Ársreikningar og endurskoðun lífeyrissjóða
Miðvikudaginn 24. október 1990


     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Háttvirtur forseti. Ég álít að frv. Guðmundar H. Garðarssonar, hv. 14. þm. Reykv., sé mjög góðra gjalda vert og honum sé þökk fyrir það að leggja slíkt frv. fram. Ég álít að það sé ekki alveg rétt, sem kom fram hér áðan, að þeir sem hafa með fé annarra aðila og opinberra að véla, þó þeim beri skylda til að gæta þess og gæta laga og réttar, þurfi ekki að fá aðstoð til þess. Það er í rauninni nauðsyn. Ég hef sjálf unnið sem opinber starfsmaður lengi. Ég hef þurft að hafa opinbert fé handa á milli og ég hef álitið það aðstoð við mig að einhver utanaðkomandi hafi endurskoðað það. Ég álít að slíkt sé með alla sjóði og allt sem við erum með í höndunum sem aðrir eiga. Þetta er ekki lögreglueftirlit eða því um líkt heldur leiðbeining sem er öllum mönnum holl og góð. Ég álít líka að það sé nauðsynlegt að lífeyrissjóði landsmanna sé komið á fót og hann verði deildaskiptur. Það er langt frá því að ég vilji safna öllum lífeyrissjóðunum út á Keilisnes þó ég segði þetta í galsa núna áðan. Ég álít að það eigi einmitt að dreifa þeim um landið því að þeir sem eiga féð eiga líka að hafa með það að gera og yfir því að ráða.
    Ég álít líka að í lífeyrissjóði landsmanna ættu að vera jafnt konur og karlar og réttindi kvenna ættu að vera jafnhá réttindum karla. Svo hefur ekki verið hingað til í þeim lífeyrissjóðum sem við höfum kynnst því konur sem hafa unnið hörðum höndum heima hjá sér hafa ekki notið sömu lífeyrisréttinda og eiginmenn þeirra þó þær hafi í rauninni átt jafnmikið fé í þeim sjóði sem karlmaðurinn var þá talinn aðili að. Ég álít sem sagt að verði komið upp lífeyrissjóði landsmanna þá þurfum við að gæta þess að allir landsmenn, ekki bara sumir, eigi fullan rétt í honum. Og ef hæstv. fjmrh. gæti komið með slíkt frv. þá væri ég honum mjög þakklát.