Ársreikningar og endurskoðun lífeyrissjóða
Miðvikudaginn 24. október 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson ):
    Virðulegi forseti. Vegna fyrirspurnar frá hv. þm. Karvel Pálmasyni vil ég greina frá því að í samræmi við yfirlýsingar sem ég gaf hér í hv. deild og á Alþingi á síðasta þingi þá var skipuð í sumar nefnd til þess að fjalla um það frv. um lífeyrissjóðamál og lífeyrissjóði sem samið var af annarri nefnd fyrir nokkrum árum. Þetta frv. hafði legið í skúffu tveggja fyrirrennara minna í fjmrn. og verið þar óhreyft um langa tíð þegar ég kom í ráðuneytið. Ég tók hins vegar á síðasta ári þá ákvörðun að taka það upp úr skúffunni og hefja meðferð þess máls. Í nefndinni eiga sæti fulltrúar þingflokka. Það er breyting frá fyrri nefnd. Ég ákvað að gera það til þess að þingflokkarnir gætu þegar hafist handa við að ræða málið og undirbúa meðferð þess hér á þinginu. Í nefndinni eiga einnig sæti fulltrúar aðila vinnumarkaðarins, opinberra starfsmanna, Alþýðusambands Íslands, Vinnuveitendasambandsins og fleiri aðila, auk sambanda lífeyrissjóðanna. Ég er sannfærður um að í þessari nefnd eiga sæti margir af þeim mönnum sem hvað besta þekkingu og reynslu hafa á þessu sviði í okkar þjóðfélagi. Ég vona að innan fárra daga eða örfárra vikna komi það í ljós í nefndinni með hvaða hætti menn vilja halda á framhaldinu. Hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson á sæti í þessari nefnd og fleiri hv. þm. svo ég vona að á þessu þingi gefist kostur á því að taka þetta mál hér til meðferðar í samræmi við það sem við höfum ætlað okkur.
    Hins vegar er nauðsynlegt að það skapist nokkuð breið samstaða um málið því að þetta er eitt hið allra stærsta mál sem við fjöllum um varðandi lífskjör og efnahag í okkar landi á næstu árum.
    Ég lýsti hér í fyrra yfir stuðningi við það frv. sem mælt er fyrir í þessari umræðu og fjmrn. var eindregið fylgjandi því að það yrði afgreitt hér á þinginu og hvatti til þess að svo yrði gert. Það er vonandi að hv. Nd. átti sig á því á þessu þingi að afgreiðsla þessarar hv. deildar á málinu var skynsamleg og frv. nýtur eindregið stuðnings fjmrn. og mín. Ég hvet til þess að þessi hv. deild afgreiði frv. skjótt og vel nú á þessu þingi þannig að Nd. geti tekið það til umfjöllunar.