Ársreikningar og endurskoðun lífeyrissjóða
Miðvikudaginn 24. október 1990


     Karvel Pálmason :
    Virðulegi forseti. Það eru nokkur atriði sem hér hafa komið fram í umræðunni sem mér finnst ástæða til að ræða. Ég tek að sjálfsögðu undir það sem hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson sagði áðan að það er auðvitað ólíðandi að lífeyrisgreiðslur séu tvískattaðar og ég a.m.k. stend í þeirri meiningu að svo sé nú. Ef það er ekki rétt, ef ég fer með rangt mál, þá óska ég eftir því að hæstv. ráðherra greini frá því.
    Í öðru lagi það sem hv. þm. Karl Steinar Guðnason sagði hér áðan varðandi sjóðamyndunina í landinu og tók sem dæmi Atvinnuleysistryggingasjóð. Hann var á sínum tíma með lögum skyldaður til þess að ávaxta fjármagnið í heimabyggð en kerfið, hæstv. fjmrh., það neitaði og því leiðst það. Það virðist ekki skipta máli hvað löggjafarvaldið ákvarðar í þessum efnum, það er kerfið sem ræður. Hvað ætlar hæstv. Alþingi, löggjafarvaldið, lengi að líða svona hluti? Það skiptir í raun og veru engu þó að menn lögfesti hér breytingu á lífeyrissjóðakerfinu í þá veru að það verði einn deildaskiptur lífeyrissjóður með ávöxtun á þeim stöðum sem fjármagnið er borgað inn, kerfið mundi neita og því hefur liðist það. Það er auðvitað þetta sem menn verða að horfa á þegar þeir eru að tala um breytingu að því er varðar ákvörðun Alþingis og til framkvæmda í raun og veru.
    Ég þekki þetta tiltölulega vel vegna þess að líklega eini staðurinn á Íslandi sem braut kerfið á bak aftur á þessum tíma var Bolungarvík. Þar var það sem inn kom í Atvinnuleysistryggingasjóð ávaxtað í heimabyggð. Þar var það gert en því miður ekki annars staðar. Og það er kannski þetta sem menn þurfa að átta sig á, að það dugar ekkert þótt Alþingi setji lög, ef embættismannakerfinu líka þau ekki þá treður það á þeim og virðir að vettugi. Það er auðvitað umhugsunarvert fyrir hv. þm. og Alþingi sem heild að íhuga þetta, þessa staðreynd sem við höfum búið við. Það er kerfið sem hefur ráðið hér burt séð frá því hver vilji Alþingis hefur verið.
    Hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson kom inn á almannatryggingakerfið. Auðvitað er það tengt því sem hér er verið að ræða um. Hann minnti á það frv. sem er væntanlegt trúlega en ég treysti því nú, hæstv. fjmrh., að þér og kannski fleirum takist að stöðva að það komi inn á Alþingi eins og það er í stakk búið, að mér sýnist. Að mínu áliti yrði það slík hneisa, eins og frá því er gengið, að nánast engin orð tækju yfir það. Það er raunveruleg réttindaskerðing, nánast í hverju sem menn taka upp. Það er ekki bara tekjutengingartryggingin sem sem þar er um að ræða, það er fjöldamargt annað sem snýr að réttindasviptingu einstaklinga í þessu þjóðfélagi sem menn hafa hörðum höndum unnið sér í langa tíð. ( Fjmrh.: Heldur þú að Helgi Seljan hefði samið svoleiðis frv.?) Nei, ég held það ekki, hæstv. ráðherra, enda eruð þið alþýðubandalagsmenn búnir að losa ykkur við hann. ( Fjmrh.: Losa okkur við Helga Seljan?) Er hann ekki horfinn? Hann er horfinn úr þingsölum. (Gripið fram í.) Nei, hæstv. ráðherra, það hvarflar ekki að mér að

