Launamál
Þriðjudaginn 23. október 1990


     Birgir Ísl. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það eru aðeins örfá orð. Þessi umræða er nú komin á lokastig. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir þau svör sem hann hefur flutt, núna sérstaklega í seinustu ræðu hans. Það tók reyndar þrjár ræður að fá svör við ýmsum mikilvægum spurningum í sambandi við þetta mál og málsmeðferð alla.
    Ástæðan fyrir því að ég stend hér upp að öðru leyti er sú að ég vil vekja sérstaka athygli á svari hans við þeirri spurningu sem bæði ég og svo hv. 2. þm. Reykv. beindum til hans um það hver hefði komið í veg fyrir að sú skoðun hæstv. forsrh. að taka bæri upp viðræður við BHMR strax eftir þjóðarsátt kæmi í framkvæmd. Nú er það komið í ljós og ég vil vekja athygli á því að hæstv. forsrh. upplýsir það hér að það var hæstv. fjmrh. sem kom í veg fyrir að teknar yrðu upp viðræður við BHMR strax eftir þjóðarsátt. Þetta er eitt af þeim atriðum sem mjög hefur verið gagnrýnt í sambandi við alla meðferð þessa máls, það hvernig hæstv. ríkisstjórn hunsaði BHMR eftir að þjóðarsáttarsamningarnir höfðu verið gerðir. Nú er það sem sagt upplýst hér og það vil ég undirstrika að það er hæstv. fjmrh. sem kom í veg fyrir það. Það er hæstv. fjmrh. sem fer með samninga við BHMR. Það er hæstv. fjmrh., sem undirskrifaði samningana,
sem kom í veg fyrir það. Það er hæstv. fjmrh. sem fer með samninga við BHMR. Það er hæstv. fjmrh. sem undirskrifar samningana, þessa frægu samninga, fyrir hönd ríkissjóðs sem fjmrh. Það er hann sem stóð í vegi fyrir því að teknar yrðu upp viðræður við BHMR strax að lokinni þjóðarsátt. Þetta liggur nú kristaltært fyrir eftir yfirlýsingu hæstv. forsrh. sem ég þá vil þakka fyrir.