Samvinnulög
Fimmtudaginn 25. október 1990


     Fyrirspyrjandi (Jóhannes Geir Sigurgeirsson) :
    Virðulegi forseti. Ég ber hér fram fsp. um hvað líði framlagningu frv. til nýrra samvinnulaga. Ég ber þessa fsp. fram í framhaldi af þáltill. sem ég var 1. flm. að á síðasta ári um sama mál en fékk ekki lokameðferð hér í þingi, fyrst og fremst vegna loforðs viðskrh. í umræðum um það mál um að frv. að nýjum samvinnulögum yrði lagt fram í upphafi þess þings sem nú situr.
    Ég vil ítreka það að ég held að það sé mikil nauðsyn á að við fáum hér fjölþætt nútímaform fyrir okkar viðskiptahætti. Til viðbótar því bíður nú áframhaldandi endurskipulagning á samvinnuhreyfingunni eftir nýtískulegu formi.
    Þá vil ég einnig benda á að það hefur gerst núna, bara á einu ári og miklu hraðar en nokkurn óraði fyrir, að fjármögnun atvinnulífsins er að færast í það form að einstaklingar, félög og fyrirtæki leggi fram fé í formi áhættufjár. Þarna vantar samvinnuhreyfinguna tæki til þess að geta tekið þátt í þessum leik.