Launamál
Þriðjudaginn 23. október 1990


     Þórhildur Þorleifsdóttir :
    Virðulegur forseti. Það er vert að geta þess áður en lengra er haldið að ástæðan til þess að við kvennalistakonur efndum hér til umræðu utan dagskrár sl. þriðjudag og höfum lagt mikla áherslu á að þessi lög yrðu lögð fram hér sem fyrst er ekki einhver tilviljanakennd uppákoma hugsanlega til þess fallin að afla sér vinsælda eða athygli. Þetta er svipað og mál sem við höfum áður tekið afstöðu til. Ég vil minna á það að haustið 1988 þegar sú stjórn var sett á laggirnar sem nú situr við völd, að vísu með smáábót, og Kvennalistanum boðin aðild að þeirri ríkisstjórn var aðalástæðan fyrir því að við léðum ekki máls á því að sú ríkisstjórn tók við bráðabirgðalögum sem sett höfðu verið á kjarasamninga. Þeir tveir flokkar sem hingað til höfðu verið hvað mest orðaðir við verkalýðshreyfinguna, Alþfl. sem reyndar hafði átt aðild að setningu þeirra laga og Alþb., sáu ekkert athugavert við að leggja blessun sína yfir þá gjörð en það gátum við kvennalistakonur ekki. Þetta hefur iðulega verið túlkað sem kjarkleysi og það að þora ekki að axla ábyrgð, en það er orðið sérkennilegt siðgæðismat þegar það er orðið kjarkleysi að standa við skoðanir en þykir orðið kjarkur að geta skipt um skoðun án þess að flökra.
    Ég vil minna á það að árið 1983 höfðu líka verið sett bráðabirgðalög á launafólk. Núv. menntmrh. Svavar Gestsson lét þá svo ummælt þegar stefnuræða forsrh. var til umræðu 18. okt. 1983: ,,Við teljum að brýnasta verkefnið nú sé að afnema bráðabirgðalög svo að launamenn geti með fullum myndugleika tekið þátt í lýðræðislegu samstarfi í samfélagi okkar.`` Þessi sami ráðherra lét svo ummælt í útvarpi fyrir nokkrum dögum að Ísland væri lýðræðisleg fyrirmynd annarra þjóða vegna fámennis og væri nú fróðlegt að vita hvort það eru sömu hugmyndir um lýðræði sem liggja til grundvallar þessum tvennum ummælum.
    Það er ekki ástæða til þess að rekja sögu eða aðdraganda þessara laga of mikið því að það hefur þegar verið gert, en það eru nokkrar spurningar sem vert er að leggja fyrir ríkisstjórn, ráðherra, varðandi þetta mál. Nú er þegar mál í gangi fyrir bæjarþingi sem mun verða prófmál varðandi þessi bráðabirgðalög. Það er ljóst að það er erfitt fyrir ekki fjölmennara félag en BHMR að þurfa að standa í málaferlum við hið opinbera en þetta er svo sannarlega ekki í fyrsta skipti sem slíkt hendir. Þar sem félagið getur ekki sem heild sótt málið þá verða einstaklingar að gera það. Félagsmenn BHMR munu greiða um 3000 kr. og því verða þetta mikil útgjöld fyrir þetta fámenna félag ef hver og einn þarf að sækja rétt sinn persónulega fyrir dómi. Því vil ég spyrja Ólaf Ragnar Grímsson hvort hann muni samþykkja að málskostnaður verði greiddur úr ríkissjóði.
    Það sem er athyglisvert við þessi bráðabirgðalög umfram flest önnur bráðabirgðalög sem sett hafa verið --- þau munu nú vera um 260 frá stofnun lýðveldisins og því ekki að ófyrirsynju að kvennalistakonur töldu mál til komið að sú grein í stjórnarskránni sem heimilar bráðabirgðalagasetningu yrði felld út, ekki

síst eins og tilhneigingin hefur verið hin síðari ár að setja sífellt bráðabirgðalög á gerða kjarasamninga með einum eða öðrum hætti --- er í rauninni það hvað þau taka til fámenns hóps. Bráðabirgðalög á einungis að setja ef það varðar þjóðarhag, ef það varðar stóra heild en ekki fámennan hóp eins og hér um ræðir og sem sérstaklega er tilgreindur í bráðabirgðalögunum.
