Launamál
Þriðjudaginn 23. október 1990


     Ragnhildur Helgadóttir :
    Herra forseti. Það voru tiltekin ummæli í ræðu hæstv. forsrh. sem urðu til þess að ég bað um orðið um þetta mál. Vissulega féllu mörg orð í ræðu hæstv. ráðherra sem voru þess eðlis að manni hnykkti við, en eitt var þó sýnu verst, og það var þetta: Ég sé ekki mikinn mun á því þegar fundið er út að meiri hluti þingmanna standi með bráðabirgðalögum og svo hinu að lög séu sett á Alþingi. Þessi yfirlýsing er svo alvarleg í lýðræðis- og þingræðisríki að ég tel sérstaka ástæðu til þess að vekja á henni athygli. Þessi yfirlýsing lýsir miklu meiru í fari hæstv. ríkisstjórnar en aðeins því sem kemur fram í þessu frv. og er það þó ærið. Þessi yfirlýsing felur í sér afstöðu sem hefur í mörgum ríkjum reynst mjög hættuleg og haft í för með sér margra ára ofstjórn. Það má e.t.v. segja að það kunni að vera afar meinlaust að hæstv. forsrh., forsrh. í lýðræðis- og þingræðisríki, í því ríki sem meira að segja telur sig móðurríki lýðræðis og þingræðis í Evrópu, með allri virðingu fyrir Grikkjum og því gamla lýðræði sem þar ríkti, þá er það svo að heyra slíkt af vörum íslensks forsrh., á þeim tímum sem hver þjóðin í Evrópu af annarri fórnar miklu til þess að öðlast frelsi og aukin áhrif á stjórn síns ríkis. Þetta er ekki einungis tímaskekkja heldur alvarlegur siðferðisbrestur. Og ekki einungis alvarlegur siðferðisbrestur heldur lýsir svo fullkominni foragt á Alþingi og hlutverki þess að forsrh. sem lætur sér slíkt um munn fara ætti sem fyrst að biðjast lausnar. Það má furðu gegna að ríkisstjórn undir slíku forsæti njóti meirihlutastuðnings Alþingis. Lítil þykja mér geð guma að láta slíkt yfir sig ganga án þess að segja nokkurn skapaðan hlut við því. Hefur þessa þó orðið vart í gerðum hæstv. ríkisstjórnar þótt ekki hafi það verið sagt með svo berum hætti fyrr en í dag.
    Það má auðvitað segja að það væri þá kannski það næsta sem búast mætti við að ríkisstjórnin stæði að því að breyta lögum um samkomudag Alþingis þannig að það væri nú ekkert verið að koma saman 10. okt. heldur eins seint og verða má eftir stjórnarskránni, því ætla verður að hæstv. ríkisstjórn reyni að halda stjórnarskrána í heiðri í lengstu lög. Yfirlýsing hæstv. ráðherra hefði getað verið uppi höfð á dögum Estrups en hún á ekki heima á Alþingi 1990.
    Herra forseti. Það er þrennt sem er alvarlegast við það frv. sem við höfum hér fyrir framan okkur og aðdragandann að því. Og það er þrennt sem líka sýnir að hæstv. ríkisstjórn hefur gerst ber að broti, alvarlegu broti á sviði siðferðis gagnvart almenningi. Það er brot gegn almenningi sem felst í því að samið er við hluta þess sama almennings með þeirri vitund að ekki sé ætlunin að standa við samninginn. Það er fyrsta atriðið sem er ljóst að er alvarlegra en svo að unnt sé að taka því. Eða getur það hugsanlega verið að einhverjir forustumenn í viðkomandi launþegasamtökum, eða öðrum launþegasamtökum, hafi gert sér ljóst að ríkisstjórnin ætlaði ekki að standa við þennan samning? Það kemur enn í ljós af orðum hæstv. forsrh. hér áðan að sjálf ríkisstjórnin virðist, ef dæma

má eftir yfirlýsingum hæstv. ráðherra á sínum tíma, hafa lagt mismunandi skilning í hið óræða ákvæði, sem var með einum hætti 3. maí, öðrum hætti fyrir hádegi 14. maí og endanlegum hætti eftir hádegi 14. maí, í það ákvæði sem taka átti mið af jafnvægi á launamarkaði og almennri stöðu efnahagsmála.
