Ársreikningar og endurskoðun lífeyrissjóða
Miðvikudaginn 24. október 1990


     Karvel Pálmason :
     Virðulegur forseti. Það er vissulega hart að það skuli gerast og þurfa að flytja svona mál inn á Alþingi eins og hér er um rætt. En eigi að síður er nú svo að það þarf að hemja og temja ýmsa sauði sem hafa látið undan síga í réttlætinu gagnvart lögum. Og það hafa menn séð og heyrt. Þess vegna er ég mjög þakklátur fyrir það að þetta frv. skuli komið fram. Svona frv. ætti auðvitað ekki að þurfa að sjá dagsins ljós á Alþingi. Því það er auðvitað skylda manna sem taka að sér forræði eins og þetta að sjá til þess að allt sé samkvæmt lögum eins og gert er ráð fyrir og menn ætlast til. En annað hefur komið í ljós og þess vegna hygg ég að þetta frv. sé flutt. Ég lýsi samþykki mínu við því.
    Síðasti ræðumaður kom hér inn á það að það þyrfti að fækka lífeyrissjóðum. Það kann að vera rétt. En hvernig ætla menn að gera það? Ætla menn að safna öllu því dóti saman hér á Reykjavíkursvæðið og deila þaðan út? Eða hvernig ætla menn að hafa það? ( Gripið fram í: Keilisnes.) Hvað segir hv. þm.? ( Gripið fram í: Keilisnesið.) Keilisnesið? Ekki er það nú skárra þó því væri safnað saman þar. En það er kannski stefna Kvennalistans, ég veit það ekki. Eins og hv. þm. Kvennalistans tekur fram þá væri best að safna þeim saman þar. ( Gripið fram í: Það er atvinnuskapandi.) Það kann vel að vera að það sé stefna Kvennalistans að það sé atvinnuskapandi þar. Mér hefur nú heyrst annað.
    En varðandi lífeyrissjóðina og lífeyrismálin þá kann vel að vera að það þurfi að fækka lífeyrissjóðum en það er ekki sama með hvaða hætti það er gert. Ég er þeirrar skoðunar að það kunni vel að vera að það gæti verið hægt að einfalda lífeyriskerfið í þá veru að lífeyrisréttindi ættu að vera þau hin sömu hvar sem er á landinu og í hvaða stétt sem er. En einn lífeyrissjóður fyrir alla landsmenn á ekki að vera með því marki brenndur að öllu eigi að safna saman á einn stað og menn vita hver sá staður er. Hann er hér á suðvesturhorninu, hvort sem menn tala um Keilisnes eða Reykjavík. Það breytir ekki málinu.
    Slíkur lífeyrissjóður, ef af honum yrði, ætti að vera deildaskiptur þannig að fjármagnið sem greitt er inn væri ávaxtað á þeim stað sem það er borgað. Það er komið nóg af því að mínu viti að sjóðum sé safnað saman hér í Reykjavík og deilt út til okkar hinna sem búum utan Reykjavíkursvæðisins eins og þeim þóknast hér syðra hverju sinni. Og ég hygg að menn þurfi að hafa þetta í huga þegar menn eru að tala um lífeyrissjóði og breytingar á því kerfi sem fyrir er. Ég er ekki að lofa það kerfi sem nú er ríkjandi að því er varðar lífeyrissjóði. Því þarf auðvitað að breyta. Og það veit auðvitað flm. þessa frv. sem hér er til umræðu kannski manna best að því þarf að breyta og verður að breyta ef það á að koma að notum fyrir þá sem eiga að njóta. En það verður ekki gert með því að hér sé safnað saman hópi manna til þess að deila út til okkar hinna sem erum utan við svæðið. Og ég er alveg viss um að hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson er sammála þessu því að hann er auðvitað jafnaðarmaður innst inni hvað sem út á við snýr í hans tali. Og við verðum auðvitað að vona að þeir sem fara með þessi mál sjái að það gengur ekki, þegar þessi mál verða uppstokkuð, að menn séu að tala um einn lífeyrissjóð, eitt bákn, hér í Reykjavík. Það gengur aldrei og er auðvitað fyrir séð. Það er nú verst að hæstv. fjmrh. er farinn. ( Gripið fram í: Hann er í öðru herbergi.) Hann heyrir ekkert, það er lokað. Og hæstv. umhvrh. vill ekki að hann heyri neitt því hann opnar ekki. ( Gripið fram í: Þyrfti að vera bein lína.) Já. Því var lofað af hæstv. fjmrh. á síðasta þingi að frv. um lífeyrissjóðsmál yrði lagt fram og vonandi afgreitt a.m.k. áður en þessu kjörtímabili lýkur. Og nú er að verða hver síðastur í þeim efnum. Ég vænti þess að hæstv. ráðherra gangist fyrir því að þessi mál verði hér innleidd og afgreidd á þessu þingi þannig að menn viti hvar þeir standa fótum í jötu til þess að tala um þessi mál í áframhaldi. Það er auðvitað út í hött að því er varðar lífeyriskerfið að t.d. BSRB eða opinberir starfsmenn skuli hafa margfaldan rétt á við hinn almenna launþega í landinu. Það gengur ekki öllu lengur.
    Mér er ljóst að neitanir koma víða frá að því er þetta varðar. En það er nú einu sinni svo að menn verða að taka af skarið og það á að gerast á hv. Alþingi. Það er ekki lengur að mínu viti hægt að mismuna launþegum í landinu eins og gert hefur verið að því er varðar lífeyrismál. Því verður að breyta. Ef núv. hæstv. fjmrh. getur ekki gengist fyrir því og knúið það fram ... (Gripið fram í.) Ég sagði það nú ekki, hæstv. ráðherra. En kannski maður hugsi svo þó ekki sé sagt. En auðvitað hlýtur að koma að því að einhver verður að taka af skarið í þessum efnum. Þetta gengur ekki svona öllu lengur. Og það væri kannski hin greiða braut fyrir hæstv. fjmrh. í stjórnmálavafstri að taka af skarið í þessum efnum. Ég a.m.k. hvet hann til að þessu verði hreyft og þetta verði gert í þá veru að einn lífeyrissjóður verði stofnaður en með deildaskiptingu eftir því hvar fjármagnið kemur inn og þar á að ávaxta það. Þannig að heimaaðilar fái að ráða hvernig fjármagninu verður varið og hvar það er geymt. Þetta er a.m.k. að mínu viti mjög mikilvægt atriði því ég á ekki von á því að landsbyggðarfólk í heild tekið muni una því að einn lífeyrissjóður verði starfræktur með þeim hætti að honum sé nánast skipað fyrir verkum héðan úr Reykjavík. Við höfum allt of marga slíka sjóði. Þeim þarf að fækka. Það þarf að færa valdið til heimaaðilanna, ekki síst í þessu tilviki eins og mörgum öðrum.