    Nú er það svo að í desember nk. hafa þeir sem þessi lög ná yfir rétt til þess að taka samninga sína til endurskoðunar, fara fram á uppsögn þeirra ef það yrði niðurstaðan og í framhaldi af því að gera nýja samninga. Þennan rétt hafa allir sem þessi lög ná yfir nema BHMR. Ég vil spyrja bæði hæstv. forsrh. og fjmrh.: Hver er staða BHMR ef mál skipast þannig að allir aðrir gera nýja samninga og BHMR situr eitt eftir án þess réttar að geta tekið sinn samning upp eða gert nýjan samning?
    Þegar það lá í loftinu að til stæði að grípa til aðgerða gegn BHMR, eftir þann aðdraganda sem það átti sem raunar er allur með eindæmum, og það er einkennilegt ef ráðamenn þjóðarinnar hafa þá skoðun á samskiptum fólks yfirleitt að þau byggist á einhliða yfirlýsingum og telja það leið til þess að hafa góða samvinnu og halda frið í þjóðfélaginu að umgangast hvort sem það eru stéttarfélög eða einstaklingar á þann máta. Nægir að nefna bréf það sem ríkisstjórnin sendi BHMR 12. júní þar sem það er tilkynnt að ríkisstjórnin ætli ekki að standa við samninginn.
     Í verkfallinu langa 1989 í hvers kjölfar þessir kjarasamningar voru gerðir var einmitt hæstv. fjmrh. gagnrýndur mjög fyrir vinnubrögð sem kannski einkenndust af hroka og yfirgangi. Þetta bréf er einmitt í þeim sama anda, þ.e. að ekki er gerð nein tilraun til þess að ná sáttum. Það er ekki gerð nokkur tilraun til þess að athuga hvort BHMR sé til viðræðu um einhverjar breytingar sem báðir aðilar gætu sætt sig við heldur er einhliða tilkynnt að ríkisstjórnin ætli ekki að standa við samninginn og sú ákvörðun er tekin á grundvelli 1. gr. kjarasamnings BHMR um að standa skuli að umræddum breytingum með þeim hætti að ekki valdi röskun á hinu almenna launakerfi. Það var tilgreint sem höfuðástæða. Þegar síðan félagsdómur hafði fellt sinn úrskurð kvisaðist það fljótlega, og hafði reyndar gert fyrir niðurstöðu, að hugsanlega yrðu sett bráðabirgðalög á samninginn þvert ofan í dóminn. 24. júlí segir Ólafur Ragnar Grímsson í Dagblaðinu:
    ,,Það kemur ekki til greina að setja bráðabirgðalög á niðurstöðu dóms.`` Sama dag segir hann í sama blaði: ,,Það verður ekki farið út í neinar aðgerðir nema þær standist 100%. Það eru engar líkur á að ríkisstjórnin afnemi þá 4,5% hækkun sem félagsdómur hefur úrskurðað háskólamönnum. Slík aðgerð er einfaldlega of hæpin lögfræðilega. Það eru miklar líkur til þess að dómstólar mundu hnekkja henni við fyrsta tækifæri.``
    Síðan líða tíu dagar. 3. ágúst 1990 segir Ólafur Ragnar Grímsson í Morgunblaðinu: ,,Bráðabirgðalögin eru í þeirri mynd sem við viljum hafa þau. Almennur samningsréttur og lýðréttindi eru ekki skert með þessum lögum.`` Nú vil ég spyrja hæstv. fjmrh.: Hvað var það sem breytti skoðun hans frá 24. júlí þar sem hann talar svona afdráttarlaust og til 3. ágúst? Hvað var það sem hafði sannfært hann um það t.d. að þessi aðgerð, setning bráðabirgðalaga, væri ekki hæpin lögfræðilega og hvað hafði sannfært hann um það að dómstólar mundu ekki geta hnekkt þeirri niðurstöðu? Í stuttu máli: Hvað breyttist hjá hæstv. fjmrh. á þessum tíu dögum?