Helgi Seljan hefði nokkurn tímann staðið að slíkum hlutum, enda var hann ekki með þeim, það veit ég. Og ég treysti því að hans félagar þá, ef það má orða það svo, í Alþb., standi við hlið hans í þessu máli. --- Er hæstv. ráðherra að gefa merki? ( Fjmrh.: Nei, nei.) Ég treysti því hæstv. ráðherra ... ( Fjmrh.: Það er bara gott að þú ert búinn að átta þig á því að það voru góðir menn sem sömdu þetta frv.) Voru það góðir menn? Ég veit ekki hvað hæstv. ráðherra er að fara með þessu því ég var nú eiginlega að tala gegn þeim mönnum sem eru á þeirri skoðun sem þarna kemur fram. Það á ekki bara að tekjutengja lífeyrisbætur, heldur erum við að svipta menn réttindum sem þeir eru búnir að ávinna sér í tryggingakerfinu. Meira að segja er gert ráð fyrir því að afnema þá löggjöf sem var samþykkt hér á Alþingi einróma 1989, að því er varðar það að sjúklingar á sjúkrastofnunum sem verða fyrir mistökum af hálfu lækna eða starfsfólks heilbrigðisstofnana geti fengið bætur. Með þessu frv. á, að því er ég best sé, að afnema það algjörlega, eða a.m.k. hef ég ekki séð neitt sem á að koma í staðinn fyrir það. Og það eru fjöldamörg önnur dæmi sem mér sýnist menn vera með þessu frv. að snúa til fortíðar að því er varðar réttindabætur fólks og einstaklinga.
    Ég treysti því a.m.k., hvað sem hæstv. ríkisstjórn kann að gera í þessum efnum, og ég hef ekki allt of mikla trú á sumum þar innan dyra, að Alþingi láti ekki slíkt frv. fara hér í gegn eins og það er í pottinn búið og málum er háttað í því frv. sem mér sýnist að eigi að leggja hér fram. Kannski menn sem að því standa ætli að hafa það í farteskinu í kosningabaráttunni að vori. En þeir sem það ætla sér munu ekki ríða feitum hesti frá þeim viðskiptum við almenning. Það breytir engu til hvaða pólitískra flokka menn telja sig, menn finna réttlætið í hlutunum og ranglætið líka. Þar greina menn í milli, hvar í flokki sem þeir eru staddir. Og það ætti kannski að vera veganesti þeirra manna sem ætla nánast að kollvarpa því tryggingakerfi sem við höfum búið við í langan aldur. (Gripið fram í.) Ja, hvað eru menn að tala um, hæstv. ráðherra, er ekki frv. um það? Þá er hæstv. ráðherra ósammála Helga Seljan. (Gripið fram í.) Hann hafði fyrirvara á þessu frv. ( Gripið fram í: Eigum við ekki bara að ræða frv. þegar það kemur fram?) Hvað segir hv. þm.? (Gripið fram í.) Það kann vel að vera, en hv. þm. sem greip fram í var ekki við umræðuna áðan þegar hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson innleiddi þessa umræðu. ( Gripið fram í: Ég hef verið hér við í allan dag.) Þá hlýt ég, hv. þm., að eiga rétt á því að taka undir með þeim sem var frummælandi af því að þetta er auðvitað tengt því máli sem við erum að tala um. ( Fjmrh.: Þú ræðir það við þingflokk Alþfl.) Er málinu best borgið þar, hæstv. ráðherra? Er það ekki í öllum þingflokkum? ( Fjmrh.: Bara stjórnarflokkunum.) Já, en það eru nú fleiri en Alþfl. sem eru stjórnarflokkar, að ég best veit. (Gripið fram í.) Já, þið eruð náttúrlega nánir kunningjar, hæstv. ráðherrar fjármála og utanríkismála, þannig að þið ræðið grannt saman og skiljið hvorn annan mæta

vel, ekki síst á rauðu ljósi.
    En ég hygg að hvað sem menn segja þá er þetta auðvitað nátengt þegar menn eru að tala um þessi mál. Og ég ítreka enn það sem hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson sagði áðan, með frv. sem menn eru hér að ræða varðandi almannatryggingar og breytingar á þeim eru menn enn að auka ranglætið í þjóðfélaginu og er það nóg fyrir. Menn eru enn að auka á ranglætið í þjóðfélaginu og ég trúi því ekki að þeir sem kalla sig hina sönnu jafnaðarmenn, auðvitað vita menn við hvað er átt þegar höfðað er til þessara orða, það er formaður Alþb., hæstv. fjmrh., sem viðhefur þessi orð --- við, hinir sönnu jafnaðarmenn, ég trúi því ekki að þeir ætli að stuðla að því að slíkt ranglæti, eins og þetta frv. að mínu viti ber með sér og fleiri, nái fram að ganga hér á Alþingi. Það yrði til þess að kollvarpa öllu því sem menn hafa verið að vinna að til réttlætis í þessu þjóðfélagi. Og ég ætla engum hv. þm. það, a.m.k. ekki í hv. Ed., að þeir láti það yfir sig ganga, hvað sem kann að verða í hinu neðra.