    Hæstv. ráðherra upplýsti það áðan, og það er reyndar ekki ný frétt, að það hafi þá þegar verið ljóst hvað í þessu fólst. Samkvæmt fyrri yfirlýsingum hæstv. fjmrh., sem var auðvitað samningsaðilinn af hálfu ríkisins, kvað hann það auðvitað ætlunina að standa við þennan samning að fullu, það voru hans svör þegar efasemdir voru uppi hafðar. Og eins og hv. 2. þm. Reykv. vitnaði til áðan þá voru yfirlýsingar hans nú í júlí aðrar fyrri hluta mánaðarins heldur en svo gerðir hans nokkrum dögum seinna. Með öðrum orðum, það er algjörlega ljóst að fólk getur ekki treyst samningi við sjálfa ríkisstjórnina. Hvaða áhrif hefur slík gjörð á almennt viðskiptasiðferði í landinu ef ríkisstjórnin, sem ætti að hafa tryggasta stöðuna á bak við sig, gerir samninga sem hún í fyrsta lagi ætlar ekki að standa við og í öðru lagi afnemur með lögum samkvæmt rökum sem ekki eru á því sviði sem sérstaklega hafa verið til umræðu við þann hóp sem samið var við heldur koma til umræðu í viðræðum við allt annan hóp? Hvers vegna var þá ekki samið við þann hóp?
    Það má e.t.v. segja, eins og jafnvel hefur stundum flogið fyrir, að félagsmenn í félögum BHMR séu fólk sem búið sé að hlaða undir á einu skeiði ævinnar með því að veita því meiri og minni ókeypis menntun eða þá lán til framfærslu meðan á námi stendur og auk þess hafi það svo fengið sína menntun og hvers vegna skyldi það þá vera með þær launakröfur sem um er að ræða. Þessu bregður fyrir, en ég vil ekki trúa því að sú sé skoðun hæstv. ríkisstjórnar að hér sé um að ræða hóp sem ekki þurfi að gera vel við í þeim samningum þannig að sambærilegt sé við önnur ríki þar sem hinir sömu starfsmenn gætu allt eins unnið að sínum greinum, ég vil ekki trúa því að sú sé reyndin en ætla mætti að svo sé. Það er auðvitað ljóst að sá samningur sem hér er verið að ræða um og gerður var við félaga BHMR var auðvitað undirstaða ýmiss konar áætlana margra fjölskyldna í landinu. Í einu vetfangi kippti ríkisstjórnin fótunum undan þeim áætlunum. Við erum að ræða um fólk sem ekki hefur safnað sjóðum á meðan það var við nám, við erum að ræða um fólk sem hafði mjög takmarkaða afkomumöguleika á meðan það var við nám og stundum og oft á tíðum árum saman erlendis og kemur heim til fósturjarðarinnar til starfa, á eftir að koma upp húsnæði yfir sig og sína. Það má nærri geta hvernig staða þessa fólks er þegar horft er framan í viðbrögð ríkisins og aðalviðsemjenda af þessu tagi, því það þarf auðvitað ekki að taka fram að flest af þessu fólki er við störf hjá hinu opinbera.
    Það er ekki lengra síðan en í gærkvöldi að hæstv. forsrh. lauk ræðu sinni á að tala um mikilvægi þekkingarinnar í landinu og að koma yrði í veg fyrir fólksflótta af því tagi sem stundum er nefndur atgervisflótti. Á sama tíma er komið fram með þessum hætti gagnvart þessum hópi fólks. En ég undirstrika að það er í raun og veru ekki það sem er aðalatriðið. Aðalatriðið er ekki hvaða hópur á í hlut heldur almennt að hver sá sem semur við ríkisvaldið geti treyst því að við það sé staðið sem samið er um og það sé ljóst um hvað samið er. Að ekki sé samið með svo sviksemislegu orðalagi að hæstv. ríkisstjórn geti túlkað það sér í vil og viðsemjandinn túlki það með öðrum hætti sínum félagsmönnum í vil. Eins og hv. alþm. muna fylgdu yfirlýsingar af hálfu hæstv. fjmrh. um að vitanlega yrði við þetta staðið og þær ítrekaði hann nú í sumar en brugðust svo herfilega sem raun ber vitni.
    Þetta er fyrsta alvarlega atriðið, að samningar ríkisins sjálfs við sína eigin starfsmenn standa ekki og þeir hinir sömu ráðherrar sem sömdu standa að því að afnema sína eigin gjörð með lögum, bráðabirgðalögum.
