaldið sem samningsaðili hafði haft uppi til þess að leysa þetta mál með samningum og friðsamlegum hætti við gagnaðilann, í þessu tilviki BHMR. Ríkisvaldið gerði samning við BHMR vorið 1989. Aðrir aðilar á vinnumarkaði sömdu í febrúar 1990. En ríkisvaldið hafði ekki fyrir því að koma því áleiðis til viðsemjanda síns, BHMR, að það liti svo á að vegna gerðra samninga á almennum markaði teldi það að fyrri samningur væri ógildur og honum væri sagt upp, sem hefði þó verið skylda ríkisvaldsins ef það var mat manna að ekki væri búandi við þennan samning, m.a. vegna ákvæða 15. gr. hans um víxlhækkanir og tilvísun í aðra kjarasamninga.
    Mér dettur ekki í hug að fara að leggja mat á eða verja einstök ákvæði í kjarasamningi ríkisins og BHMR. Vissulega voru þessir samningar gerðir eftir mjög hatrammar deilur milli ríkisvaldsins og BHMR, en við verðum að ætla mönnum að hafa vitað hvað þeir voru að gera. Þeir sömdu og þeim bar að standa við þennan samning eða segja honum upp ella. Og að setja bráðabirgðalög ofan í niðurstöðu æðsta dómstigs er slíkur gjörningur að ég tel hann ekki verjandi og ég get af þeim ástæðum ekki greitt atkvæði með því frv. sem hæstv. forsrh. hefur hér mælt fyrir.
    Það hafa margir ljótir blettir myndast í sambandi við þetta mál. Það er verið að reyna að koma því inn hjá almenningi að þessi bráðabirgðalög séu sett af réttlætiskennd. Það er ósköp auðvelt mál að sverta gagnaðilann sem ríkisvaldið hefur samið við og segja: Það er allt of vel gert við hann og þeir eiga ekkert skilið meira. Það er ósköp auðvelt en er það atriði í þessu máli? Það var samið. Vita menn ekki að launamunurinn í þessu landi byggir ekki fyrst og fremst á mismunandi kjörum milli þessara þriggja stóru samtaka á vinnumarkaði, heldur er hann innbyrðis hjá þessum samtökum. Það er launastiginn innbyrðis hjá þessum samtökum. Ef menn fara að líta á það efni. Halda menn að það séu einhver jafnaðarlaun sem gilda fyrir umbjóðendur Alþýðusambands Íslands eða hjá öðrum launasamtökum í landinu? Nei, það er launastigi, það eru launaþrep. Vissulega eru menn í hærri launum sumir hverjir innan þeirra samtaka sem hér var fyrst og fremst verið að setja lög á. En það er ekki meginatriðið í þessu máli. Síðan er í röksemdafærslum verið að tala um hin almennu samtök á vinnumarkaði sem andstæðuna við þann hóp háskólamenntaðs fólks sem starfar í sínum samtökum. Er ríkisvaldið, eru þingmenn og ráðherrar að segja að þetta sé eitthvað lægra sett fólk þannig séð sem starfskraftar og

þess vegna beri ekki að virða samningsrétt þeirra? Ég felli mig ekki við slíkan málflutning. Og síðan var borið við og er borið við hinn almenni og víðtæki stuðningur og krafa um að gripið sé inn í þvert ofan í dóm. En það fölnaði nú svolítið það blómið ef menn telja eitthvert mark takandi á skoðanakönnunum þegar í ljós kom í skoðanakönnun DV um það leyti sem bráðabirgðalögin voru sett, eða rétt á eftir, að um helmingur aðspurðra sem tóku afstöðu taldi þetta rangan gjörning. Það var nú ekki meiri stuðningur í almenningsálitinu við þessa lagasetningu. En ég efast ekkert um það sem hæstv. forsrh. segir hér að þegar þessi bráðabirgðalög voru sett hafi verið stuðningur við þau í hópi alþingismanna, meirihlutastuðningur, þó hann sé nú ekki allur þar sem hann er séður sá stuðningur. Og ekki heldur þau andmæli sem höfð eru síðan uppi við þessari lagasetningu. Því það er dálítið holur hljómur einnig í þeim andmælum hjá sumum talsmönnum flokka, eins og Sjálfstfl. hér á Alþingi, ef marka má stuðningsyfirlýsingar við þessa lagasetningu og þessa efnislegu niðurstöðu máls frá ágústmánuði sem Morgunblaðið margítrekaði í leiðurum í júlímánuði og í ágústbyrjun. Þar átti ríkisstjórnin sinn örugga og trausta stuðning í þessu máli, í Morgunblaðinu sem margtók það fram að hér væri um réttan gjörning að ræða. Ég ætla hins vegar ekki endilega hv. þm. Sjálfstfl. að bera fyrir sig þann rökstuðning eða að þetta fjöllesna málgagn endurspegli sjónarmið þeirra í einu eða öllu, ég ætla mönnum ekki svo lítinn hlut en ég vek athygli á þessu.