    Það er vert að staldra aðeins við það sem hæstv. forsrh. gerði hér að umræðuefni áðan, þ.e. að 4,5% hækkun til BHMR hefði ógnað þjóðarhag. Ég vil spyrja hæstv. forsrh. hvort einhvern tíma hafi verið gerð á því athugun hvað þessi umsamda hækkun til BHMR hefði haft í för með sér sem ógnaði svona þjóðarhag? Hvað var um háar upphæðir að ræða? Hvaða þjónusta hefði hækkað og velt því þannig út í verðlagið að af hlytist sú víxlverkun sem mundi setja verðbólguskrúfuna í gang eins og hann orðaði það í gær? Var þetta byggt á staðreyndum um hvað gerast mundi í verðlags - og verðþróunarmálum eða var þetta einungis skoðun?
    Það hefur verið nokkuð rætt í kjölfar þessa alls um þá öldu andúðar sem hefur í rauninni verið vakin gegn háskólamenntuðu fólki. Það er kaldranalegt að hámenntaður maður eins og hæstv. fjmrh. er skuli hafa verið þar fremstur í flokki og ýtt undir --- mér liggur við að segja menntamannahatur. Í því andrúmslofti sem nú ríkir er lítið sem hvetur börn eða unglinga til þess að leita sér menntunar, a.m.k. ekki á efnahagslegum forsendum. Nú ætla ég ekki að draga úr gildi menntunar því að auðvitað sækir fólk sér í menntun margt og mikið fleira en peninga, en það er nú einu sinni svo að flestir vilja reyna að sjá sér farborða og það verður erfitt með nokkrum rökum að hvetja unglinga heils hugar til þess að fara þá leið til þess að leita sér afkomu. En það er athyglisvert í þessu sambandi að það er ekki bara í afstöðu hæstv. fjmrh. til háskólamenntaðs fólks sem þessi andúð hans birtist. Sá hinn sami maður hefur líka gert aðför að Háskóla Íslands með einum eða öðrum hætti aftur og aftur. Það má minna á þegar hann vildi í fyrra geta ráðstafað tekjum Happdrættis Háskóla Íslands á þann máta sem honum þóknaðist, þ.e. að láta Háskólann fjármagna byggingu Þjóðarbókhlöðu. Hann hefur haft uppi svipaðar hugmyndir í ár um að Háskólinn fjármagni viðgerðir á Þjóðminjasafni og eins hefur hann viðrað hugmyndir um að taka upp skólagjöld í Háskóla Íslands. Hvað af þessari andúð, sem vakin hefur verið eða a.m.k. reynt hefur verið að vekja á háskólamenntuðu fólki eða menntun yfirleitt, leiðir er ekki gott að segja en ásamt því tilræði sem bráðabirgðalögin eru við lýðræði og mannréttindi í þessu þjóðfélagi kunna líka að vera alvarlegar afleiðingar sem ekki koma í ljós alveg strax, þ.e. í fyrsta lagi það að þetta geti hugsanlega fælt fólk frá þekkingaröflun sem okkur er svo nauðsynleg í dag og hins vegar að af þessu leiði þekkingarflótta.
    Hæstv. forsrh. lét svo ummælt í stefnuræðu sinni

í gærkvöldi að nútímalífskjör byggðust á þekkingu. Hann er vissulega ekki einn um þá skoðun en ég veit ekki hvort margir deila þeirri skoðun með honum að til þess að nútímalífskjör haldist og byggist á þekkingu sé nauðsynlegt að halda niðri launum þess fólks sem þau eiga þessu samkvæmt að hvíla á.
    Hann lýsti einnig yfir ótta vegna þekkingarflótta sem hann sagði að væri þegar hafinn og sem kann að hafa langtímaafleiðingar, miklu alvarlegri en okkur kannski órar fyrir núna.