    Í öðru lagi er bresturinn fólginn í því að það er ekki einungis að Alþingi sé sýnd fullkomin foragt eins og fram kom í máli hæstv. forsrh. hér áðan, heldur og dómstólum. Ekki er fyrr fallinn dómur félagsdóms, sem kemst að annarri niðurstöðu en ríkisstjórninni var þóknanleg, en því er lýst yfir að félagsdómur hafi nú farið út fyrir verksvið sitt, hann eigi ekki að fjalla um efnahagsmál, hann svífi í efnahagslegu tómarúmi og fleira af þessu tagi hraut af vörum hæstv. fjmrh. Ef dómstóll getur ekki tekið mið af forsendum sem byggjast á viðhorfum almennrar skynsemi til efnahagslegra stærða, þ.e. til launamála í þjóðfélaginu, þá sé ég ekki að ríkisstjórnin trúi dómstólum yfirleitt til nokkurs hlutar sem yrði öðruvísi en ríkisstjórnin sjálf gefur forskrift um. Svo augljóst er það. Enda er það fremur spaugilegt þegar hæstv. forsrh. gefur svo hvað eftir annað yfirlýsingu um að vissulega hafi dómnum ekki verið breytt heldur forsendum hans. Ég veit frá löngu liðinni tíð og enn í dag að hæstv. forsrh. er íþróttamaður góður en mér þykja þurfa að koma til töluvert miklir loftfimleikar í hugsuninni til þess að hægt sé að ná því einhvern veginn að það sé hægt að breyta forsendum sem voru til staðar á tilteknum tíma þegar dómur er upp kveðinn. Engin lög eða nein aðgerð getur breytt forsendum eftir á. Það er einhver brotalöm í rökhugsuninni í þessu frá mínu sjónarmiði séð. Ég hef reynt að skilja hvað forsrh. meinti, það hefur nú stundum verið svo að við sjálfstæðismenn höfum með einhverjum hætti getað skilið a.m.k. hvað það er sem þeir vilja meina, en ég segi það satt að mér er ekki nokkur lifandi leið að skilja þetta.
    Það er ljóst að sú niðurstaða sem félagsdómur komst að var að engu höfð og til þess að festa í sessi þá algjöru vanvirðingu á niðurstöðu félagsdóms sem var í huga ríkisstjórnarinnar voru bráðabirgðalögin sett. Það má kalla það hvað sem er en hvað sem það er kallað þá er þetta að breytt er niðurstöðunni með bráðabirgðalögum. Og það er það sem verst er. Vissulega hefur það vafalaust hundrað sinnum gerst í sögu
Alþingis að dómur félli með einhverjum hætti og við það komist Alþingi að þeirri niðurstöðu að tiltekin lög séu gölluð og þeim þurfi að breyta því að dómurinn

fellur ekki öðruvísi en í samræmi við lögin. Í þessu tilfelli þurfti að fella dóminn í samræmi við samninginn líka. Og hann var svona. Engin gerð breytti því hvernig samningurinn var þá. Svo einfalt er það. Því er það að annað brotið felst í fullkominni fyrirlitningu ríkisstjórnarinnar á félagsdómi og gerðum hans sem er afar alvarlegur hlutur vegna þess hve marga borgara og fjölskyldur í landinu sú stofnun snertir og hvílíkt öryggi í því felst fyrir allan vinnumarkaðinn að störf þeirrar stofnunar séu virt.
    Síðan var það þriðja brotið sem var svo augljóst og aldrei hefur verið lýst með skýrari hætti en með orðum hæstv. forsrh. sjálfs nú áðan þegar hann lýsti því, eftir að hafa gert grein fyrir því að hann teldi að nauðsynin til setningar bráðabirgðalaga hefði aldrei verið jafnbrýn. Það var hans álit. Ég efast um að það sé í raun og veru álit nokkurs nema hans og kannski hæstv. fjmrh. og af hollustu við þá hafi síðan stjórnarflokkarnir fylgt því. Eigi skal ég dæma um það né heldur hef ég haft tækifæri til að kynna mér afstöðu einstakra þingmanna og hvaða rök liggi til hennar í því sambandi. Þegar hæstv. forsrh. hafði gert grein fyrir því að hann teldi nauðsynina svo brýna að afnema gerð hæstv. fjmrh. þá skýtur hann því skjólshúsi yfir hæstv. fjmrh. að segja að það sé algerlega óþarft að bera slíkt mál sérstaklega undir Alþingi því fylgi hafi verið kannað í þingflokkum stjórnarinnar og það hafi virst vera fyrir hendi. Þess vegna sagði svo hæstv. forsrh. að hann sæi nú ekki ósköp mikinn mun á því hvort gengið væri frá þessu með bráðabirgðalögum að lokinni þess konar athugun, og svo hins að setja lög á Alþingi.
