Launamál
Þriðjudaginn 23. október 1990


     Friðrik Sophusson :
     Herra forseti. Það er ekki hægt að ljúka þessari umræðu eins og hún stendur nú. Hæstv. ráðherrar hafa reyndar komið hér í ræðustól og reynt að svara þeim fyrirspurnum sem til þeirra hefur verið beint en eftir stendur það margt að full ástæða er til þess að þeir komi aftur í ræðustólinn og geri skýrari grein fyrir því sem gerst hefur og fyrir skoðunum sínum.
    Ef ég hef tekið rétt eftir þá fer þetta mál til hv. fjh.- og viðskn. þannig að sá sem hér stendur fær tækifæri til að vinna að málinu í nefnd en áður en þetta frv. fer til nefndar er ástæða til þess að fá skýr svör við nokkrum spurningum og þá einnig sumum sem þegar hafa komið fram við þessa umræðu.
    Mig langar í fyrsta lagi, herra forseti, til þess að minna á að ítrekað var bent á það fyrst í kjarasamningunum sem gerðir voru á almenna vinnumarkaðinum og eins í framhaldi af þeim að líklega þyrfti lagasetningu ef ekki næðist samkomulag við BHMR um breytingu á fyrirliggjandi kjarasamningum. Margoft kom fram sá skilningur hæstv. ríkisstjórnar, sem hér hefur verið endurtekinn, að fyrsta greinin héldi, eins og það er nú svo smekklega orðað, eða með öðrum orðum og kannski mennilegri að ekki þyrftu menn á því að halda að beita löggjafarvaldinu. Ég minni á að á þessum tíma sat Alþingi og mjög hægt um vik fyrir hæstv. ríkisstjórn að koma með frv. á Alþingi ef hæstv. ríkisstjórn hefði kært sig um að nota löggjafarvaldið. En ég man það glöggt að hæstv. ráðherrar sögðu að sérfræðingar ríkisstjórnarinnar væru á því máli að þess þyrfti ekki og að ef málið færi til félagsdóms yrði niðurstaðan hæstv. ríkisstjórn í vil. Það kom aldeilis annað á daginn og meira að segja fulltrúi hæstv. ríkisstjórnar í dómnum komst að sömu niðurstöðu og allir aðrir því að sú niðurstaða lá á borðinu. Af þessari ástæðu er það óhjákvæmilegt, hæstv. forseti, að hæstv. ráðherrar svari því skýrt hér við 1. umr.: Hvaða sérfræðingar voru kallaðir til? Var það ríkislögmaður sem gaf þessi ráð? Eru það hans orð að ekki hafi þurft að breyta lögum? Ég tel að það sé ekki hægt að ljúka þessari umræðu hér án þess að fá úr því skorið til hvaða sérfræðinga hæstv. ríkisstjórn leitaði. Það er ekki stórmannlegt að víkja sér á bak við einhverja ónefnda sérfræðinga. Það er skylda hæstv. ráðherra að segja frá því til hvaða sérfræðinga var leitað, a.m.k. til þess að hreinsa mannorð þeirra manna sem stundum hafa verið nefndir í þessu sambandi og þá á ég ekki síst við ríkislögmann. Ég vil fá að vita það hér hvort leitað var til ríkislögmanns. Ég vil fá að vita --- og það eru fleiri sem biðja um það --- hvaða sérfræðinga hæstv. ríkisstjórn var að tala um.
    Ég þykist nefnilega vita, og hef nokkuð fyrir mér í því, að ekki hafi verið leitað til þeirra sérfræðinga sem kallast sérfræðingar í þessum málum. Og ég þykist vita meira og vil gjarnan að það heyrist sem víðast: Ég held að helstu sérfræðingarnir í sjálfu fjmrn. hafi varað við því að þetta mál lenti hjá félagsdómi. (Gripið fram í.) Ég vil að hæstv. ráðherra komi þá hér

í ræðustól fyrst hann vill kalla hér fram í og segi það skýrt og skorinort við okkur til hvaða sérfræðinga var leitað. Og ég endurtek að ég spyr vegna þess að ég hef rökstuddan grun um það að í fórum hæstv. ráðherra séu minnisblöð um allt annað en það sem hann hefur sagt. Þá vil ég að hæstv. ráðherra komi hér í ræðustól og staðfesti annað því það er ekki hægt að birta það í þingtíðindum hvernig hann hristir á sér glókollinn.