Það er vert að spyrja hvers vegna ekki var þá strax þegar þjóðarsáttin var gerð í febrúar tekið til við umræður við BHMR um hvort hugsanlegt væri að ná fram einhverjum breytingum sem báðir aðilar gætu sætt sig við. Ég vil biðja annan hvorn ráðherrann að svara því hvers vegna það var ekki gert.
    Það var auðvitað greinilegt í þjóðarsáttinni að þar hafði komið fram mjög sterkur vilji bæði ASÍ og BSRB um það að engir fengju hækkun umfram þá sem fælist í þjóðarsáttinni. Það verður að teljast furðulegt að stéttarfélög skuli með þessum hætti reyna að grípa inn í samninga sem önnur stéttarfélög hafa gert. Spurning er hvers vegna ríkisstjórn tekur þessi rök gild. Var það höfuðorsök fyrir viðbrögðum þeirra við BHMR að sú krafa kom frá ASÍ og BSRB að aðrir fengju ekki meira en þeir og þá í framhaldi af því hvort þeir telji eðlilegt að stéttarfélög geti gripið inn í samninga annarra félaga með þessum hætti, með ákvæðum í eigin samningum t.d.
    Hér var fyrir nokkru haldið þing alþjóðasambands kennara sem ályktaði um bráðabirgðalögin. Ég hef ekki þýðingu á þessari ályktun sem er á ensku og þar sem þetta er nú formlegt plagg ætla ég ekki að leggja út í það að þýða það hér í ræðustól en vil bara benda á að hér er eindregið lýst yfir stuðningi við BHMR og kennarafélögin.
    Það liggur líka fyrir að BHMR mun leggja mál sín fyrir Alþjóðavinnumálastofnunina, ILO.
    Nú hafa íslenskir ráðamenn verið margir hverjir ötulir við það á erlendum vettvangi að gera sig gildandi sem boðbera lýðræðis og frelsis og nægir m.a. að minna á þau ummæli sem ég hafði hér eftir hæstv. ráðherra Svavari Gestssyni áðan. Við höfum gjarnan viljað gefa þá mynd af Íslandi að hér ríkti fyrirmyndarþjóðfélag með fyrirmyndarlýðræði. Nú verður fróðlegt að vita hvernig þessir sömu menn ætla að svara fyrir lýðræðið á Íslandi ef það verður hlutskipti íslenskra stéttarfélaga að þurfa að leita réttar síns í útlöndum og ef í ljós kemur að setning þessara bráðabirgðalaga brjóti ef til vill í bága við marga erlenda samninga sem íslenska lýðveldið á aðild að og hefur skrifað undir. Það kann að vefjast fyrir þeim að leika sama lýðræðishlutverkið á erlendri grund og þeir hafa gert hingað til.
    Saga þess félags sem hér um ræðir, BHMR, er í rauninni alveg með eindæmum, þ.e. saga samskipta þess við ríkisvaldið. BHMR - félögin fengu samnings- og verkfallsrétt 1. jan. 1987. Það er skemmst frá því að segja að það hefur varla ríkt friður um þeirra samninga síðan. Tæplega helming þess tíma hafa

samningar þeirra verið í gildi og í friði. Samningar hafa verið runnir út, lausir, í yfir 100 daga án þess að nýir samningar lægju. Verkföll ýmissa BHMR-félaga hafa staðið í 88 daga og samningar ónýttir með bráðabirgðalögum í 669 daga, þ.e. 40% af öllu því tímabili sem BHMR hefur haft samningsrétt. Þessar staðreyndir tala sínu máli og hljóta að vekja þá spurningu hvort það sé yfirleitt til nokkurs að gera samninga við ríkisvaldið eða hver sé yfirleitt staða þeirra sem þangað þurfa að sækja með samninga. Hvernig eiga næstu samningar við ríkisvaldið að fara fram? Hvernig verður hægt að tryggja að það verði ekki bara jafnóðum sett bráðabirgðalög eða einhvers konar lög eða með öðrum aðgerðum reynt að ómerkja þessa samninga eða breyta þeim með einum eða öðrum hætti?