    Ég hygg, herra forseti, að á langri þingævi hafi ég aldrei fyrr eða síðar heyrt önnur eins ummæli af hálfu forsrh. Og ég bið um það að hæstv. forsrh. endurskoði þessi ummæli sín og taki þau til baka. Þótt ég sé ekki stuðningsmaður hæstv. ríkisstjórnar þá er þetta svo alvarlegt gagnvart almenningi í landinu og stjórnskipan landsins að hvort við erum fylgismenn ríkisstjórnarinnar eða stjórnarandstæðingar þá eigum við ekki að líða slík ummæli af hálfu forsrh. Ég sé á blíðusvipnum á andliti hæstv. forsrh. að hann ætlar nú að gera þetta fyrir okkur og segja að sér hafi orðið mismæli, enda er ég hrædd um að hæstv. fjmrh. hafi einhvern veginn platað hann til þess að segja þetta.
    Auðvitað var ég í hópi þeirra þingmanna sem undruðust mjög að hæstv. forsrh. skyldi virkilega fara að mæla fyrir þessu frv. í fjarveru hæstv. fjmrh., í lögmætri fjarveru hæstv. fjmrh. Það gegndi nokkurri furðu og ég vil ætla að það hafi nú reyndar verið tilviljun að það kom fram í ræðu hæstv. forsrh. að hann hefði haft þann skilning á þessu umdeilda ákvæði í margumræddum samningi við BHMR sem leiddi til setningar bráðabirgðalaganna, þ.e. að það væri ljóst að nokkrar aðrar breytingar mundu raska grundvellinum undir þessu öllu saman. Ég skil það svo að hæstv. forsrh. hafi verið það ljóst frá upphafi að það yrði ekki staðið við þennan samning ef einhver önnur samtök hreyfðu sig á hinum frjálsa vinnumarkaði. Hins vegar hefur fjmrh. lýst því margsinnis yfir, a.m.k. á

fyrri tíð, að hann mundi standa við samninginn. Ég get ekki dregið aðra ályktun en þá að það hljóti að vera vegna þess að hæstv. fjmrh. hafi skilið hann öðruvísi en hæstv. forsrh. Ef maður reynir að horfa á þessi orð þessara pólitísku andstæðinga sinna með nokkrum velvilja, þá hlýtur maður að álykta að sú hafi verið raunin, að þeir hafi alls ekki skilið þetta með sama hætti. Það er auðvitað mjög erfitt að halda saman ríkisstjórn sem skilur afstöðu til stærstu grundvallarmála með mismunandi hætti, það er rétt. Og þess vegna er það ekki að ófyrirsynju sem ég las í tímariti nokkru nú fyrir skömmu, sem gefið er út af norrænum félagasamtökum, ekki á vegum ríkisstjórna eða þingmanna, að hæstv. forsrh. ætti mikið lof skilið fyrir að geta haldið saman þessum ólíku öflum hvað sem á dyndi og hvernig sem í odda skærist. Því er það að niðurstaða mín af öllum þessum hugleiðingum, sem þó hafa ekki verið nema um algerar útlínur, getur ekki orðið önnur en sú að hin brýna nauðsyn, sem hæstv. forsrh. sagði að aldrei hefði verið brýnni, til að setja bráðabirgðalög eins og þessi nú í sumar var einmitt ein af þessum aðgerðum til að halda saman þessari ríkisstjórn ólíkra afla. Ríkisstjórn sem hefur misst tiltrú almennings í landinu, sem sýnir dómstólum óvirðingu og Alþingi óvirðingu með þeim hætti sem gert hefur verið í þessu máli, að sú nauðsyn hafi verið brýnni en að orð væru haldin, að niðurstaða félagsdóms væri virt og að leitað væri til Alþingis með þeim hætti sem vera bar.
    Ég vil að lokum, herra forseti, segja það að það er mitt álit og ég held allra minna flokkssystkina, ef ekki stjórnarandstöðunnar allrar, að ég hef ekki orðið vör við annað en það álit að við teljum að sú nauðsyn sé brýnust í íslenskum stjórnmálum í dag að þessi hæstv. ríkisstjórn beiðist lausnar sem fyrst og taki til við önnur störf.