Ársreikningar og endurskoðun lífeyrissjóða
Miðvikudaginn 24. október 1990


     Flm. (Guðmundur H. Garðarsson) :
    Virðulegi forseti. Ég er ekki viss um það að allir hv. þm., og jafnvel ekki hæstv. fjmrh., geri sér grein fyrir því að við erum að tala um eitt af grundvallaratriðunum og hornsteinunum í lýðræði og þingræði á Íslandi í dag, sem felst í því að það er ekki hægt að skylda mann með lögum til greiðslu í sjóð, 10% í þessu tilviki, eitt árið og koma svo áratug síðar og segja: Nei, heyrðu fyrirgefðu, það var aldrei meiningin að þú fengir neitt til baka úr viðkomandi sjóði af því sem þú greiddir samkvæmt lögum.
    Þetta er raunverulega það sem felst í því að skerða tekjutryggingu gagnvart almennum lífeyrissjóðsfélögum úti á hinum almenna markaði. Ég skal einfalda málið þannig að menn skilji þetta. Það er því miður oft þannig að það er eins og menn þurfi að lesa Litlu, gulu hænuna aftur til að skilja hvernig þeir eiga að lesa.
    Árið 1981 eða 1982, ég man ekki nákvæmlega, virðulegi forseti, hvort árið það var, voru samþykkt hér á hinu háa Alþingi lög sem skylduðu alla vinnufæra menn til að vera í lífeyrissjóðum. Þar með voru allir skyldaðir til að afhenda 10% af sínum launum inn í einhvern lífeyrissjóð. Til þess tíma höfðu þeir sem ekki höfðu verið í lífeyrissjóðum rétt á grunnlífeyri að viðbættri tekjutryggingu úr almannatryggingakerfinu. Núna hefur hæstv. trmrh. kynnt í blöðum, áður en málið kemur inn á þing, en þannig að það er hægt að ræða það hér á hinu háa Alþingi, að það eigi að leggja fram frv. til laga sem felur það í sér að sá sem var skyldaður til að vera í almennum lífeyrissjóði 1981 hann skuli vera jafn --- ég segi illa staddur --- og hann hefði aldrei verið í lífeyrissjóði. Hann fær ekki krónu af því sem hann hefur greitt í sjóðinn vegna þess að hann fengi það sama, þótt hann hefði aldrei verið í sjóðnum, út úr almannatryggingakerfinu ef þessi lög ná fram að ganga og ef núgildandi lög verða einnig í gildi. Er hægt að ganga lengra í því að koma aftan að fólki en með þessum hætti? Ég segi nei. Það er ekki hægt að ganga lengra í því að svíkjast aftan að manni en annaðhvort að hvetja hann til að gera af frjálsum og fúsum vilja einhvern hlut eða skylda hann og koma svo aftur nokkrum áratugum síðar í skjóli valdsins og segja: Það stóð aldrei til að þú fengir neitt út úr því sem þú hefur lagt inn í viðkomandi sjóði. Þetta er eignasvipting. ( Fjmrh.: Þetta er kjaftæði.) Ég ætla, virðulegi forseti, að láta það koma inn í sögu þingsins að hæstv. fjmrh. hafi sagt að þetta væri kjaftæði. Ég held að hæstv. fjmrh. ætti að kynna sér hvernig tekjutrygging er skert hjá þeim sem fá greiðslur út úr almennu lífeyrissjóðunum. ( Gripið fram í: Hann veit það, hlýtur að vera.) Hann veit það. Ég segi það fyrir mitt leyti að ég skammast mín fyrir það að maður sem ég þarf að ávarpa hér sem hæstv. fjmrh. skuli leyfa sér að segja að þetta sé kjaftæði. Þetta snertir þúsundir manna, þúsundir láglaunamanna, lágtekjufólk. Það eru ekki allir hátekjumenn eða í íslensku valdakerfi. Það eru ekki allir sem hafa verið þingmenn, ráðherrar, bankastjórar, prófessorar eða hvað það heitir og taka margfaldan ellilífeyri út úr kerfinu. Ég held að hæstv. trmrh. og hæstv. fjmrh. hefðu þá átt að breyta almannatryggingalögunum þannig að jafna niður það sem þeir fá margfalt, margfalt á við það sem hinir fá sem eru skertir af lágum tekjum.
    Ég ætla ekki, meðan ég er þingmaður, að sitja undir því ranglæti, það skal hæstv. fjmrh. vita og aðrir hv. þm. Þess vegna mun ég berjast fyrir því með tvíþættum hætti. Annars vegar með því að koma með frv. til breytinga á bæði skattalögum og lögum um almannatryggingar sem felur það í sér að allir sitji við sama borð gagnvart almannatryggingalögunum hvað lífeyrisgreiðslur áhrærir og að skattalögum verði breytt þannig að menn leiðrétti þá svívirðu að halda því fram að 50 þús. kr. séu lágtekjur, þær eru lág-, lág-, lágtekjur. Það væri nær, og það þarf að gera, að breyta skattfrelsismörkunum þannig að einstaklingar með 90 -- 100 þús. kr. á mánuði verði skattlausir.
    Það er ekkert aðalatriði, eins og hæstv. fjmrh. er að segja hér trekk í trekk, að hluti af þessu fer til sveitarfélaga og það fer minna til ríkisins. Þetta snýst ekki um kerfið, það er þetta sem er vandi íslenskrar þjóðar, að valdamenn halda að allt snúist um kerfið. Þetta snýst um fólkið sjálft, einstaklinginn, sem þarf að geta dregið fram lífið, lifað mannsæmandi lífi.
Um það snýst þetta en ekki kerfið. Það má þá fækka ráðuneytum og það má þá skera niður eitthvað af risnunni. Það má þá lækka greiðslurnar til þeirra sem fá margfaldar ellilífeyrisgreiðslur í gegnum margföld störf. Það væri miklu nær að ræða það út frá því en ekki hinu atriðinu, þ.e. hvernig þessu er skipt. Það má draga saman í rekstri ríkis og sveitarfélaga. Þess vegna endurtek ég það, virðulegi forseti, að menn ættu að gera sér grein fyrir því að ekki er hægt að semja og samþykkja lög sem eru þess eðlis að menn geti komið hér sem valdamenn á hinu háa Alþingi 10 -- 20 árum síðar og sagt: Það stóð aldrei til að þessum lögum yrði fullnægt. Það stóð aldrei til að þið fengjuð þau réttindi sem lögin gera ráð fyrir. Því mótmæli ég fyrir hönd þeirra þúsunda sem líða fyrir þetta ranglæti.