    Það væri fróðlegt að heyra skoðanir ráðherranna á því hvernig þeir hafa hugsað sér að bæta ekki bara fyrir misgjörðir sínar heldur bæta samskipti sín við stéttarfélög. Hvernig þeir hafa hugsað sér að öðlast aftur traust þeirra stéttarfélaga hverra meðlimir vinna hjá ríkinu, eða hvort þeim finnst það ástand sem nú ríkir vera viðunandi.
    Það er líka umhugsunarvert hvort sú ríkisstjórn félagshyggju og jafnréttis sem nú situr er ekki öllum öðrum fremur að stuðla að einkavæðingu allrar þjónustu. Það hlýtur að vakna sú spurning til hvaða ráða fólk grípi þegar það getur ekki sótt sinn rétt til ríkisvaldsins og sótt sér þangað þau kjör sem sambærileg eru við markaðinn. Eflaust hljóta margir að horfa til þess möguleika að reyna að nýta menntun sína og reynslu á einkamarkaði en ekki í þjónustu hins opinbera. Framkoma ríkisvaldsins hefur í rauninni ýtt meira en nokkuð annað undir það að slíkt kynni að gerast.
    Steingrímur Hermannsson sagði hér áðan að óþarfi hefði verið að kalla saman Alþingi. Það eru aldeilis kveðjurnar sem Alþingi Íslendinga fær. Hann fullyrti að meiri hluti væri fyrir setningu þessara laga. Nú efast ég ekki um að ráðherrar hafi allir haft samband við sína þingmenn þannig að forsrh. fari þar með rétt mál. En nú er það einu sinni svo að Alþingi er ekki bara saman sett af meiri hluta, þar er líka minni hluti, þar er líka stjórnarandstaða og hún á sama rétt og þeir sem mynda meiri hluta hverju sinni til þess að fá mál til umfjöllunar. Það er furðulegt ef meiri hluti getur gefið sér það fyrir fram að þeir hafi svo rétt fyrir sér og þeim skeiki hvergi þannig að það sé óþarfi að kalla aðra til. Er það algjörlega útilokað að stjórnarandstaða kunni að geta bent á eitthvað það sem betur mætti fara? Er það algjörlega útilokað að eitthvað það kæmi fram í nefndarstörfum sem kynni að breyta ákvörðuninni? Ég hélt að til þess væru störf Alþingis að fjalla um mál áður en teknar eru ákvarðanir en ekki að það verði ákveðið fyrir fram að ákvarðanir séu réttar og því óþarfi að fjalla um þær.
    Það hefur vissulega oft hvarflað að manni hér að hið eina rétta væri eftir að búið er að kjósa og mynda meiri hluta að senda þingið heim. Því að svo frekt er framkvæmdarvaldið til fjörsins að það heyrir til undantekninga að lagafrv. sem frá ráðherrum koma taki

breytingum hér á Alþingi. Oft gerist það hér að stórum málum, kannski stærstu málum hvers þings, er rutt hér í gegnum þingið með slíku offorsi að varla gefst nokkur tími til umfjöllunar. Í því felst auðvitað ekkert annað en yfirlýsing um það að umfjöllun þingsins sé einskis virði. Þetta sé eins og hvert annað leiðindaverk að þurfa að bera pappírana ofan úr ráðuneytum hingað niður í þing til þess að fá þá stimplaða til þess að geta farið með þá upp í ráðuneyti aftur og hrint í framkvæmd.
    Þegar svona er málum komið fer maður nú að efast um á hverju þetta lýðræðis- og þingræðisþjóðfélag okkar byggir. Þegar mönnum finnst óþarfi að leita til þings þá náttúrlega segir sig sjálft að það er miklu þægilegra að nota þá aðferð að setja sem flest lög þegar þing situr ekki. Þá geta þeir sparað sér þessi spor hérna niður eftir og þurfa ekkert að vera að hlusta á það sem engu máli skiptir líklega, það sem stjórnarandstaðan segir. Þeir þurfa ekki að gefa tíma til þess að nefndir þingsins fjalli um málið. Þeir geta bara hagað hlutum eftir eigin geðþótta. Það kann að vera ein orsökin fyrir því hvað bráðabirgðalög eru títt notuð hér á landi að það sé almenn skoðun að óþarfi sé að kalla þing saman.