    Í öðru lagi finnst mér að það hefði verið viðeigandi að þessi umræða færi fram að viðstöddum hæstv. sjútvrh. sem á ákveðnu viðkvæmu augnabliki var starfandi forsrh. í landinu. Ég rifja það upp að þegar dómsniðurstaðan lá fyrir var hæstv. forsrh. ekki á landinu en starfandi forsrh. var hæstv. sjútvrh. Og í fréttatíma Ríkisútvarpsins sagði hann mjög skýrt, eins og ég hygg að komið hafi fram hér í umræðunni, að það kæmi ekki til greina að beita lögum gegn dómsniðurstöðunni. Það kæmi ekki til greina. Ef hæstv. ráðherra er ekki viðlátinn tel ég eðlilegt, þótt það sé nokkuð óvenjulegt, að hv. nefnd kalli hæstv. ráðherra fyrir og spyrji hann hvað hafi breyst. Þetta mál er svo stórt og það verður að taka mark á viðkomandi hæstv. ráðherra sem þá stundina var staðgengill hæstv. forsrh. Þetta mál breyttist nefnilega svo mikið í meðförum hæstv. ríkisstjórnar eftir að hæstv. forsrh. kom heim að Alþingi hlýtur að krefjast svars um hvernig á þeirri hugarfarsbreytingu stóð. Því skýr ummæli komu fram hjá hæstv. sjútvrh. um það að ekki yrði gripið til bráðabirgðalöggjafarvaldsins til þess að breyta dómsniðurstöðunni. Ég ætla ekki hér að fara út í umræður um það hvort hægt sé að breyta forsendum með lögum. Mér finnst það fyrir neðan virðingu mína að taka þátt í slíkum umræðum því auðvitað gera menn það ekki. Forsendur er það sem liggur fyrir og dómurinn byggist á og voru til staðar áður en dómurinn féll. Allt annað sem síðar kemur getur aldrei orðið forsenda fyrir dómi sem fellur á ákveðnu tilteknu augnabliki. Ég get ekki, hvorki lögfræðinnar vegna né af öðrum ástæðum, tekið þátt í slíkum umræðum.
    Í þriðja lagi hefur hæstv. forsrh. sagt, og reyndar að ég hygg oftar en einu sinni, að þetta sé nú út af fyrir sig allt í lagi fyrir BHMR vegna þess að það sé hægt að leiðrétta þetta þegar þjóðarsáttin tekur enda. Ef ég skil þetta rétt, þá hefur hæstv. ráðherra það í huga að láta þjóðarsáttina taka enda, hún sé bara tímabundin og það er út af fyrir sig merkilegt að það skuli vera upplýst. En þegar þetta er sagt og þessari ákvörðun er ýtt yfir á borð næstu ríkisstjórnar þá spyr maður sig: Hvað breytist þá? Hvers vegna framkallast þá ekki þessi víxlverkun sem alltaf er verið að tala um? Hvernig getur hæstv. forsrh. komið í veg fyrir víxlverkunina í tíð næstu ríkisstjórnar fyrst hann gat ekki gert það í tíð þessarar ríkisstjórnar sem hann er þó forsrh. í? Hvernig í ósköpunum ætlar hæstv. ráðherra að láta þetta gerast? Þetta hlýtur reyndar að leiða hugann að því sem hér hefur komið fram í umræðunni hjá fleirum en einum hv. ræðumanni, þ.e. hvernig var þetta hugsað í upphafi þegar þessir samningar voru gerðir við Bandalag háskólamenntaðra manna í þjónustu ríkisins? Trúði hæstv. ríkisstjórn þá og taldi hún sig geta tryggt það að ekki kæmi til
víxlverkun vegna samningsins sem þá var gerður. Ég held að þetta sé tóm vitleysa. Auðvitað er það svo þegar einhverjir aðilar gera samning að slíkur samningur getur haft meiri eða minni áhrif. Það er alveg nákvæmlega sama hvort sá samningur var gerður í fyrra og átti að taka gildi í ár, hvort hann er gerður í ár og á að taka gildi næsta ár, hvort honum var frestað með lögum o.s.frv., að allar breytingar á hlutföllum geta haft afleiðingar. Og það þýðir ekkert að koma nú og segja að kjarasamningarnir sem gerðir voru á almenna vinnumarkaðinum hafi breytt þessu öllu saman nema viðurkennt sé að þessir samningar við BHMR hafi verið mjög slæmir samningar sem hefðu haft víxlverkun í för með sér. Þá á auðvitað að viðurkenna það og segja að þeir samningar hafi verið vondir samningar fyrir ríkisvaldið. Það er ekki hægt á miðri leið að breyta rökstuðningnum eins og hæstv. ráðherra hefur leyft sér að gera. Með því að gera það fellur hæstv. forsrh. í raun og veru í þá gryfju að viðurkenna að það hafi aldrei verið ætlunin að standa við þennan samning. Með öðrum orðum það orðalag sem hann notar, að 1. gr. samningsins mundi halda, þýddi það að hæstv. ríkisstjórn ætlaði sér aldrei að standa við þennan samning. Og þá eiga menn að vera menn að meiri og viðurkenna það. Allt það sem hæstv. forsrh. hefur sagt um þetta atriði er ákaflega ósannfærandi og skiptir þá engu máli hvort hann setur upp sinn ágæta geislabaug eður ei.