    Ég hlýt líka að vekja athygli á því hversu varasamt og tvísýnt, að ekki sé sagt hættulegt, það er fyrir samtök launafólks í þessu landi að taka undir gjörning af þessu tagi, beint og óbeint, um nauðsyn þess að grípa inn í gerða samninga með lögum sem ekki eru reist á traustari grunni en hér um ræðir.
    Ég er hræddur um að það geti átt eftir að koma í bakið á fjölmennum samtökum launafólks í þessu landi að þau skyldu ekki andmæla með skýrari og öflugri hætti þessari bráðabirgðalagasetningu. Samtök launamanna verða að átta sig á því að það er fordæmisgildið í máli sem þessu sem er stórhættulegt, ef menn ætla að skrifa upp á brot á leikreglum eins og þau sem hér gerðust.
    Við vorum ekki nema tveir í stuðningsliði ríkisstjórnarinnar sem andmæltum þessari bráðabirgðalagasetningu. Hv. þm. Geir Gunnarsson, hann situr ekki hér á þinginu nú, en ég vil leyfa mér að vitna til orða hans í Þjóðviljanum 4. ágúst sl. Þar segir hann, með leyfi forseta:
    ,,Ríkisstjórnin gerði þennan samning áður en þjóðarsáttin var gerð og maður verður að ímynda sér að hún hafi ætlað að standa við hann. En svo er eins og menn hafi verið ráðnir í að hafa hann að engu. Svo kom þetta áfall sem úrskurður félagsdóms var og þá var ekki hikað við að afnema dóminn með lögum. Alltaf þegar gerð er atlaga að samningsrétti launafólks hefur það fordæmisgildi. Það veit enginn hver verður næstur.``
    Þetta er orðrétt haft eftir Geir Gunnarssyni en í

óbeinni ræðu segir síðan: ,,Hann sagðist telja að nóg hefði verið fyrir ríkisstjórnina að segja BHMR - samningnum upp og segist álíta víxlverkunarákvæðið ekki gilt eftir að uppsögn tók gildi. Á hinn bóginn segist hann vera andvígur því að ein samtök geti samið um það sem aðrir fá síðar. Hann telur þó rangt að setja lög um þetta sem nái einungis til BHMR.``
    Ég hef hér, virðulegur forseti, reynt að gera grein fyrir meginástæðum þess að ég get ekki stutt þennan gerning nú frekar en á liðnu sumri þegar leitað er staðfestingar Alþingis á þessum bráðabirgðalögum.
    Ég gat þess að forleikur þessa máls hefði ekki verið með þeim hætti að ríkisstjórnin geti vísað til hans til stuðnings þessum gerningi. Það var ekki leitað samninga við BHMR á milli samningsgerðarinnar í febrúar á liðnum vetri og fram í júnímánuð. Það fara engar formlegar viðræður fram milli þeirra sem í raun fóru með þetta mál og forustu BHMR og það gerist síðan, líklega 12. júní, að það er einhliða tilkynnt af hálfu ríkisstjórnarinnar að það standi ekki til að standa við ákvæði samningsins. Það er ekki haft fyrir því að leita samkomulags um málið. Rétt áður en bráðabirgðalögin eru sett,, þegar viðræður fara fram milli aðila og fram er kominn vilji af hálfu gagnaðila ríkisins til þess að taka efnislega upp 15. gr. samningsins, víxlverkunarákvæðin, mátti ríkisvaldið ekki vera að því að bíða eftir því og láta á það reyna á einhverjum sanngjörnum tíma hvort hægt væri að ná samkomulagi um þessi efni.