    Steingrímur Hermannsson sagði líka að þjóðinni væri mikilvægast af öllu nú að ná tökum á efnahagsmálum og það átti að vera réttlæting fyrir setningu þessara bráðabirgðalaga. Ég sagði hér í umræðum um stefnuræðu forsrh. í gær, og það hafa auðvitað fleiri sagt, að setning þessara bráðabirgðalaga snúist ekki um krónur heldur grundvöll lýðræðis og mannréttinda. Spurning er hvort þjóðinni sé mikilvægara að ná tökum á efnahagsmálum eða að halda í heiðri stjórnarskrá, lýðræði og mannréttindi, auk þess sem ég leyfi mér nú að efast um að sú umsamda hækkun, sem átti að koma til framkvæmda 1. júlí 1990, hefði kollvarpað öllum áformum ríkisstjórnarinnar um að ná tökum á efnahagsmálum. En þetta vekur líka þá spurningu: Hver er staða einstaklingsins í þjóðfélaginu? Það er nefnilega líka mikilvægt fyrir einstaklinginn að ná tökum á sínum efnahagsmálum, efnahagsmálum heimila, efnahagsmálum fjölskyldna. Það hefur fólk á Íslandi neyðst til þess að gera meira og meira með aukinni vinnu, með ófyrirsjáanlegum og ómælanlegum afleiðingum bæði fyrir fullorðna og börn. En nú vitum við það, ef við höfum ekki vitað það áður, hvað íslensku þjóðinni er mikilvægast: Henni er mikilvægast af öllu að ná tökum á efnahagsmálum. En í framhaldi af því hlýtur maður að spyrja: Er einstaklingurinn til fyrir þjóðfélagið og kerfið eða er þjóðfélagið og kerfið til fyrir einstaklinginn og til þess að þjóna honum? Nú er auðvitað ekki hægt að skilja þetta tvennt að, en hæstv. forsrh. hikaði ekki við að gera það og tíunda hvað er mikilvægast. Í hans augum er sem sagt kerfið miklu mikilvægara en einstaklingurinn.
    Forsrh. svaraði þeirri spurningu hvort hér væri ástæða til að koma á stjórnarskrárdómstóli á þann veg að hann teldi ekki ástæðu til þess. Hann treysti almennum dómstólum til að fjalla um stjórnarskrána. Hann treystir sem sagt almennum dómstólum til að

fjalla um stjórnarskrá Íslendinga en hann treystir ekki dómstólum til að fjalla um kjarasamninga. Það virðist því vera undir geðþótta komið, geðþótta annaðhvort einstakra ráðherra eða geðþótta hverrar ríkisstjórnar hvort og hvenær þær treysta dómstólum. Og ég vil spyrja hæstv. forsrh. hvort hann telji það virkilega vera í sínum verkahring að ákveða hvenær hann treystir dómstólum og hvenær ekki. Og ef svo er hvað er þá orðið um þrískiptingu valdsins?
    Að síðustu vil ég láta í ljósi þá von að þetta mál fari fljótt og vel til nefndar og komi þaðan skjótt aftur til þess að Alþingi Íslendinga gefist kostur á að greiða atkvæði um þessi lög. Þrátt fyrir fullyrðingu forsrh. um meiri hluta vil ég minna á 48. gr. stjórnarskrárinnar þar sem kveðið er á um að hver þingmaður fylgi aðeins eigin sannfæringu. Ég trúi því ekki að óreyndu að það sé í raun sannfæring meiri hluta þingmanna á Alþingi Íslendinga að það sé í lagi að svipta fólk lýðréttindum og mannréttindum með bráðabirgðalögum af þessu tagi.