Sektarmörk nokkurra laga o.fl.
Miðvikudaginn 24. október 1990


     Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson) :
    Hæstv. forseti. Frv. það um breytingu á sektarmörkum nokkurra laga og fleira sem er lagt fyrir hv. þingdeild á þskj. 54 fjallar um breytingu á sektarviðurlagaákvæðum í yfir 40 lögum, lögum sem hafa að geyma ákvæði þar sem sekt er tiltekin sem krónutala. Frv. var lagt fram á síðasta Alþingi en hlaut þá ekki afgreiðslu. Frv. er flutt í framhaldi af endurskoðun ákvæða í sérrefsilögum á árunum 1982 og 1983 en þá var breytt sams konar ákvæðum í um 120 lögum. Frv. var undirbúið í tengslum við störf lagahreinsunarnefndar sem starfað hefur undanfarin ár samkvæmt ályktun Alþingis. Hefur verið tekið mið af tillögum sem sú nefnd hefur gert um brottfall laga sem úrelt eru talin og er þá ekki fjallað um refsiviðurlög í þeim lögum.
    Endurskoðun sektarákvæðanna miðar að því að almennt sé byggt á sektarhámarki hegningarlaganna en sérstakt lágmark og hámark að öðru leyti fellt niður. Sektarhámark hegningarlaganna er nú 4 millj. kr. samkvæmt lagabreytingum frá árinu 1985. Má í sjálfu sér segja að tímabært væri að hækka þá fjárhæð þótt það sé ekki lagt til með þessu frv.
    Auk breytinga á sektarákvæðum felur þetta frv., eins og hin fyrri lög um sama efni, einnig í sér breytingar á ákvæðum þar sem vísað er til málsmeðferðar til samræmis við gildandi réttarfar.
    Loks eru lagðar til breytingar á nokkrum dagsektarákvæðum í lögum enda þótt þar sé ekki um heildarendurskoðun slíkra ákvæða að ræða.
    Ekki er hér ástæða til að fjalla um einstök ákvæði frv. heldur nægir að vísa til athugasemda með því.
    Rétt er að taka fram að við undirbúning frv. sendi dómsmrn. frumvarpsdrög öðrum ráðuneytum til athugunar.
    Hæstv. forseti. Ég leyfi mér að leggja til að frv. þessu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.