    Það er, virðulegur forseti, alveg augljóst að þessi lagasetning byggir á afar hæpnum og tvísýnum forsendum. Og það er líka augljóst að það er með öllu úrelt orðið ákvæði 28. gr. stjórnarskrárinnar að ríkisvaldið hafi heimild til bráðabirgðalagasetningar, þær rúmu heimildir sem þessi bráðabirgðalög eru sett eftir. Hér fyrir þinginu liggur frv. sem þegar hefur verið mælt fyrir og flutt er af þingmönnum Kvennalistans um það að þetta ákvæði verði fellt niður. Ég hef lýst stuðningi mínum við þetta frv. Ég tel öll rök mæla með því að þessi grein stjórnarskrárinnar verði felld niður. Tilefni þess að þetta mál er tekið upp nú er augljóslega það frv. til staðfestingar bráðabirgðalaga sem hér er til umræðu.
    Ég hlýt að geta þess hér að þingflokkur Alþb. í heild sinni gekk ekki glaður til þessa leiks. Að þingflokkurinn andæfði gegn þeim textum að bráðabirgðalögum sem gengu á milli í ríkisstjórn og fékk því til leiðar komið að lögin báru annan svip en upphaflega var. En mín niðurstaða var sú þrátt fyrir að þar fékkst breyting á frá fyrstu gerð og annarri gerð til þriðju gerðar að lagasetningin hvíldi áfram á svo hæpnum og veikum forsendum að ég gæti ekki að henni staðið og hún leiddi að sama marki og að var stefnt þó búningurinn væri orðinn nokkur annar.
    Það er ljóst, virðulegur forseti, að það er orðinn mikill trúnaðarbrestur milli háskólamenntaðra starfsmanna í þjónustu ríkisins og viðsemjenda þeirra. Forusta BHMR og forusta kennarasamtakanna, Kennarafélags Íslands, mótmælti harðlega þessum bráðabirgðalögum og hefur ítrekað það síðan. Samskipti þessara

aðila við ríkið hafa verið erfið um margra ára skeið og deilur hafa leitt til verulegs tjóns milli þessara aðila, ekki síst varðandi starf skólanna í landinu. Þannig hafa þeir sem síst skyldi, börn og nemendur, orðið fyrir barðinu á langvarandi erjum ríkisins við starfsmenn sína. Ég hef oft staðið í þessum ræðustól hér fyrr á árum þegar deilur voru uppi við samtök kennara í landinu og skólastarf var lamað vegna slíkra deilna. Þetta er óviðunandi ástand og það er löngu hætt að vera einkamál einstakra hagsmunasamtaka í raun. Það gildir að sjálfsögðu og skiptir afar miklu að góður starfsandi ríki á vinnustöðum ríkisins og í skólum landsins. Þróun atvinnulífs hér á landi sem annars staðar byggir í vaxandi mæli á rannsóknastarfi sem að verulegum hluta fer fram í ríkisstofnunum. Það er því afar brýnt að skaplegt andrúmsloft og bærilegt traust skapist milli handhafa ríkisvaldsins og starfsmanna í ríkisþjónustu, einnig þeirra sem aflað hafa sér háskólamenntunar. Það er ekki ástæða til að ætla að háskólamenntað fólk sé að jafnaði óvægnara sem viðsemjendur um kaup og kjör en ýmsir aðrir hópar í þjóðfélaginu. Átökin að undanförnu og þau sem þetta frv. ber vott um og einhliða rifting ríkisins á gerðum samningum er hins vegar ekki til þess fallið að efla traust og ýta undir sanngirni hjá gagnaðilum.
    Verkefni Alþingis á að mínu mati ekki að vera að blanda sér í þegar gerða samninga á vinnumarkaði. Löggjafinn, þessi samkoma hér, hefur önnur ráð til þess að jafna kjör í landinu ef vilji er fyrir hendi og hlutverk hennar ætti öðru fremur að vera að stilla til friðar á vinnumarkaði, rétta sáttahönd fram og stuðla að því að sæmileg sanngirni og friður ríki milli aðila þannig að heildarhagsmuna sé gætt.
    Ég sagði það í umræðunum utan dagskrár um daginn að það má vera að menn telji sig hafa einhvern stundarhagnað af þessum gjörningi en til lengri tíma litið horfir hann ekki til farsældar.