    Þá kem ég að fjórða atriðinu sem ég tók eftir að hæstv. fjmrh. skaut sér undan að svara. Hvar er nú hæstv. fjmrh.? Ég vil fá að sjá framan í hann og fá að tala við hann andartak vegna þess að hann kom sér hjá því að taka til máls um það atriði sem hv. 2. þm. Reykv. beindi til þeirra hæstv. ráðherra um viðtal við hæstv. forsrh. í Morgunblaðinu þar sem hæstv. forsrh. segir að hann hafi verið þeirrar skoðunar og hann hafi viljað og beitt sér fyrir því í hæstv. ríkisstjórn að rætt yrði við BHMR en hann hafi ekki fengið því ráðið. Ég man ekki orðalagið alveg nákvæmlega rétt en í þessa áttina var það. Og spurningin var: Getur verið að einhver annar hafi komið í veg fyrir það og hver gæti haft slík völd í hæstv. ríkisstjórn annar en hæstv. fjmrh.? Engin svör komu fram um þetta. Ef hæstv. fjmrh. er ekki við til að svara þessu er þó lágmark að hæstv. forsrh. segi okkur frá því skýrt og skorinort hverjir komu í veg fyrir það að tilraunir voru gerðar til þess að gera samning um þessi atriði. Og hæstv. forsrh. verður að segja okkur hvort það var hæstv. fjmrh. af því að það liggur í augum uppi að hæstv. fjmrh. liggur undir grun þangað til hæstv. forsrh. hefur staðfest að það hafi ekki verið hann sem beitti sér gegn þessu. Svona hálfkveðnar vísur frá hæstv. forsrh. gera það að verkum að hver einasti geislabaugur brotnar í mél vegna þess að eitt það ómerkilegasta sem menn grípa til í málflutningi er að lýsa því yfir að þeir hafi verið saklausir. Þeir hafi viljað allt hið besta. Þeir vildu gera það rétta en aðrir svokallaðir samstarfsmenn í hæstv. ríkisstjórn komu í veg fyrir það án þess að nefna það hverjir þessir ,,aðrir`` voru. Hæstv. fjmrh. kom hér í ræðustól en kaus að svara ekki þessu atriði. Á meðan því er ekki svarað liggur hæstv. fjmrh. undir grun. Sá eini sem getur sýknað hann og er hér staddur í þessum sal er hæstv. forsrh. og hann hefur tækifæri til þess hér á eftir.
    Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa þessi orð fleiri. Ég taldi brýna nauðsyn bera til að við 1. umr. málsins fengjust skýr svör við þeim fyrirspurnum sem hér hafa verið fluttar af hálfu hv. þm., bæði reyndar stjórnarþingmanna og stjórnarandstöðuþingmanna. Við sjáum á fundarsetu í dag áhuga þeirra sem settu þessi lög í sumar. Áhuga þess þingmeirihluta sem gerði hæstv. ríkisstjórn kleift að setja þessi bráðabirgðalög. Við sjáum á þessari gleðisamkomu hér í dag þar sem þetta mál er til umræðu hve margir af þeim sem gerðu hæstv. ríkisstjórn kleift að setja þessi lög eru hér mættir til þess að standa fyrir máli sínu. Við höfum heyrt fjöldann allan af hv. stjórnarsinnum verja þetta. Eða hvað? Það hafa tveir ráðherrar talað og einn óbreyttur hv. þm. úr liði stjórnarinnar og hann talaði gegn þessu máli.
    Það getur vel verið, hæstv. forseti, að það sé þreytandi að hlusta á langar umræður um þetta mál. En ég tel að þetta mál geti ekki farið til nefndar, geti ekki strandað í nefnd þar sem stjórnarmeirihlutinn ræður ríkjum, þar sem stjórnarmeirihlutinn ræður hve lengi málið er í nefnd, fyrr en þessum grundvallarspurningum sem hér hefur verið hreyft verður svarað. Og ég harma það svo sannarlega að hæstv. fjmrh. skuli hafa farið héðan úr salnum án þess að gera tilraun til að verja hendur sínar þegar fyrir lá að honum hafði verið kennt um að hafa stöðvað það að hæstv. ríkisstjórn hóf tilraunir til samningaviðræðna, tilraunir til þess að ná eðlilegri niðurstöðu beggja samningsaðila um það hvernig BHMR gæti tekið þátt í svokallaðri þjóðarsátt.
    Að endingu vil ég ítreka það sem komið hefur fram af hálfu hv. þm. Sjálfstfl. um stefnu flokksins og reyndar kom skýrt fram í útvarpsumræðum hér í gærkvöldi þegar formaður þingflokks sjálfstæðismanna sagði að setning þessara bráðabirgðalaga væri siðlaus athöfn. Hún væri tilræði við samningsréttinn, þingræðið, dómstólana í landinu og fólkið sem samið var við.